28.03.1933
Efri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Þessum hv. þm., sem nú hafa talað í þessu máli, kemur ekki saman um, hvernig meðferð utanríkismála okkar skuli vera. Ég verð að segja, að ég hallast þar frekar að skoðun hv. 1. landsk., að rétt sé að ræða ágreiningsatriði milli flokkanna á leynifundum, áður en byrjað er á opinberum umr. um slík mál. En í þessu tilfelli var sú leið ekki fær. — Hv. 2. landsk. ávítaði það mjög, að samningarnir skyldu ekki hafa verið birtir fyrr en mánuður var liðinn af þingtímanum. En það er sú venja með samninga milli ríkja, að þeir eru ekki birtir fyrr en skömmu áður en þeir ganga í gildi. Og þurfi þeir samþ. þings, þá eru þeir vanalega ekki gerðir opinberir fyrr en rétt um það bil, sem þingið tekur ákvörðun sína. Ég vil henda á Ottawasamningana sem dæmi um slíka málsmeðferð. Annars er það ákaflega óheppilegt, þegar milliríkjasamningar verða bitbein milli flokka. Um meðferð þessara mála hafa víðast hvar erlendis myndast fastar reglur, en við erum það óþroskaðri stjórnmálalega, að engar slíkar óskráðar reglur hafa unnið hefð á sig.

Báðir þeir hv. þm., sem hér hafa talað, hafa minnzt á samkomulagið frá 1924 og hafa fallið hlýleg orð um þá niðurstöðu, sem þá fékkst. En það er nú svo, að þetta samkomulag, sem nú hefir náðst, er í öllum aðalatriðum byggt á samkomulaginu frá 1924. Þó að lengra sé farið í einstökum atriðum, er aftur farið skemmra í öðrum. Í stað þess almenna teygjanlega ákvæðis um „velviljaða framkvæmd“ fiskiveiðal., eru nú settar fastar reglur.

Hv. 1. landsk. sagði, að tollur á ísl. saltkjöti hefði 1924 numið 25% af verðmæti kjötsins. En við verðum að athuga það, að þrátt fyrir samkomulagið frá 1924 var tollurinn stöðugt að breytast, svo að í ársbyrjun 1932 var hann orðinn 63 aur. á hvert kíló. Ég játa það, að ólíkt æskilegra hefði verið, að þessi tollur væri verðtollur heldur en þungatollur. En í bæði skiptin, sem samið hefir verið, 1924 og 1932, hefir verið reynt að fá tollinum breytt í verðtoll, en því hefir stöðugt verið þverneitað. Það er raunar ekki nema eðlilegt, því að allir tollar sama eðlis, sem Norðmenn hafa, eru þungatollar, og þeir sáu sér ekki fært að breyta út af þessari venju. En sannleikurinn er sá, að við höfum þarna opinn markað, sem er lokaður öllum öðrum þjóðum. Og þegar athugaðir eru agnúar, sem kunna að vera á þessum samningi, þá verður að taka það með í reikninginn, að við erum aðnjótandi algerðrar sérstöðu hvað snertir kjötútflutning til Noregs, og að hlunnindi þau, sem við höfum þar, eru mjög illa séð af norsku bændastéttinni. Og það hefðu þótt góð tíðindi í lok síðasta þings, ef þá hefði frétzt af tollalækkun slíkri sem þeirri, er nú stendur til boða. Þó að tollurinn væri orðinn mjög hár 1932, datt engum þm. í hug að bera fram till. um uppsögn samningsins frá 1924. Og þegar Norðmenn sögðu honum upp, þá heyrðust engar raddir um annað en að komast að svipuðum samningum aftur. Hv. 2. landsk. kom ekki með neinar viðvaranir á síðasta þingi um það, að helzt ætti að segja upp öllum verzlunarsamningum við Norðmenn eða annað því um slíkt. Og krafa hans um það, að samningurinn, sem gerður var við Norðmenn nú, ætti að vera betri og hagstæðari en samningurinn frá 1924, er alveg ný. Hefði sú stefna komið upp á þinginu í fyrra, að nota skyldi tækifærið til þess að segja upp öllum samningum við Norðmenn og leggja toll á norskar vörur, þá hefði stj. auðvitað hagað sér eftir því. En á slíkt var ekki minnzt þá.

Hv. 1. landsk. gerði mikið úr því, hvað tollurinn á ísl. saltkjöti yrði nú hár í Noregi, og það að vonum, en þó er sá tollur 33% lægri en sá, sem við bjuggum við samkv. samningnum frá 1924. Ég játa það, að tollurinn sé hár, en þess verður að gæta, að við erum þeir einu útlendingar, sem nokkur hlunnindi hafa á þessu sviði. En það þýðir ekkert annað en að við komumst inn á norska markaðinn með miklu hærra verðlagi en á öðrum mörkuðum, sem ekki hafa slíka kjöttollsmúra í kringum sig og Noregur. Nú er kjötverðið um 50% hærra í Noregi en Danmörku, af því að við einir smjúgum gegnum norsku tollmúrana. Og ef við fáum 50% hærra verð fyrir vöruna, má segja, að við höfum þarna tollfrjálsan aðgang að markaði, sem öðrum er lokaður, þó að við þurfum að greiða 40% meira í toll.

