11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Baldvinsson:

Það hefir nú verið talað fyrir hönd n. af frsm. hennar. En ég vil byrja mál mitt á því að lesa upp álit n., svo það verði tvíprentað í Alþt., bæði í skjalaparti og umræðuparti þeirra. Það hljóðar þá svo, með leyfi hæstv. forseta:

Frv. þetta er þann veg vaxið, að breytingar verða ekki á því gerðar, og liggur því ekki annað fyrir en annað tveggja að samþykkja það eða hafna.

Um kosti og galla samnings þess, er frv. gerir ráð fyrir að lögfesta, hefir verið svo mikið rætt og ritað, að nefndin sér ekki ástæðu til í nefndaráliti að bæta þar við. Munu nefndarmenn gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins við umræður í deildinni.

Alþingi, 7. apríl 1933.

Ingvar Pálmason, Jakob Möller,

form. fundaskrifari.

Magnús Torfason.

Þannig er þá þetta nál., og sýnir það, að hv. nm. hafa ekki komizt að neinni niðurstöðu um málið. N. hefir ekki klofnað, heldur hefir hún orðið sammála um að vísa málinu og vandanum, að segja nokkuð um það, yfir á þingdeildina. Nú hefir form. n. gert grein fyrir þessu frá sinni hálfu og n. og sagði sem satt var, að ekki væri mikið, sem hann hefði fyrir n. að segja.

Hv. frsm. n. sagði, að ekki væri þörf á miklum umr. um samning þennan, en sjálfur sagði hann samt talsvert um hann og það ekki fagurt. Hann sagði, að samningurinn væri óhagstæður og ávítar stj. fyrir að hann sé gerður öðruvísi en þingið ætlaðist til og finnur að því, að hann skerði fiskiveiðalöggjöf okkar. En svo fer hann að leita að kostum samningsins, nefnir þá þann einan, að honum megi segja upp. Og til þess ætlar hv. þm. að nota fyrsta tækifæri. En ég vil spyrja hv. þm.: Væri þá ekki betra og brotaminna að fella þennan samning strax, svo aldrei þurfi að hafa fyrir að segja honum upp? Það er hreinn misskilningur hjá hv. frsm. sjútvn. og öðrum, er þannig líta á, að það sé skylda þjóðar og þings að samþ. þennan samning, af því að stj. hafi samþ. hann og nefndin undirskrifað hann. Það er aðeins samkomulag n., sem hefir verið undirskrifað. Samningurinn verður ekki að milliríkjasamningi og fær ekkert gildi fyrr en Alþ. hefir lagt samþ. sitt á hann. Þessa er beint getið í samningnum sjálfum. Í 15. gr. hans er beint ákvæði um, að hann skuli lagður fyrir Stórþingið norska. Og í 17. gr. er talað um, að Alþ. taki málið til meðferðar. Þetta er því einungis uppkast að samningi, sem er lagt fyrir Alþ. til venjulegrar meðferðar. Alþ. getur því hvort sem það vill, samþ. þetta uppkast, fellt það eða breytt því. Ég álít, að gera megi allt þetta. Og ég fæ ekki séð, að heiður okkar sé á neinn hátt í veði, hvað af þessu sem verður gert, þrátt fyrir samkomulag n. Allt það tal er út í loftið, því allir vita, að það er undirskilið, að samþykki Alþ. komi til og að án þess samþykkis er samningurinn niður fallinn.

Það mun vera rétt hjá þeim þm., er það hafa sagt, að stjórnin muni verða að fara frá völdum ef samningurinn verður felldur, og það mun nú vera orðið aðalatriðið hjá þeim framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum, er vilja halda í stjórnina. Það er sennilegt, að hún verði að fara frá völdum. Og hún hefir lýst yfir, að hún muni gera það. En þó þessir menn hafi ást á stjórninni, þá ættu þeir þó ekki að verzla með réttindi landsins hennar vegna. Þeim ætti að verða auðvelt að setja aðra menn í stjórnarsætin. Það var auðheyrt, að hv. frsm. sjútvn. mun ganga nauðugur að því að samþ. þennan samning, að því er hann sagði sjálfur. En það eru ekki nógu ríkar forsendur fyrir því að samþ. þennan hættulega samning, þó stjórnin sé í hættu og verði að víkja frá völdum.

