28.03.1933
Efri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég hafði ekki ætlað mér að standa upp í þriðja sinn, en ég vil þó út af nokkrum ummælum hæstv. atvmrh. gera aths. Hann var óþarflega hörundssár, þegar hann tók hér upp þá aðstöðu að slá því föstu, að hitt og annað, sem hefir verið vanrækt af Íslands hálfu, sé ekki að kenna núverandi stj. Ég tók það fram í upphafi máls míns, að ég ætlaði ekki að beina árásum gegn einum né neinum innanlands, heldur láta okkur alla eiga hér óskilið mál. En úr því að hæstv. ráðh. sagði þetta, þá get ég tekið undir það, að það hefði frekar verið fráfarandi stj. en núver. stj. að hafa forgöngu í þessum efnum. En allir muna, að hún hafði svo mikið að gera við að þumbast við réttlætiskröfum landsmanna, að hún kom engu öðru í verk seinustu mánuðina, sem hún lifði. —

Þá heyrði ég hæstv. ráðh. tala um þessar 1500 tunnur, sem hefir verið aukið við þessa samninga alltaf öðru hvoru í þingræðum og blaðagreinum, 1500 tunnur, sem við megum flytja út tollfrjálst. Ef þetta eru einhver sérstök fríðindi, er undarlegt, að þau skyldu ekki vera tekin upp í samninginn, því að um þessar tunnur stendur ekkert í samningnum — ekki eina einustu þeirra. Ég sé ekki, að við höfum þar nein réttindi, sem við getum talað um. Ég sé ekki betur en að Norðmenn geti sett um þessar tunnur öll þau ákvæði, sem þeim góð þykja, og við höfum ekkert leyfi til að reikna með þeim, þar sem þeirra er alls ekki getið að neinu í samningunum. Og þá held ég því fram, að þegar samningarnir eru komnir niður í 600 tunnur, þá sé það liðugur 1/5 af núverandi kjötútflutningi og það þykir mér allt of lítið til þess að gefa á móti fríðindi á því sviði, sem við þurfum að vera langvarastir um okkur. Það eru landsréttindi og efnaleg undirstaða okkar þjóðfélagsskapar.

Hæstv. ráðh. vildi þá halda því fram, að þessum síldveiðaskipum væri ekki veitt leyfi til að hafa hér „station“. Ég notaði ekki það orð, heldur orð fiskiveiðalöggjafarinnar, og sé ég ekki annað en að þeim sé veitt allt, sem þeir þurfa til þess að hafast við hér við land og reka síldveiði utan landhelgi. En ef þetta skyldi vera misskilningur, þá vildi ég biðja hæstv. stj. að benda mér á það við 2. umr., hvað það er, sem þau ekki mega, af því, sem þau þurfa til þess að hafast við hér við land og stunda síldv. Ég kem a. m. k. ekki auga á neitt, eftir að þau hafa öðlazt það leyfi, sem í samn. greinir.

Ég er hæstv. atvmrh. innilega sammála um það, að aðalkostur þessa samnings er, að hann er uppsegjanlegur með stuttum fyrirvara. Ég álít, að við megum ekki láta neitt blindast af því, að við fáum miklar ívilnanir, þegar samningaþjóðin byrjar með því að setja hindrunartoll svo háan, sem henni sjálfri sýnist, og gefur svo afslátt frá honum. Það er rétt, að þeir hafa borið niður á 57 aur. á kg. og það er hærri tollur en verð vörunnar, þegar hún er flutt héðan, en hafa svo slegið af niður í 20 aur. Mér finnst þetta ekki meiri ívilnanir en svo, að hefðu þeir sett tollinn eina kr. þá hefði átt að slá af niður í 20 aur. Þetta verður að meta eftir því, hver sá endanlegi tollur er og í hvaða hlutfalli hann stendur við verð vörunnar og allar aðstæður. — Það er rétt hjá hæstv. forsrh., að þeirra tollalöggjöf geti skapað okkur þá aðstöðu, að tollurinn geti verið einhvers virði, þó að hann sé óeðlilega hár, ef litið er á tollalöggjöf okkar Íslendinga.

Ég lík svo máli mínu og ætla ekki að nota mínúturnar frekar en með því að óska þess, að þrátt fyrir ágreining um þessa samninga geti orðið fullt samkomulag um þetta sem fyrst og líka það, sem ófarið er af leiðinni til þess að losa okkur undan nauðsyninni á því að semja við Norðmenn á þeim grundvelli að veita þeim ívilnanir á landsréttindum hér, í staðinn fyrir niðurfærslu á ósanngjarnlega háum tolli, sem þeir sjálfir hafa sett og skapað.