24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Reykv. virtist ekki vorkenna okkur hér heima að eta allt það kjöt sjálfir, sem á að fara til Noregs. Ég segi fyrir mig, að ég get ekki borðað meira kjöt en ég geri nú, og ég hugsa, að svo sé um fleiri, jafnvel um hv. þm. sjálfan. Það má vera, að eitthvað sé hægt að efla markaðinn frá því, sem nú er, en kjöt er það dýr vara, enda þótt bændur fái ekki mikið fyrir hana, að ég hygg, að ekki vinnist mikið á í því efni hér innanlands. En kjötmarkaðurinn og það, hvaða verð er hægt að fá fyrir kjötið, er eitt stærsta launaspursmálið í landinu, sem fjallar um laun allrar bændastéttarinnar. Það eru 44% af landsmönnum, sem eiga launakjör sín undir þessu. Og þó að kjötverðið sé bezt innanlands, þá er það ekki betra en það, að á síðasta hausti kostaði 1 pund ekki meira en 25—30 aur. á sama tíma sem tímakaup verkamanna hér í Rvík var 1.36 kr. Það er gamalla manna mál, að þá væri verðlag í jafnvægi, þegar kjötpundið kostaði jafnmikið og fengist fyrir eins tíma vinnu. Af þessu getur maður séð, hversu höllum fæti bændastéttin stendur nú. Það þarf ekki annan samanburð en þennan til að sjá hversu stórt þetta mál er, að halda bezta kjötmarkaðinum, sem við höfum völ á. Þetta er ekki lítið launaspursmál, þótt það séu bændur, sem í hlut eiga.

Hv. þm. ákærði stj. fyrir að hafa ekki leitað fyrir sér um kjötmarkað og nefndi Danmörku, sem líklega fyrir einhverja möguleika. Má vera, að hann hafi þetta frá mér, því stj. athugaði einmitt um möguleika til að selja meira kjöt í Danmörku. Og einmitt um það leyti, sem sagt var upp verzlunar- og siglingasamningum við Norðmenn, átti ég tal við forsrh. Dana, og hann lofaði að taka málið til athugunar, því danska stj. þarf að kaupa mikið af kjöti handa sjúkrahúsum, fangelsum og fleirum opinberum stofnunum. Síðan átti ég fund í haust með forsrh. og verzlunarmrh. Dana um þetta sama efni. Þá höfðu þeir athugað málið og töldu nú enga möguleika til að kaupa kjöt frá Íslandi, og ég minnist þess, að verzlunarmrh. sagði, að þegar þeir gætu keypt kjöt í sínu landi fyrir 5 aur. pundið, þá gætu þeir ekki keypt af okkur fyrir margfalt hærra verð.

Þessi 5 aur. markaður er nú heldur ekki neitt himnaríki fyrir íslenzka bændastétt. Ég nefni þetta nú að gefnu tilefni, en ég hefi ekki getið áður um þessa misheppnuðu tilraun til að selja ísl. kjöt. Þetta er eitt af mörgu, sem sýnir, að við megum sízt sleppa þeim möguleikum, sem við eigum kost á.