Við þessa umr. má ræða einstök atriði samningsins. Ég vil þá fyrst víkja að því, hvernig samningur þessi er lagður fyrir og þá aðallega að þýðingunni á honum. Það er sagt, að hann sé undirskrifaður af 4 mönnum, 2 frá hvorri þjóð. Nú er það svo, að þeir Norðmenn, sem undir samninginn hafa skrifað, hafa ekki tök á því að dæma um hinn íslenzka texta hans. Íslendingarnir, sem betri aðstöðu höfðu til að skilja norska textann, virðast því bera ábyrgð á þýðingunni. En nú er það svo, að ýms ákvæði virðast vera öðruvísi í íslenzka textanum en þeim norska. Það væri því gaman að vita, hvor textinn ætti að gilda, ef ósamkomulag yrði um textana. Það muna allir þýðinguna á sambandslagauppkastinu 1908 og hver ágreiningur varð um það. En þá var það tekið fram, að sá danski ætti að gilda, ef ágreiningur yrði.

Í 7. gr. samningsins er talað um ný réttindi handa Norðmönnum og norskum fiskiskipum — fríhafnir Norðmanna.

Þarna virðist felast meira í norska textanum. Þar stendur: „skal fartöiet være forankret eller fortöiet. Eftir orðinu „fortöiet“ finnst mér, að skipið geti legið bundið við hafnarbakka eða bryggju, en um það segir íslenzki textinn ekkert, og er það mjög ónákvæm þýðing.

Þá kemur 10. gr. samningsins, sem hljóðar svo: „Nú varpar skip akkerum utan löggiltra hafna, og greiðast þá ekki opinber gjöld, ef skipið hefir ekki samband við land“. Í norska eintakinu er þetta þannig: „Ved opankring utenfor legale islandske havner skal norske fiskefartöier ikke avkreves avgifter, såfremt skibet ikke har forbindelse med land“. Þarna er nokkur munur á. Í stað „legale islanske havner“ kemur aðeins, löggildra hafna“. Og þar sem í norska eintakinu er talað um „fiskefartöier“ er í íslenzku þýðingunni aðeins talað um „skip“. Orðalagið er þannig nokkuð þrengra í norskunni. En það er e. t. v. svo, að þó jafnvel maður kæmist að raun um, að það væri verulegur munur á íslenzku og norsku eintökunum, þá mætti ekki breyta einum einasta stafkrók, af því samningsmennirnir hafa skrifað undir þetta samningsuppkast.

Þá er hér í 12. gr. talað um að „verka aflann“. En í norska eintakinu er greinirinn ekki hafður með, heldur sagt „tilvirke fangst“, sem getur verið dálítið annað. Í 13. gr. skilst mér einnig vera meiningarmunur. Í íslenzkunni hljóðar upphaf greinarinnar svo: „Ef norskt fiskiskip vill ekki greiða sekt ...“ Hvenær halda menn, að Norðmenn vilji greiða sekt? Í norskunni segir: „Hvis norsk fiskefartöi ikke vedtar böteforlegg ...“ sem þýðir: ef norsk fiskiskip samþykkja ekki að greiða sekt. Það er dálítið annað. (Dómsmrh.: Heldur hv. þm., að þeir samþykki að gera það, sem þeir ekki vilja?) Hæstv. dómsmrh. þarf ekki að vera með neina útúrsnúninga; hann finnur vel sjálfur, að þýðingin er ekki nákvæm.

Þá er 16. gr. Þar er verulegur munur á íslenzkunni og norskunni, og virðist íslenzka þýðingin vera okkur í óhag. A-lið gr. verður að lesa í sambandi við formála greinarinnar. Þar er í íslenzkunni talað um „aðaltoll“, sem gilda eigi um eftirfarandi kjötmagn, en í norskunni er hann kallaður „grunnsats“. Svo kemur í íslenzkunni: Árið 1933—34 fyrir 11500 tunnur, en af þeim flytjist ekkert inn frá 1. júlí til 15. október“. Í norskunni er aftur greinin þannig: Den nye grunnsats av 10 öre pr. kg. gjöres fremtidig gjeldende ved fortolling av fölgende mengder saltet islandsk sauekjött:

a) I sesongåret 1933—34 for 11500 tönner, hvorav intet í tiden 1. juli—15. oktober, —“. Í stað þess, að í íslenzku þýðingunni er sagt, að ekkert kjöt megi flytja inn til Noregs héðan á þessu tímabili, þá er það ekki beint bannað í norskunni. Íslendingar mega flytja kjöt til Noregs hvenær sem er, en þeir fá ekki endurgreiðslu á tollinum á þessum tíma eða ívilnun á honum. (Dómsmrh.: Í íslenzkunni stendur: „þar af“. Hvað þýðir það?). Hæstv. dómsmrh. getur komizt að með sinn vísdóm á eftir.

