11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Ingvar Pálmason:

Það er venja hér á Alþ., þegar mál er tekið til 2. umr., að einhver nm. taki til máls um það. Nú var það svo að þessu sinni, að. sjútvn., sem hafði þetta mál til meðferðar, sá enga ástæðu til þess að kjósa sérstakan frsm.

Það hefir einn hv. þm. sagt, að nál. segði ekki neitt. En frá mínu sjónarmiði segir það allt, sem segja þarf, því móti því verður ekki mælt, að einungis það tvennt liggur fyrir: að samþ. frv. óbreytt eða fella það. Breyt. á því geta ekki komið til mála. Þm. verði því að gera það upp við sjálfa sig, hver og einn, hvern kostinn þeir taka. Hitt er annað mál, og það verður hver þm. slíka að gera upp við sig, hvort hann vill eyða miklum tíma eða litlum til að gera grein fyrir atkv. sínu. N. tók fyrir sitt leyti þann kostinn, að hver nm. gerði sjálfur grein fyrir sínu atkv. Ég tel líka, þar sem mál þetta hefir valdið miklum umr. í Nd. og einnig hér við 1. umr., auk þess sem það hefir mikið verið rætt opinberlega, bæði á fundum og í blöðum, að ekki sé þörf á miklum umr. nú. En þar sem ég stóð upp hvort sem var, þá vil ég með nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu minni, þar sem mér ber sem öðrum þdm. að greiða atkv. um frv.

Ég tel samning þennan, er lögfesta skal nú, raunverulega óhagstæðan okkur Íslendingum. Byggi ég þá skoðun mína ekki aðallega á því, sem umr. hafa þó mest snúizt um, að Norðmönnum sé með þessum samningi veitt allmikil ný hlunnindi, heldur á hinu, að hér er um verzlunarsamning að ræða, sem ekki er haldið innan síns ramma, heldur gengur yfir á önnur svið. Það er að mínu áliti versti gallinn. Að vísu má víst um það deila, hversu miklu þessi fríðindi til Norðmanna, sem ganga yfir fiskveiðalöggjöf okkar, eru meiri en þau, sem þeim voru veitt áður. Það hefði ekki að vísu verið óeðlilegt, að samningur þessi hefði gengið inn á þetta svið á þann hátt, að látið væri sitja óbreytt við það, sem áður var og að ekki væru aukin réttindi Norðmanna. En þessi samningur gengur, því miður, lengra, því með þessum samningi er það lögfest, að Norðmenn fái fríðindi, sem áður voru á þann hátt, að þau breyttu í engu fiskveiðalöggjöf vorri. Ég tel, þótt samningur þessi breyti að vísu aðstöðu Norðmanna gagnvart fiskveiðalöggjöf okkar ekki mjög mikið, að þá geti þó lögfesting þessara ákvæða undir núverandi kringumstæðum haft töluvert alvarlegar afleiðingar fyrir okkur. En þess ber þó að gæta, að samningurinn er uppsegjanlegur með 6 mán. fyrirvara. Þetta ákvæði tel ég aðalkost samningsins.

Ég vil geta þess, að ég lít svo á, að þetta mál hafi tvær hliðar. Önnur er sú, sem snýr að okkur Íslendingum beint og ég hefi nú talað um. Hin hliðin snýr að viðskiptalöndum okkar og ber slíka að líta á það. Nú er það öllum vitanlegt, að Íslendingar hafa ekki farið einir að öllu með utanríkismál sín. Að vísu hafa þeir verið mjög sjálfráðir um þau og gott samkomulag um meðferð þeirra. Enn hefir lítið á þetta reynt og allt gengið sæmilega. Með samkomulagi við Dani er það nú að færast æ meir í það horf, að við höldum meira sjálfir á þessum málum. En til þess að svo geti orðið, þurfa þær viðskiptaþjóðir, sem við okkur semja, að fá þá reynslu um okkur, að við heiðarlega menn sé að eiga. Nú er það svo, að ef samningur þessi verður felldur nú, þá uggir mig, að traust annara þjóða á okkur bíði við það ekki svo lítil spjöll. Við verðum í því sambandi að líta á það, á hvern hátt samningur þessi er til orðinn. Þess ber þá fyrst að gæta, að þingið hefir ætlazt til, að samið væri. Að vísu er ég ekki sammála hæstv. forsrh. um það, að þingið hafi lagt mjög mikla áherzlu á, að samningar næðust. En þó vefengja megi þetta að einhverju leyti, þá er þetta þó okkar mál innbyrðis, og ekki frambærileg afsökun fyrir því, að við stöndum ekki við samning þann, sem hefir verið gerður. Þetta hefir því ekki sérstaka þýðingu í þessu sambandi. Hafi stj. gengið feti framar en við ætluðumst til, þá verðum við að útkljá það við hana, og það má ekki hafa nein áhrif á afstöðu okkar við Norðmenn. Mig uggir því, að ef við neitum þessum samningi, eftir þann undirbúning, sem hann hefir hlotið, þá verði litið smærri augum á okkur af öðrum þjóðum en við eigum skilið. Þess ber og að gæta, að n. sú, er samninginn gerði, kom fyrst saman í Rvík. Hafði því ríkisstj. og utanríkismn. góða aðstöðu til að leggja frumdrögin að samningnum, og síðan fylgdust þessir aðiljar vel með í öllu því, er gerðist innan samningan., svo sem vera bar, og virtust vera samþ. niðurstöðu samningsins. Mig uggir því, að þegar það eitt er eftir, að þingið veiti samþ. sitt og því verði neitað, þá muni ekki vera gott fyrir þessa litlu þjóð að fá aðrar þjóðir til að gera við sig samninga. Sá orðrómur mundi þá á leggjast, að við héldum ekki gerða samninga. Og það er víst, að hvernig sem á umboð stjórnarinnar er litið af okkur, þá er öðruvísi litið á það frá sjónarmiði annara þjóða.

Þótt samningur þessi sé gallaður og ég líti svo á, að með honum hafi verið gengið inn á annan vettvang en þann, sem vera bar, þá álít ég, að sjálfstæði Íslands sé hætta búin af því, ef hann verður felldur. Og það álít ég meira virði en þau óþægindi, sem okkur stafa af samþykkt hans. En ef mér endist aldur til, þá mun ég leggja til, að sá uppsagnarfrestur, sem veittur er í samningnum, verði sem fyrst notaður og það jafnvel á næsta ári.

Ég lít svo á, að það sé meira til ógagns en gagns að halda uppi málþófi um þetta mál. Ég er þó ekki að lasta það, að umr. hafa orðið miklar og að þeim hefir verið varpað út. En þar sem málið er nú komið á það stig, að eingöngu er eftir að greiða um það atkv., þá ætti stutt aths. viðvíkjandi atkv. að duga. Með málþófi er lítið unnið. Læt ég svo þetta nægja sem grg. fyrir mínu atkv.