24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Mér þótti einkar athyglisverður sá samanburður, sem hæstv. forsrh. gerði á kjötverði síðasta árs og launum verkamanna. Hann sagði, að það hefði verið talið, að kjötverð og tímakaup verkamanna ætti að standast á, og mér skildist hann telja það góða reglu, eða a. m. k. reglu, sem vert væri að athuga. Ég get ekki skilið, hvað hann hefir meint með þessum samanburði, ef hann álítur þetta ekki góða og gamla reglu, sem rétt væri að athuga, hvort ekki væri vert að taka upp aftur. Hæstv. forsrh. upplýsti nú það, að kjötverð síðasta árs hafi verið 25—30 aur. pundið. Og samkv. því ætti kaup verkamanna að vera 25—30 aur. um tímann. (BSt: Nei, kjötpundið kr. 1.36). Það var vel gert af hv. þm. að hlaupa undir bagga, en ég er nú jafnnær þrátt fyrir þetta. Ég sé ekki, að það, sem hæstv. stj. leggur til í þessum efnum, bendi neitt í þá átt, að kjötverðið fari nokkuð nálægt þessu. Mér þykir rétt úr því að hæstv. ráðh. var að gera þennan samanburð á launakjörum bænda, eins og hann orðaði það, að drepa á til samanburðar upphæðir, sem eru laun þeirra manna, sem síldveiðar stunda, og enginn neitar, að atvinnurekstri þeirra er nokkur hætta búin með samningnum, þótt menn greini á um það, hversu stórfengleg þessi hætta sé. Eftir því, sem ég veit bezt, þá munu síldveiðar síðasta árs hafa numið nálægt þessu: að saltað hafi verið 250 þús. tunnur, og má gera ráð fyrir 6—7 kr. meðalverði á tunnu. Þetta gerir 1750 þús. kr. Í bræðslu voru seld 600 þús. mál á 3 kr., sem gerir um 1800 þús. kr. Þetta er samtals 3550000 kr. Sé gert ráð fyrir, að fullur 1/3 fari til skipshafnar, þá hafa þeir, sem síldveiðar hafa stundað , fengið fyrir vinnu sína kr. 1200000.00. En verð þess kjöts, sem selt var til Noregs, — innan við 7 þús. tunnur, með ekki nema 25 kr. tolli á tunnu, ef endurgreiðsla fæst, er því áreiðanlega ekki meira en 400 þús. kr. Allt það kjöt, sem selt var til Noregs, nemur því ekki nema tæpum 1/3 af því, sem meta má aflahlut þeirra manna, sem við síldveiðar fást. Úr Rvík og Hafnarfirði gengu á síðasta sumri 4 togarar og 12 línuveiðarar, sem stunduðu saltsíldveiðar og lögðu lítilsháttar upp til bræðslu að auki. Á þessum 16 skipum voru 305 menn. Tekjur þeirra af þessari veiði námu um 250 þús. kr. Auk þess gengu 7 togarar úr Rvík til bræðslusíldveiða og munu hafa verið á þeim um 180 menn og þeirra tekjur hafa orðið um 160 þús. kr. Nú er vitað, að svo að segja allir sjómenn eru andvígir samningnum. Það munu vera komin um 2 þús. mótmæli gegn honum og fjöldi er á leiðinni. Útgerðarmenn hafa margir hverjir sagt, að þeir treysti sér ekki til að gera út á síld í sumar, ef samningurinn verði samþ. Þetta hafa flestallir eigendur þeirra 16 skipa, sem gengu úr Rvík og Hafnarfirði, sem ég hefi átt tal við, sagt. Ég hygg, að ef samanburður er gerður á þessu tvennu, á launakjörum bænda í sambandi við sölu á kjöti og launakjörum sjómanna í sambandi við síldveiðar, þá sé a. m. k. ekki of mælt, að full ástæða sé til þess að líta ekki minna á hagsmuni manna, sem við síldveiðar fást, því þar er um meira verðmæti að ræða.

