28.03.1933
Efri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Þorláksson:

Mál þetta er utanríkismál að miklu leyti, hefði því frá upphafi átt að sýna því sömu meðferð í þinginu og yfirleitt er synd slíkum málum, sem sé að ræða fyrst ágreiningsefni þeirra fyrir luktum dyrum og stilla svo til, að þingheimur kæmi fram sem ein heild út á við, er málið kemur til opinberrar umr. En nú hefir svo borið að í þessu máli, að slíkri aðferð var ekki hægt að beita, þar sem það var orðið opinbert bæði innanlands og utan áður en Alþingi fékk það til meðferðar. Það var því tekin sú aðferð að ræða það í áheyrn allrar þjóðarinnar og fyrir því fórum við fram á, að umr. um málið hér í Ed. yrði einnig útvarpað.

Ég skal strax taka það fram, að þegar ég geri þessa samninga að aðfinnsluefni, þá slæ ég því föstu, að þeir séu utanríkismál og mun því ekki tala um þá sem flokksmál, eða gera þá að árásarefni á stjórnina eða neinn flokk eða neina menn. Ég mun því ekki deila á neinn sérstakan út af því, sem mér líkar miður, heldur skoða Íslendinga sem eina heild í þessu máli.

Til þess að átta okkur á málinu, verðum við að fara dálítið aftur í tímann. Það er þá fyrst 1923, að Norðmenn setja svo háan toll á ísl. saltkjöt, að nærri stappaði algerðu innflutningsbanni á því til Noregs. Varð það þá úr, að teknir voru upp vinsamlegir samningar við þá um málið, sem enduðu með tilslökun á tollinum. Samkv. verzlunarskýrslunum 1924—1925 var verð á útfluttu saltkjöti þá kr. 1.50—1.60 pr. kg., og fékkst tollurinn þá niður í kr. 0.38 pr. kg., sem var, miðað við verð vörunnar, um 25% af verðmæti hennar. Móti þessari tilslökun á kjöttollinum voru Norðmönnum svo veittar ívilnanir, sem kalla mætti, en þó algerlega innan ramma gildandi ísl. löggjafar; þar sem þær eins og kunnugt er voru ekki fólgnar í öðru en loforði um það, að fiskveiðalöggjöfin skyldi framkvæmd með vinsemd gagnvart norskum síldveiðimönnum og norskum síldarbræðslustöðvum hér. Það hefir oft þótt orka tvímælis, hvað felist í þessu loforði, og á hvern hátt ætti að framfylgja því. En það hefir jafnan verið sjálfgefið að framfylgja því á þann veg, að hagga í engu við ísl. löggjöf. Þrátt fyrir þetta þótti þó þessi tilslökun það erfið og óeðlileg, að jafnframt því sem þessi samningur var gerður, voru allir á einu máli um það, að gera þyrfti allar mögulegar ráðstafanir, bæði utanlands og innan, til þess að losa okkur undan þeirri nauðsyn, að hafa markað fyrir saltkjöt okkar í Noregi. Það var því mjög fljótlega útvegað, með framlagi úr ríkissjóði, kæliskip til flutninga á kældu og frystu kjöti á erlendan markað. Jafnframt var lagt fram fé til þess að koma upp frystihúsum í ýmsum héruðum landsins. Var þetta gert til þess að þurfa ekki að beygja sig fyrir Norðmönnum framvegis í þessum málum. Þessari stefnu var svo haldið alveg ákveðið og bar ekki neitt sérstakt til tíðinda. Þó skal þess getið, að 2 árum eftir að kjöttollssamningurinn var gerður, gerðu Norðmenn út sendinefnd á fund ísl. stjórnarvalda til þess að ræða um frekari ívilnanir til handa norskum síldveiðimönnum hér við land en fengizt höfðu samkv. samningnum frá 1924. Það bar svo til, að norski sendiherrann í Kaupmannahöfn ákvað að fara hingað kynnisför. Notaði þá norska stjórnin tækifærið og sendi með honum tvo menn til umræðu um þetta málefni við ísl. stj. Voru svo haldnir fundir þrjá daga samfleytt upp í stjórnarráðsbyggingu, þar sem hinar nýju kröfur Norðmanna voru ræddar, en mér er óhætt að fullyrða, að ísl. stj. tók það skýrt fram, að engra tilslakana væri að vænta um þessi mál frá Íslendinga hálfu. Sneri sendinefndin því heim við svo búið.

