29.05.1933
Sameinað þing: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (1789)

183. mál, þjóðaratkvæði um aðflutningasbann á áfengum drykkjum

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég hefi litlu að svara út af þeim orðum, sem féllu. Ég er sammála hv. þm. Borgf. um, að ekki sé rétt, að þjóðaratkv. fari fram samtímis alþingiskosningum, heldur verði það alveg sérskilið.

Um hitt atriðið, hvort við flm. gætum ekki fallizt á að fresta atkvgr. til næsta árs, þá get ég ekki sagt um álit hinna flm. á því, þar sem ég hefi ekki haft aðstöðu til þess að bera mig saman við þá. En ég tel sjálfsagt að hraða afgreiðslu málsins sem mest má verða, því að dráttur á afgreiðslu þess yrði ekki til að bæta það ástand, sem nú er. Ég held, að heppilegast verði, frá hvaða sjónarmiði, sem það er skoðað, að útkljá þetta mál sem allra fyrst. Það má að vísu segja, að eðlilegra væri að bíða þar til stærri hópur landsmanna heldur en þeir, sem eru 25 ára eða eldri, fengju að láta í ljós álit sitt á þessu máli, en ég tel þetta ekkert aðalatriði. Bannlögin voru sett af þeim mönnum, sem þá höfðu kosningarrétt, og því ekki óeðlilegt, að nú ráði sama aldurstakmark og þá. Ég get því ekki fallizt á að fresta atkvgr. til næsta árs.

Annars er ég undrandi á því, að hv. þm. skuli setja afgreiðslu þessa máls í samband við stjskr., því að þó að líklegt sé, að hún verði samþ. í því formi, sem hún nú hefir, þá er ekki vitað um það, hvernig næsta þing verður skipað, sem á að koma saman eftir þingrofið. Og þó að sterkar líkur séu til þess, að það þing samþykki stjskr., þá er engin vissa fyrir því enn sem komið er.

Þess vegna er óeðlilegt að setja afgreiðslu þessa máls í samband við önnur mál, sem gætu tafið það ekki aðeins um eitt ár, heldur ef til vili um fleiri ár.

Ég held því, að hv. þm. Borgf. vilji með þessu hindra, að þjóðarviljinn komi í ljós í þessu máli, og það teldi ég illa farið. Mér sýnist rétt að hraða afgreiðslu málsins sem mest og láta fram fara þjóðaratkvæði í haust, ef þáltill. verður samþ. Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja umr. um þetta meira en orðið er.