24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég þakka hv. þm. G.-K. fyrir lesturinn, því að hann varð aðeins til að staðfesta það, sem ég hefi áður sagt. Ég vil nú þessu til viðbótar lesa upp 1. gr. norska samningsins frá 1924, sem hann vitnar til og segir, að hafi tryggt Krossanesverksmiðjunni þennan rétt. Þar segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Þær fiskveiðastöðvar Norðmanna, sem nú eru, er heimilt að reka áfram á meðan væntanlegt samkomulag um tollalækkunina helzt, en það sé uppsegjanlegt af beggja hálfu með hæfilegum uppsagnarfresti“.

Mér barst nú einnig í hendur nýtt hefti af tímaritinu „Ægi“ með grein um þetta mál, sem tekin er úr norska blaðinu „Fiskaren“. Í þessari grein er fyrst talað um það, að Íslendingar séu búnir að kaupa skip til þess að flytja á fisk til Spánar, og síðan er getið um, hvað fiskurinn sé mikill, sem þangað sé fluttur. Svo stendur þar ennfremur:

„Það getur vel verið, að Íslendingar smám saman ætli sér að taka þessa flutninga í sínar hendur, en það mun taka þá langan tíma, og áður en svo er komið hafa Norðmenn máske gengið af þeim dauðum (slått dem aldeles af marken) svo að þeir hafi ekki neitt að flytja. Við vonum það að minnsta kosti“.