22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég hefi ekki nema gott að segja um afstöðu hv. þm. Vestm. til samningsins. Hann segir, að sér líki ekki öll ákvæði hans, en segist þó greiða atkv. með honum, vegna þess að hann sér enga aðra sölumöguleika fyrir kjötið. Og þetta er eðlilegt. Það er svo um alla samninga, eða flesta, að á þeim er bæði kostur og löstur. Þetta leiðir af því, að samningsaðiljar verða minnst tveir og verða báðir að slaka til, ef samningar eiga að nást. Það er sannfæring mín, að í þessu tilfelli hafi Norðmenn slakað meira til frá því, sem var hugsað í byrjun og telji slíka, að þeir hafi gert það meira en við gerðum.

Viðvíkjandi því, sem talað hefir verið um 12. gr. samningsins vil ég benda á, að í l. frá 1926 er sagt, að lúka megi máli botnvörpunga með áminningu. Og þetta hefir verið gert, þegar ekkert benti til þess að þeir væru að ólöglegum veiðum innan landhelgi. Þegar þetta er borið saman við 12. gr., þá er þar aðeins skýrara tekið fram, að veiðiskip, þegar um slíkt tilfelli er að ræða, skuli ekki leiða fyrir dóm. Og þetta er svo skýrt orðað, að ég hygg, að ekki muni mörg tilfelli koma fyrir, að sek skip sleppi vegna þessa ákvæðis, einmitt vegna þess, hve ákvæði 12. gr. eru skýr.

Það má að vísu hugsa sér það, að skipstjóra, sem er að óleyfilegum veiðum innan landhelgi, heppnist að leiða mjög sterkar líkur að því, að hann hafi rekið inn fyrir línuna undan straumi eða vindi. En hve oft verður það hægt? Ég hygg, að slíkt beri ekki oft við. Það verður erfitt að sanna, að þessi sé orsökin, en ekki einn eða annar sjálfráður eða ósjálfráður trassaskapur. Ég tel, að ekki sé neitt lítið, sem heimtað er með þessari sönnunarskyldu. Varðskipsforingjarnir eiga að dæma um það, hvort það sé eftir öllum atvikum ljóst, að svona sé ástatt. Ég er sannfærður um, að slík tilfelli, að það sé hægt, verða ekki mörg. Það er því sýnt og sannað, að 12. gr. verður okkur aldrei hættuleg. Og ef nú skip getur sýnt og sannað, að það hafi óviljandi rekið inn í landhelgi, hvað á þá að gera? Á að fara að refsa því fyrir það? Nei, það mundi aldrei verða gert. Og þá er eigi heldur rétt að taka slíkt skip inn í höfn og tefja það þar með frá veiðum. Og þótt ekkert ákvæði væri um þetta, þá mun sú regla oft vera notuð af varðskipsforingjunum, þegar um vafasamt og lítið brot er að ræða, að veita áminningu og reka skipin frá landhelgislínunni. En þegar skipin í björtu veðri eru langt fyrir innan landhelgislinu að veiðum, þá geta þau vitanlega ekki afsakað sig með því, að um athugaleysi sé að ræða. Skipstjórarnir eru skyldir að athuga, hvar þeir eru staddir. Ef þeir eru að fiska nálægt landhelgislínunni og fara langt inn fyrir, þá eiga þeir að sjá það sjálfir, og þá er vitanlega spursmálslaust, að um ásetning er að ræða.

Út af þeim orðum, sem hv. þm. Ak. sagði um gang þessa máls á þinginu í fyrra, vil ég segja það, að þetta mál lá fyrir því þingi. Norðmenn voru búnir að segja upp samningnum. Þm. vissu, að Norðmenn vildu ekki taka undir neina samninga þá. En hvers vegna vöknuðu ekki hv. þm. þá? Hví komu þeir ekki þá fram með tollstreitufrv. sín? Nei, þeir gerðu það ekki! Hvað þýðir það? Það þýðir, að þeir ætluðust til, að samið væri við Norðmenn. Þetta var gert og sá samningur liggur fyrir nú. Stj. hefir því gert það, sem ætlazt var til, að hún gerði. Hv. þm. Ak. taldi, að stj. hefði gengið of langt í því að fylgja þessum samningi fram. En það gerir stj. af hreinni nauðsyn. Hún sér engan annan markað fyrir það kjöt, sem um ræðir í samningnum. Það er rétt, að norski markaðurinn er að þrengjast. En það var vitað áður. Og það verður að vorkenna Norðmönnum það, þótt þeir vilji ekki flytja inn, með stórum lækkuðum tolli, það kjöt, sem þeir telja sig ekki hafa neitt brúk fyrir. Það er varla hægt að ætlast til, að nein þjóð stuðli að innflutningi þeirrar vöru, sem hún þarf ekki að nota. Hv. þm. álítur þessi fríðindi, sem við fáum, of dýru verði keypt. Já, það er nú einmitt þetta, sem um er deilt. Og þótt hv. þm. hafi talið fram alla þá galla, sem á samningnum kunna að vera, þá hefir hann þó ekki sannfært mig um það, að þessi fríðindi séu of dýru verði keypt. Eða hvað eigum við þá að gera við allt að 11 þús. tunnur, sem samningurinn gefur okkur rétt á að flytja inn til Noregs næsta ár? Ekki er til neinn innlendur markaður fyrir þær. Og ekki er í önnur hús að venda með bær erlendis. Ef þær ættu ekki að stórspilla innanlandsmarkaðinum yrði að eyðileggja þær. Og því meiri er þörfin, ef þrengist um enska markaðinn. (GÍ: Hvað á þá að gera við það kjöt, sem ekki fer til Noregs?) Já, það munar þó alltaf nokkuð um 10 þús. tunnur. (MJ: Selja Norðmönnum það!) Nei, gefa þeim það, ef við fellum samninginn! Það er réttara að eyðileggja kjötið innanlands heldur en að gefa Norðmönnum það, eftir að tollstríð er hafið á milli landanna. Og þótt síldarútvegsmenn tali um að kaupa kjötið, sem alla tryggingu vantar nú reyndar fyrir, að verði gert, þá verður samt að eyðileggja það, því annars mundi það alltaf verða fyrir öðru kjöti og eyðileggja markað á því.