Það er víðar nokkur ónákvæmni í þýðingunni, sem ég hirði ekki um að fara út í. Það hefir góður íslenzkumaður gert uppkast að annari þýðingu á norska eintakinu, sem er í verulegum atriðum frábrugðin þessari. Það uppkast get ég látið hæstv. ráðh. og n. í té, ef menn vilja athuga það. Það er í fullu samræmi við norska eintakið af samningnum, sem upphaflega var skrifað undir og sem sennilega á að gilda fremur en það íslenzka, þar sem norsku samningamennirnir hafa ekki haft aðstöðu til að dæma um, hvort þýðingin er rétt.

Ég hefi nú minnzt á einstök atriði í þýðingunni og vil því næst minna á það, sem áður hefir verið talað um, hvað Íslendingum er misboðið með orðalagi samningsins. Má þar fyrst og fremst benda á fyrirsögn I. kafla. E. t. v. er hún fremur þýdd okkur í óhag, en það er samt mikill munur á henni og hinni þurru frásögn um innflutning á íslenzku saltkjöti til Noregs í fyrirsögn II. kafla. Samningurinn er þannig óhagstæður okkur bæði að formi og frágangi. Er leiðinlegt, að í honum skuli vera bæði formvillur og þýðingarvillur. Þó eru það ekki mestu ókostir hans. Mestu ókostir samningsins eru í því fólgnir, að hann rýrir og e. t. v. eyðileggur að nokkru leyti blómlegan atvinnuveg, sem við ættum að geta byggt þannig upp í framtíðinni, að hann yrði einn stærsti þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar; atvinnuveg, sem oft hefir veitt mjög fljóttekinn gróða.

Ég ætla að bera fleira fyrir mig heldur en þeir, sem nú hafa verið að mótmæla samningnum. Ég ætla að bera fyrir mig mann, sem skrifaði á móti samkomulaginu við Norðmenn 1924. Það er einn af helztu útgerðarmönnum landsins, sem skrifaði langa grein í aðalmálgagn Íhaldsflokksins um kjöttollsmálið 25. marz 1924. Þessi maður rekur fyrst sögu málsins, og hirði ég ekki um að fara út í það. Hann segir um breyt. þá, sem gerð var á fiskveiðalöggjöfinni 1922, að hún hafi verið gerð með því að „sýnt þótti, að okkur væri sá einn kostur nauðugur að styrkja aðstöðu sjávarútvegsins á þann hátt, ella mundi hann verða undir í viðureigninni við erlenda keppinauta.“ Svo fer þessi útgerðarmaður að ásaka Norðmenn. Hann talar um þjóðir, sem hreiðrað hafi um sig hjá okkur. Á hann þar sýnilega við Norðmenn, sem sett höfðu upp veiðistöðvar hér og gert út héðan eins og þeir ættu allt og alla. Og hann telur, að fiskiveiðalöggjöfin hafi verið sett til þess að bola þeim burtu. Hann vill láta þann hafa happ sem hlýtur, láta Íslendinga sjálfa njóta auðæfanna við strendur landsins. Svo talar hann um tilraun Norðmanna til þess að höggva skarð í fiskveiðalöggjöf okkar og segir: „Ætla þá Norðmenn að hagnýta til hins ýtrasta vopnið, sem tilfellið hefir lagt þeim í hendur, og á þann hátt ryðja skarð í þann skjólgarð, er vér, að þeirra fordæmi, höfum talið þjóð vorri nauðsynlegan, svo vér mættum þroskast og dafna, þótt vér séum fátækir og smáir“. Og enn segir hann: „Það er nú í sjálfu sér undarlegt, að Norðmenn skuli leggja kapp á að þröngva oss til að víkja frá grundvallarreglum, er þeir áður í eigin löggjöf hafa viðurkennt, en þó er hitt furðulegra, að þeir krefjist sérréttinda af oss til þess eins að veita okkur jafnrétti við aðra. Hér sýnist sanngirnin lítil fyrirferðar, en þó minni þegar aðgætt er, hvað af mundi hljótast, ef kröfur Norðmanna næðu fram að ganga“. (Forsrh.: Var hv. þm. mótfallinn samkomulaginu frá 1924?). Ég skal svara því seinna. (Forsrh.: Annars gæti hann sparað sér að lesa þetta upp). Enn segir útgerðarmaðurinn:

„Enn er of snemmt að spá um væntanlegan hag Íslendinga af síldinni, ef úr henni verður unnið mjöl og lýsi í verksmiðjum, en þó skal á það bent, að vel mætti svo fara, að þar ættum vér þá gullnámu, er drýgst reynist. Væri því allt réttindaafsal á þessu sviði hið mesta glapræði“.