Næsta stigið er svo í fyrra, þegar Norðmenn segja upp samningnum frá 1924 og gera sig líklega til þess að vilja ekki semja af nýju. Ísl. stjórnin ræddi þá við Alþingi um málið og fór fram á að fá leyfi til þess að segja upp gildandi verzlunar- og siglingasamningum milli ríkjanna, til þess að neyða Norðmenn til að taka upp samninga af nýju. Fór svo eins og kunnugt er, að þessum samningum var sagt upp af hálfu ísl. stjórnarvalda, en síðan gengið til samninga aftur. Niðurstaðan varð svo sú, sem kunn er orðin. Annars vegar höfum við fengið endurnýjaðar og að nokkru leyti nýjar tilslakanir á tolli, fyrir takmarkaða tunnutölu af ísl. saltkjöti, sem til Noregs flyzt. Hinsvegar var ekki á móti samið um tilsvarandi ívilnanir um aðflutningsgjöld á norskum vörum hér, heldur var samið um ívilnanir fyrir útveg Norðmanna hér við land, sem ganga svo langt, að ekki þykir fært að veita þær nema með sérstökum lögum frá Alþingi. Það sem því áður var aðeins samkomulag um vingjarnlega framkvæmd gildandi íslenzkra laga af hálfu íslenzku stjórnarinnar, verður nú að breyt. á sjálfri hinni íslenzku löggjöf. Það verður því ekki lengur ótvírætt, hvaða ákvæði gildi í fiskiveiðalöggjöf okkur um þessi efni. Nú verður það í öðru lagi fiskiveiðalöggjöfin frá 1922, en hinsvegar ákvæði frv. þessa. Ef ákvæði þessara tveggja lagasetninga skyldu rekast á, verður ekki hér eftir hægt að skírskota eingöngu til laganna frá 1922, því svo verður að líta á, að hin nýja löggjöf, sem í samningi þessum felst, sé breyt. á þeim lögum.

Það, sem mér fyrst þykir áfátt við þessa samninga, á upptök sín í því, að ísl. þjóðin hafði ekki skapað sér þá aðstöðu í sinni eigin löggjöf, sem nauðsynleg var, áður en gengið var til samninganna. Það vantaði ákvæði í ísl. löggjöf um það, hvaða afleiðingar uppsögn verzlunar- og siglingasamningsins hefði að því er snerti aðflutningsgjöld af vörum, sem hingað flytjast frá Noregi, og gjöld af norskum skipum hér. Í reyndinni hafa hingað til allar þjóðir notið beztu kjara hjá okkur, hvort sem samningar stóðu til eða ekki, af því að engin lagaákvæði eru til um rýrari eða erfiðari kjör þeim til handa, sem ekki búa við beztukjarasamning. hjá oss. Hafði uppsögn samningsins því engar lagalegar afleiðingar í þessu efni. Ef við hefðum verið búnir að skapa okkur þá aðstöðu, að uppsögn verzlunar- og siglingasamningsins hefði leitt af sér ákveðna hækkun á gjöldum af norskum skipum, er hingað sigla, ásamt tollhækkun af norskum vörum, þá hefði mátt vænta þess, að hægt hefði verið að ganga til samninga um gagnkvæmar tollaívilnanir á tollum og gjöldum milli ríkjanna. En við höfðum ekki borið giftu til að koma málum vorum í þetta horf í tæka tíð. Norðmenn höfðu því, þegar til samninga var gengið, miklu betri aðstöðu en við, þar sem þeir voru búnir að leggja háan refsitoll á aðalvöru okkar þar.

Þá er annað atriði, sem ég tel orka mjög tvímælis í undirbúningi þessara samningsgerða, en það er, að fyrirfram skuli hafa verið boðið fram af Íslendinga hálfu að semja Íslendingum til handa, ekki um tollivílnanir fyrir ótakmarkað magn af ísl. saltkjöti, er til Noregs flyttist, heldur aðeins fyrir takmarkaða og minnkandi tunnutölu. Ég veit, að þetta var boðið fram, af því að ráðunautar ísl. stjórnarinnar litu svo á, að í framtíðinni væri ekki þörf fyrir meiri markað í Noregi fyrir ísl. saltkjöt en sem svaraði því kjötmagni, er þeir fóru fram á að fá tollívilnanir fyrir. Það vill nú svo til, að ég fullyrti það þegar í sumar í utanríkismálanefndinni, að hvorki þessir menn né aðrir gætu um það vitað fyrirfram, hvaða þörf við í raun og veru kynnum að hafa í framtíðinni fyrir saltkjötsmarkað í Noregi.

