24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég geri ráð fyrir, að þessi gr., sem hv. þm. les hér kafla úr, sé um viðskipti Íslendinga og Norðmanna á saltfiskmarkaðinum. Norðmenn hafa að undanförnu kvartað undan harðri samkeppni frá Íslendingum á þessu sviði. Eina huggun þeirra hefir verið sú, að við þyldum ekki að tapa eins miklu og við töpuðum 1931. Ég hefi heyrt þau orð af vörum Norðmanna í sambandi við samkeppnina á saltfiskmarkaðinum, að þegar við værum búnir að tapa svo miklu, að við þyldum ekki meira, þá ættu þeir eftir „reserve“. Það er ekki neitt annað en þetta, sem þeir eiga við, þegar þeir tala um að ganga af okkur dauðum.