Loforð þau, sem Norðmönnum hafa verið gefin um framkvæmd fiskiveiðalaganna breyta engu í núverandi l. Þau eru byggð á þeirri reynslu, sem fengizt hefir af framkvæmd samningsins frá 1924. Að vísu voru ýmsar reglur til um þetta áður, en þær fengu fyrst festu með samningnum 1924. Sá kostur er á þessum samningi, sem nú liggur hér fyrir, fram yfir þann eldri, að hér eru réttindi Norðm. við Ísland tekin svo skýrt fram, að þau eru alveg tvímælalaus. Af þessum ástæðum verður miklu betra að framfylgja þeim heldur en hinum óákveðnu „velvilja“-ákvæðum frá 1924. Auðvitað mun stj. gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að sjá um, að þessar reglur verði ekki brotnar. Svo sem kunnugt er, voru ýms atriði samningsins frá 1924 vafasöm, og eftirlit með framkvæmd hans slælegt. T. d. var framan af ekkert eftirlit með því, hvað norsku síldarbræðsluverksmiðjurnar máttu kaupa af erlendum skipum. Væri vert að bera saman fyrri samninga og þá samninga, sem nú liggja fyrir.

Eftir þessum samningum mega norskar verksmiðjur ekki kaupa nema 60% af síld af erlendum skipum, en áður hafa engar reglur gilt um þetta, enda þótt allir hafi verið ánægðir með samn. frá 1924.

Ég er sammála því, sem hv. 1. landsk. sagði viðvíkjandi því, að nauðsynlegt væri að vinna nýjan markað fyrir útflutt kjöt. En því valda ekki aðeins óhagkvæmir samningar við Norðmenn, heldur er norski markaðurinn svo stopull, að erfitt verður að halda honum til frambúðar. Einmitt þessi staðreynd olli þeirri ráðstöfun, sem gerð var um frystihús og kæliskip. Og ég tek undir með öllum þeim, sem vilja halda áfram þessum tilraunum, enda mun stj. stuðla að þeim eftir megni.

Ég tel það virðingarvert, að hv. 1. landsk. vildi þó taka tillit til þess, að við erum sem stendur háðir norska markaðinum, en til þess vildi hv. 2. landsk. ekkert tillit taka. Við megum og getum ekki lokað augunum fyrir þessari staðreynd. Hversu miklu við fáum sjálfir áorkað í þessu efni til þess að losa okkur undan norska markaðinum fer mjög eftir því, hvernig samningar takast við aðrar þjóðir.

Eftir birtingu Ottawasamninganna er ennþá svartara útlit en í fyrra, þegar var falið að leita samninga í svipuðum stíl og nú. Þess vegna eru ekki horfur á því, að möguleikar skapist til kjötsölu, ef Norðmenn hætta að kaupa af okkur og aðrar þjóðir kaupa ekki meira en nú eru líkur til. Það hefir verið talað um það að flytja út frá betri höfnunum fryst kjöt og nýtt og rýmka þannig á innanlands markaðinum fyrir kjöti frá afskekktari stöðunum. Þetta væri gott og blessað, ef nægilegur markaður væri fyrir hendi erlendis. Það mundi enginn þm. — og allra sízt stjórnin — óska annars en við værum óháðir erlendum kjötmarkaði. En hér þarf að taka meira tillit til ástæðnanna heldur en hv. 2. landsk. gerir og tillögur hans sýna. Það vill oft verða svo, að hann og hans flokksmenn hugsa ekki málin til hlítar. Þeir eru í minni hluta hér á þingi og vita því, að þær tillögur, sem þeir koma fram með, ná ekki framgangi, og eru því of ábyrgðarlausir til þess að hirða um það, þó þær séu gersamlega óframkvæmanlegar.

Ég vildi ekki orða það á sama hátt og hv. 1. landsk., að hér væri um tvennskonar fiskiveiðalöggjöf að ræða, því að þetta felur ekki í sér neina ákvörðun, heldur er stjórninni heimilað að framkvæma fiskiveiðalöggjöfina eins og segir í norsku samningunum. Enda hefir því ekki verið haldið fram hér á þinginu, að þessi heimild kæmi í bága við fiskiveiðalöggjöfina, þótt við sjálfir höfum tök á að framkvæma hana linlega. — En hvort þessir samningar verða samþ. eða ekki, þá liggur fyrir atvmrn. að gefa út reglur um þessi atriði, sem væru ákveðnari og betur samræmdar heldur en lögin frá 1924.