Það er hið mesta glapræði, segir þessi útgerðarmaður, að játa af höndum nokkur réttindi handa hinum norsku síldarverksmiðjum hér á landi. En í 1. gr. norsku samninganna er tekið fram, að hinar norsku verksmiðjur, sem nú eru á Íslandi, sé heimilt að reka framvegis. Ég vil í þessu sambandi spyrja hæstv. stj., hvort þessi skilyrðislausa heimild þýðir ekki endanleg og eilíf réttindi handa norsku verksmiðjunum til að starfa hér á landi, og það þó þessum samningi sé sagt upp.

Þá kemur það atriði í greininni, sem sérstaklega á við sem andmæli gegn þeim samningi, sem nú liggur fyrir. Greinarhöf. fer að ræða um, hvernig tilslakanir við Norðmenn myndu verka gagnvart öðrum þjóðum. Kemst hann að þeirri niðurstöðu, að: „að hinu þarf að sjálfsögðu ekki að spyrja, að fái Norðmenn eða aðrir hér tilslökun, munu Englendingar krefjast hins sama“. Það er auðvitað og viðurkennt af öllum, að ef við veitum einni þjóð ívilnun, þá munu þær þjóðir aðrar, sem beztukjarasamninga hafa við okkur, ganga inn í þau réttindi án þess að þær þurfi einu sinni að krefjast þess; þær fá þau sjálfkrafa.

Svo hrópar þessi útgerðarmaður, sem slíka er þingmaður: „Slökum til í engu!“ Þetta er fyrirsögn fyrir einum kafla greinarinnar. „Vér eigum hvergi að víkja fyrir Norðmönnum í þessu máli“, segir hann. Þessi þjóðmálamaður markar þannig skýrt sína afstöðu gagnvart Norðmönnum. Hann vill ekki láta þeim í té nein réttindi hér við land. Í lok greinarinnar gerir hann grein fyrir því, að hann vill, að fulltrúar framleiðenda í landinu til lands og sjávar taki höndum saman um bætur handa bændum vegna þess skaða, sem kjöttollurinn veldur þeim. Vill hann láta fulltrúa atvinnuveganna „ákveða sín á milli upphæð þá, er eðlileg og nauðsynleg teldist og um allt fyrirkomulag tollanna“. Hann vill láta bændur og sjávarútvegsmenn „bera hvers annars byrðar“. Hann vill ekki láta Norðmenn hafa nein réttindi til endurgreiðslu fyrir tilslökun á kjöttollinum, heldur einungis leggja byrðarnar á landsmenn sjálfa og skipta þeim upp á milli atvinnuveganna. Og svo bætir hann við: „Auðvitað viljum vér smælingjarnir halda frið við alla menn, en þó skal nú varið fátæka mannsins einasta lambi og heldur látið skeika að sköpuðu en kúgaðir verða“. Heldur hann svo áfram um það, hvað við eigum þá að gera: „Eigum vér Íslendingar nokkurn varasjóð, ef til kemur, þar sem eru mikil hlunnindi Norðmanna hér, verzlun í stórum stíl, flutningar miklir til landsins, en nær allir á fiski frá landinu; léleg strandgæzla nyrðra, sem vafalaust er þeim mikils virði, og óhæfilega slælegt eftirlit með ýmsum fyrirtækjum norðanlands, er grunur leikur á, að meir séu íslenzk í sjón en reynd“. Þarna bendir greinarhöf. á leið til þess að knýja Norðmenn til þess að sýna okkur sanngirni. Í rauninni hafa ekki verið færð sterkari rök gegn samþykkt þessa samningsuppkasts heldur en gert var af þessum manni árið 1924. Skrifaði hann þó ekki þessa grein fyrir það, að fyrir lægi til staðfestingar nokkur samningur um tilslakanir af okkar hálfu við Norðmenn. Það var aðeins umtal um tilslakanir við Norðmenn, sem komu honum til þess að skrifa greinina. Samkomulagið frá 1924 var þá ekki komið á, en eins og menn muna, var ekki með þeim samningi gerð nein breyt. á fiskveiðalöggjöfinni. Þar var aðeins um að ræða munnlegt samkomulag um „velviljaða“ framkvæmd á ýmsum atriðum fiskiveiðalaganna, sem í framkvæmdinni snertu Norðmenn. Kjöttollssamningurinn frá 1924 er því ekki sambærilegur þeim samningi, sem nú liggur fyrir, því með honum á að breyta fiskveiðilöggjöf okkar Norðmönnum í vil. Og það er játað, að þau hlunnindi, sem samkv. honum á að veita Norðmönnum, eru talsvert meiri heldur en þeir fengu með samkomulaginu frá 1924. Ég get gjarnan svarað því, sem hæstv. forsrh. spurði mig um áðan. Ég álít, að eftir atvikum hafi samkomulagið frá 1924 mátt teljast viðunanlegt. En eins og ég tók fram, er það alls ekki sambærilegt við þennan samning, m. a. vegna þess, að með því var okkur ekki meinað að haga innanlandslöggjöf okkar eins og okkur sýnist, né að skipuleggja afurðasöluna. En í samningnum, sem hér liggur fyrir, er tekið fram, að ef Íslendingar setji l., sem á einhvern hátt draga úr þeim hlunnindum, sem Norðmönnum eru veitt með samningnum, þá geti Norðmenn fyrirvaralaust sagt honum upp. Norðmönnum er með öðrum orðum gefið tækifæri til þess að sletta sér fram í okkar lagasetningu og veitt aðstaða til að nota það sem keyri á okkur, að þeir segi upp samningnum og hækki kjöttollinn. Ef við kæmum t. d. á sölusamlagi til þess að annast síldarsölu okkar og vildum styrkja það með lögum, á sama hátt og fisksölusamlagið var styrkt í vetur með bráðabirgðalögunum, þá geta Norðmenn neitað, að við setjum slík lög og sagt samningnum upp að öðrum kosti.