Þegar til samninga kom sóttu Norðmenn eftir tvennu, annarsvegar að bægja ísl. kjöti frá norskum markaði, en hinsvegar að fá hér fríðindi fyrir síldarútveg sinn. Þegar því var búið að bjóða þeim upp á að takmarka kjötinnflutninginn til Noregs svo mjög, að hann skyldi fara niður í 6 þús. tn., höfðu Norðmenn í rauninni fengið það, sem þeir óskuðu eftir, að því er snerti þá hliðina. Varð aðstaða okkar manna við þetta því mun erfiðari en hún þurfti að vera. Annars skal ég taka það fram, að ennþá er með öllu ófyrirsjáanlegt, hvort þessi takmarkaði saltkjötsmarkaður í Noregi bætir úr þeirri þörf, sem hér er fyrir hendi. Það veltur á því, hvort okkur stendur opinn markaður annarsstaðar fyrir það af kjötframleiðslu okkar, sem er umfram þessar 6 þús. tn. Það, sem við þannig megum flytja af kjöti okkar á hinn norska markað, er um 670 smál., en alls flytjum við út um 3000 smál. Hér verður því aðeins um að ræða markað fyrir rúml. 1/5 hluta af því kjöti, sem við þurfum að flytja út og fá markað fyrir, þegar ákvæði samningsins um 6000 tn. hámarkið er komið í gildi. Ég tel því mjög misráðið að bjóða fram þessar takmarkanir, meðan engin vissa var fyrir því, hvaða markaður okkur stendur opinn í öðrum löndum fyrir kjöt okkar.

Í mínum augum gerir það mestan mun á samningi þeim, sem hér liggur fyrir, og samningnum frá 1924, að samningurinn frá 1924 leysti eins og þá stóð á það vandamál að öllu leyti, hvar við gætum fengið markað fyrir þessa framleiðsluvöru okkar, en þessi samningur leysir það vandamál aðeins að litlu leyti.

Ég er ekki heldur sérlega ánægður með þær tollaívilnanir, sem samningurinn gerir ráð fyrir, að við Íslendingar fáum á því litla kjötmagni, sem okkur er boðið að selja til Noregs með þeim kjörum. Ég gat þess áðan, að verð á ísl. saltkjöti í Noregi á árunum 1924—1925 hafði verið kr. 1,50 til 1,60 kg., en síðan hefir verðið hrapað niður fyrir 1/3 þess verðs. Samkv. útflutningsskýrslum í jan. og febr. síðastl. er verð á útfluttu saltkjöti um 45 aur. á kg. Mér er sagt, að einhver von sé um það, að verðið í heild kunni að verða eitthvað rífara, svo að kannske megi reikna með því, að framleiðendur fái 50 aur. fyrir kg. En samhliða þessu lága verði, þá er þó innflutningstollurinn í Noregi ekki minni en 20 aur. á kg., og er þá samanburður á samningnum frá 1924 og samningi þeim, sem hér liggur fyrir, sá, að eftir samningnum 1924 var tollurinn 25% af verði kjötsins þá, en nú er hann eftir þessum nýja samningi 40% af verði kjötsins. Ég vil biðja hv. þm. að athuga þetta í samanburði við ísl. tollalöggjöf. Við höfum nefnilega lagt verðtoll á ýmsar aðfluttar vörur, sem hefir verið miðaður við verð varanna kom. Á sama hátt miða ég hér innflutningstollinn í Noregi við verð á kjötinu komnu um borð í skip á ísl. höfn, og hann nemur þá 40% af verðinu. Þetta eru nú þau sérstöku vildarkjör, sem Norðmenn bjóða okkur um toll á þessari nauðsynjavöru, en við höfum aldrei farið hærra en í 30% með verðtollinn, og það ekki nema á allra ónauðsynlegustu vörum. Ég er því mjög óánægður með þessi vildarkjör frá hálfu Norðmanna. Ég held, að ef samið hefði verið á eldri grundvelli en gert var, þá hefði fengizt betri niðurstaða.

