29.05.1933
Sameinað þing: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (1839)

183. mál, þjóðaratkvæði um aðflutningasbann á áfengum drykkjum

Lárus Helgason:

Það var hv. þm. Borgf., sem þóttist vera mjög glaður yfir þeirri viðurkenningu, er hann taldi, að við, sem fluttum frv., hefðum sýnt sér. Ég þarf nú reyndar ekki að svara þessu, hv. þm. G.-K. hefir gert það svo rækilega. Ég hafði nú raunar haldið, að hv. þm. Borgf. væri ekki sérlega hætt við monti, en mér fannst þó nærri því, að það gægðist þarna upp. En ég get vel unnað honum ánægjunnar af því að hafa dregið þetta frv. á langinn með málþófi, sem hann hefir viðhaft f því eins og mörgum öðrum málum. Við, sem fluttum frv., vildum hvorki tefja önnur mál né heldur lengja þingið að mun með málþófi. Og af þessum ástæðum knúðum við það ekki fram. Það var þó vitað, að hægt var að koma því í gegnum þessa deild, þrátt fyrir málþóf hv. þm. Borgf. og samherja hans í þessu máli.

Hvað því viðvíkur að fresta atkvgr. um ár, þá er það skiljanlegt frá sjónarmiði hv. þm. Borgf., að hann vilji það, þar sem hann er ánægður með ástandið eins og það er. En það er einkennilegt, hvað hv. þm. Borgf., sem þó er glöggur maður á ýmsum sviðum, missýnist þarna. Hann vill sjáanlega láta menn fá meiri æfingu í því að brugga og smygla inn. Hann ætti þó að geta séð, að ástandið er vont og fer æ versnandi. Það hefir sýnt sig hér sem annarsstaðar, að bannið hefir gefizt illa, enda er hér heldur ekki um fullkomið bann að ræða, þar sem við vorum neyddir til að leyfa innflutning á Spánarvínum. Er óskiljanlegt, að nokkur vilji halda slíku ástandi við, enda er vonandi, að Alþ. sýni, að það er ekki ánægt, og samþ. till. þessa.