Nú hefi ég til þess að sýna tilhliðrunarsemi þeim, sem hart verða úti vegna tollhækkunarinnar, ef samningurinn er felldur, borið fram frv. um ráðstafanir til þess að bæta íslenzku bændunum upp þann halla, sem þeir yrðu fyrir vegna kjöttollsins. Í því frv., sem útbýtt hefir verið hér í dag, er leitast við að bæta bændum upp með framlagi úr ríkissjóði þann mismun, sem yrði á kjöttollinum frá því, sem nú er, ef samningsuppkastið er fellt, á því kjötmagni, sem samningurinn gerir ráð fyrir, að flytja megi til Noregs. Í frv. er aðeins talað um eitt ár, en l. mætti alltaf framlengja, ef ekki næðist samkomulag við Norðmenn á öðrum grundvelli. Ég taldi rétt að láta slíkar till. koma fram nú, til þess að þeir menn, sem vegna fylgis bændastéttarinnar telja sig e. t. v. verða að samþ. norska samninginn, fái tækifæri til þess að firra bændur skaða á annan hátt. Það má að vísu segja, að það hefði átt að vera verkefni ríkisstj. að bera fram till. í þessa átt, til þess að þingið hefði þó möguleika til þess að komast hjá að samþ. þennan samning, sem nær allir eru óánægðir með. Það þarf ekki annað en lesa nál. sjútvn. og hlusta á ræðu frsm. hennar til þess að sjá, hvernig hljóðið er yfirleitt í hv. þm. í þessu máli. Undir niðri munu allir hv. þm. vera á móti samningunum, að undanteknum þremur eða fjórum mönnum, sem sagt er, að fylgi honum af sannfæringu. Þeir eru á móti honum vegna þess, að þeir álíta hann réttindaafsal og að með honum sé farið inn á þá braut að verzla með landsréttindi, eins og hv. 1. landsk. benti á. En af samskonar ástæðum og hv. form. sjútvn. lýsti hér, telja þeir sig bundna við að greiða honum atkv. Menn telja sig bundna við að samþ. samninginn, m. a. vegna þess, að hann hafi þegar verið undirskrifaður fyrir landsins hönd af samningsmönnunum og ríkisstj. En sú skoðun er á algerðum misskilningi byggð, því vitanlega var samningurinn undirskrifaður með þeim fyrirvara, að hann hlyti samþ. Alþingis. Og úr því samningurinn var lagður undir úrskurð Alþingis, þá var alltaf sá möguleiki fyrir hendi, að hann yrði felldur.