Ég skal ekki lengja mjög þessar umr., en ég get þó ekki látið hjá líða að benda á tvennt í sambandi við umr. og meðferð þessa máls. Annað er það, sem hefir komið fram bæði í ræðu hæstv. forsrh. og hv. þm. G.-K., að það sé hættulaust að veita þessi fríðindi, vegna þess að þau fríðindi, sem áður hafa verið veitt, hafi ekki verið notuð til fulls. Mér blöskrar, að slíkar ástæður skuli bornar hér fram á Alþingi. Þegar um samninga er að ræða, verður hver samningaaðilinn um sig að ganga út frá, að þau réttindi, sem látin eru í té, verði notuð, og er enginn vafi á því, að sótzt er eftir þessum réttindum einmitt af því, að hinn aðilinn hyggst að nota þau. Þau 4 ár, sem síldareinkasalan starfaði, voru Norðmenn útilokaðir frá því að nota þessi fríðindi, en nú er opnað aftur, og er ekki hægt að setja samskonar loku fyrir nema með því að segja samningunum upp.

Loks vil ég geta þess, að mér finnst málið sótt af óeðlilega miklu kappi af hæstv. stj., og hefir því verið lýst yfir af hæstv. forsrh., að stj. mundi leggja líf sitt við, að málið nái fram að ganga. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta næstum því ósæmilegt gagnvart þinginu. Það hefði verið sæmilegra fyrir stj. og samninganefndarmennina, að málið hefði verið lagt þannig fyrir þingið, að þeir hefðu sagt sem svo, að þeir hefðu ekki getað fengið betra tilboð en hér er um að ræða, og Alþingi verði að skera úr því þvingunarlaust, án þess að stj. sem slík leggi annað eins við og hér er gert, hvort það vilji hafna þessum samn. eða samþ. hann.

Eins og ég hefi áður sagt í umr. um þetta mál, þá tel ég ekki nokkurn minnsta vafa á því, að verði þessum samningi hafnað, þá muni Norðmenn fljótt taka upp samninga á ný, samninga, sem áreiðanlega verða hagfelldari en þessir, sem hér er um að ræða. Og sérstaklega finnst mér þessi hraði, sem stj. vill hafa á málinu, óskiljanlegur, þegar þess er gætt, að það standa fyrir dyrum samningar við Englendinga, þjóð, sem við eigum miklu meira undir að ná góðum samningum við en Norðmenn, og sem áreiðanlega heimta það fyllsta, sem Norðmenn fá fyrir síldveiðaskip og fiskiskip og sennilega, þar sem við eigum meira í hættu í Englandi, meiri fríðindi fyrir sinn flota en Norðmenn fá, jafnvel eftir þessum samningi. Ég segi það hispurslaust, að ég vildi ekki standa í sporum hæstv. forsrh. og samninganefndarmannanna, sem eiga að semja við Englendinga, þegar þingið er búið að leggja samþykki sitt á þennan samning.

Í þessari hv. d. hefir verið lagt fram frv. í sambandi við þetta mál, um toll á fiski og síld, sem er seld í land. Mér hefði fundizt réttara, að sjútvn. hefði athugað það áður en málið er rekið í gegnum d. Í Ed. hefir einnig verið borið fram frv. um sérstaka ráðstöfun gagnvart þeim þjóðum, sem Íslendingar eftir gildandi verzlunar- og siglingasamningum ekki njóta beztu kjara hjá. Mér finnst sjálfsagt að taka það mál einnig til athugunar í sambandi við samninginn. En að ætla sér að hraða afgreiðslu málsins svo, að leggja svo mikið kapp á það eins og hæstv. stj. gerir, finnst mér á allan hátt mjög leiðinlegt, að ég ekki segi ósæmilegt í jafnþýðingarmiklu máli og þessu.