Ég neita því ekki, að undirbúningurinn undir samningana við Noreg hafi verið slæmur. En þetta er sameiginleg sök allra þingmanna. Enginn flokkur, enginn þingmaður bar fram ákveðnar tillögur eða kröfur í þessu máli. Og þannig var stjórninni fengið málið í hendur. Henni var falið að varðveita, að svo miklu leyti sem hægt væri, markaðinn í Noregi.

Mér virðist, að þingmenn flestir geri of lítið úr þeim hlunnindum, sem við komum til með að njóta samkv. samningunum í Noregi. Það er venjulega talað um þessar 6 þús. tunnur. En það verður ekki fyrr en eftir nokkur ár, að tunnutalan komist niður í 6 þús. Heimild næsta árs er fyrir 11500 tunnum. Og það munu allir viðurkenna, að við stæðum uppi ráðalausir með þetta kjöt, ef við gerðum enga samninga við Norðmenn.

Hv. 2. landsk. hélt því fram, að meira framboð yrði á síld hér á landi en áður, ef samningarnir yrðu samþ. En ekki myndi það a. m. k. minnka vinnu í landi, þó einhverjir útlendingar fengju að leggja hér upp síld. Og ekki hefir hv. 2. landsk. alltaf amazt við útlendingum. 1921 tjáði hann sig ósamþykkan því, að útlendingum væri bönnuð síldveiði hér við land, einmitt af þeirri ástæðu, að það mundi draga úr atvinnu í landi. En það má kannske um hann segja, að „batnandi manni er bezt að lifa“. En mér þykir hann hafa þroskazt nokkuð óðfluga í þessa átt, þar sem hann nú er kominn fram úr öllum öðrum í því að banna útlendingum atvinnurekstur hér við land.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja samningana frekar hér, þar sem hv. þm. G.-K. hefir gert skýran og óhrekjanlegan samanburð í hv. Nd. á samningunum 1924 og 1933.

Ef síldveiðin verður minni á Norðurlandi í sumar en verið hefir, þá er það ekki þessum samningum að kenna. Horfurnar um síldarsölu eru allt annað en glæsilegar; t. d. hafa Þjóðverjar þrefaldað toll á saltsíld. Slíkar ástæður geta legið til þess, að Svíar hafa ákveðið lægra byrjunarverð á síld en í fyrra. Síldarútgerðin er mjög óviss. Reynt hefir verið að koma á sambandi milli amerískra síldarkaupmanna og ísl. síldarframleiðenda, og er ekki enn séð nema takast megi að vinna ný lönd á þessu sviði. Stjórnin mun gera það, sem í hennar valdi stendur, til þess að slíkt megi takast. Sömuleiðis mun hún styðja bræðslu og fabrikation á síld, eins og hún mun, með aðstoð þingsins, hjálpa síldarútgerðinni yfirleitt eins og bændunum.

Mér virðist háðir hv. þm. hafi gert nokkuð harða kröfu til þessara kjöttollssamninga, er þeir ætlast til, að með þeim sé leystur allur vandi um kjötsölu. Það er alls ekki þess að vænta, þar sem kjötmarkaðurinn hjá Norðmönnum fer alltaf minnkandi. Ég hygg, að það sé alveg rétt, sem Jón Árnason hefir haldið fram, að ekki hefði verið betra fyrir okkur að fá ótakmarkað innflutningsleyfi fyrir kjöt. Með því að setja hámarksinnflutningsleyfi, þá er skapaður möguleiki til þess að sefa ótta norskra bænda.

Það er algerlega rangt, að nokkur Íslendingur hafi stungið upp á því, að hlunnindi okkar færu minnkandi. Það var beinlínis gert að skilyrði af hendi Norðmanna.

Ég get tekið undir það með hv. 2. landsk., að við þurfum tíma til þess að undirbúa kjötsölu á þeim markaði, sem minnst er þvingandi. Þessi samningur getur ekki leyst öll okkar vandræði í sambandi við kjötsöluna, en hann veitir m. a. svigrúm til þess að undirbúa hagkvæmari markað. Það má segja, að tollurinn sé hár, en hann er þó mun lægri en áður var.

Þó að segja megi, að hér sé verið að verzla með þjóðarréttindi, þá er það ekkert einsdæmi. Nákvæmlega hið sama má segja um samningana, sem stjórnin gerði 1924. Og hið sama mætti segja um alla milliríkjasamninga. Yfirleitt má segja, að þessi samningur sé ekki lakari en við var að búast, hann er betri en nokkur hafði búizt við hvað tollinum við kemur og veitir okkur frest til þess að leita að þeim kjötmarkaði, sem minnsta þvingun hefir í för með sér.