Ég get ekki farið mikið út í hina hlið málsins, sem er þær ívilnanir, sem Norðmönnum hafa verið veittar með bættri aðstöðu til síldveiði hér við land, en ég vil leiða athygli manna að því, að það er ekki um það deilt, að með þessum ívilnunum er þeim veitt haganlegri aðstaða við þessa atvinnu sína heldur en þeir höfðu eftir samningunum frá 1924. Og þó höfum við allan þennan tíma síðan 1924 verið að búa okkur undir það, að vera ekki upp á Norðmenn komnir með saltkjötsmarkaðinn, ef okkur svo sýndist. Við höfum verið að keppa að því að geta svipt þá þeim ívilnunum, sem þeim voru veittar með samningunum frá 1924. Og nú, þegar loksins er svo komið, að saltkjötsútflutningurinn til Noregs er kominn úr 18—24 þús. tunnum, eins og hann var kringum 1924, niður í 6 þús. tunnur, hefði mátt ætla, að Íslendingar væru komnir það langt á þeirri braut að hinu setta marki, að þeir gætu farið að hugsa til að kippa að sér hendinni og taka þessar ívilnanir frá Norðmönnum. En einmitt þegar svo er komið, er tekin önnur stefna. Þegar komið er að því takmarki, að við getum farið að losa okkur við Norðmenn, þá er farið í þveröfuga átt, fríðindi þeirra eru aukin, þau fríðindi, sem undanfarið hafði verið undirbúið að afnema. Það er mjög illa farið, að hvarflað hefir verið frá stefnunni í þessu máli. Í utanríkismálum má ekki skipta um stefnur, ef vel á að fara. Það verður að halda fast við stefnuna. Þó stjórnarskipti verði innanlands, á stefnan í þýðingarmiklu utanríkismáli að haldast óbreytt. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði ívilnananna, sem Norðmenn fá með samningunum. Ég hefi leitt athygli að því, að þær rjála við gildandi löggjöf okkar og fara í bág við hana, og ég legg áherzlu á það, að við eigum að halda áfram á þeirri braut, sem lagt var út á 1924, hvort sem þessir samningar verða samþ. eða ekki. Við eigum að halda áfram að vinna að því, að losa okkur við þörfina fyrir saltkjötsmarkað í Noregi. Í grg. frv. er talið, að án hans getum við ekki verið og þess vegna verði Alþingi að fallast á samningana. Þar er talið, að nokkur héruð á landinu, sem verða að salta sitt kjöt, megi ekki missa þennan markað. Það eru þau héruð og þær sveitir, sem ekki hafa aðstöðu til að frysta sitt kjöt. Það er talið, að þetta séu Skaftafellssýslur, nokkur hluti Dalasýslu og Barðastrandarsýslu og svo einstakar sveitir, sem eru svo afskekktar eða litlar, að þær geta ekki borið frystihús. Ég get ekki betur séð en að þessi saltkjötsmarkaður sé svo lítill, einar 6 þús. tunnur að ekki megi mikið fyrir hann gera. Í grg. er talað um, að þrátt fyrir það, þó hann sé ekki meiri, þá sé hann mjög þýðingarmikill fyrir hin einstöku héruð, og hin lækkandi tala af tunnum, sem nýtur tollákvæðanna, á að vera miðuð við þörf þessara héraða. Það er svo að skilja á grg. samningsins, að hér eigi að láta staðar numið með að losa okkur við síðustu leifarnar af kjötmarkaðinum, en ég álít, að við megum ekki við öðru en að halda áfram hinni fyrri stefnu, við verðum að útvega innan lands eða utan markað fyrir það saltkjöt, sem selt er til Noregs og framleiða þarf í þeim sveitum, þar sem ekki er aðstaða til þess að frysta kjöt. Ég álít, að það hefði sannarlega verið myndarlegra að geta sagt Norðmönnum nú, að við værum ekki í neinum vandræðum, þó við misstum hjá þeim markað fyrir 6 þús. tunnur af saltkjöti, sem ekki nemur meiru en 350 þús. kr. að verðmæti, miðað við það, sem framleiðendur fá. En þó svo fari, að Alþingi sjái sér ekki fært að sjá framleiðendum saltkjötsins farborða með markað fyrir sína vöru eins og stendur á annan hátt en þann, að samþ. samningana, þá legg ég alla áherzlu á það, að þegar verði gerðar ráðstafanir til þess að útvega annan markað fyrir þessa vöru, og tel ég tímabært, að yfirstandandi Alþingi geri ráðstafanir til þess að koma upp niðursuðu á kjöti, sem svari 600 til 700 tonnum á ári, til þess að losa okkur undan þessum síðustu leifum af þörf fyrir saltkjötsmarkað í Noregi.

Þó víða sé nú rætt um þessa samninga, þá heyri ég engan ánægðan með þá, þess er og heldur ekki von. Samningarnir leysa ekki vandræði kjötsölunnar, í þeim eru mjög óhagstæð tollaákvæði í hlutfalli við verð vörunnar, og með þeim erum við neyddir til þess að verzla með okkar ríkisréttindi fyrir tollívilnun af mjög litlum hluta af framleiðsluvörum bænda.

Ég vona því, ef samningarnir verða samþ., að þá verði það einungis gert sem bráðabirgðaráðstöfun, og að óhikað verði haldið í þá sömu stefnu, sem tekin var árið 1924 og síðan hefir verið haldið við, að losa okkur við saltkjötsmarkaðinn í Noregi. Því þá fyrst höfum við algerlega frjálsar hendur í viðskiptum við Norðmenn og getum haldið okkar rétti á láði og legi eins og lög standa til.