12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2871 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

Afgreiðsla þingmála

Jón Baldvinsson:

Ég stend upp vegna þess, að ég var staddur í Nd. hér um daginn, og var þá mál þar til atkvgr., sem ekki náði samþykki helmings dm. Enginn greiddi atkv. á móti, en svo margir sátu hjá við nafnakall, að málið fékk ekki meiri hluta d. með sér, og var það þess vegna lýst fallið. Til þess að málið hefði náð samþykki þurftu 14 að greiða atkv. með því, og þá einn á móti.

Nú er hér í d. frv. talið samþ., sem 6 atkv. eru greidd með og ekkert á móti. Þetta virðist mér dálítið annar skilningur á þingsköpunum heldur en fram hefir komið í hv. Nd. Kemur slíkur mismunur á starfsháttum d. einkennilega fyrir sjónir. Það getur vel verið, að okkar hæstv. forseti skilji þingsköpin rétt, en þá skilur hæstv. forseti Nd. þau rangt. Það er mjög óeðlilegt, að ekki gildi sömu reglur um atkvgr. í báðum d.

Ég vildi aðeins benda á þetta, af því ég var af tilviljun viðstaddur þá atkvgr. í Nd., sem ég benti á til samanburðar við atkvgr., sem hér hefir nú farið fram.