11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Baldvinsson:

Ég ætla að víkja örfáum orðum að hæstv. dómsmrh., sem talaði nú síðast, og þeim orðum, sem hann beindi til mín út af umr. í dag. Hæstv. ráðh. hélt því fram, að hann hefði aldrei orðið var við eins miklar hártoganir í nokkru máli eins og út af þessum samningi. Hæstv. ráðh. verður að þola það, að samningurinn og orðalag hans sé „kritiserað“, því að þetta er áreiðanlega mikilsvert mál, og það skín út úr hverri setningu hjá honum, hversu þýðingarmikið mál hann telur þetta vera, og þá er ekki nema eðlilegt, að því stærri sem málin eru, því meiri gagnrýni séu þau undirorpin. Hæstv. ráðh. taldi, að mínar aðfinnslur hafi ekki verið aðrar, en að lesa upp grein úr Morgunblaðinu eftir Ólaf Thors, sem hefði deilt á tilslakanir við Norðmenn 1924. Hæstv. ráðh. sagði, að þá hafi staðið öðruvísi á. Þá hafi verið gerðar kröfur af Norðmanna hálfu um miklar ívilnanir á fiskiveiðalöggjöfinni og við það hefði greinin verið miðuð. Það, sem ég las upp hér í dag, er ekki miðað við þær kröfur, sem Norðmenn gerðu þá, heldur er það almennt um fiskiveiðalöggjöfina og almennt um að slaka í engu til við Norðmenn. M. a. s. notar greinarhöf. sem fyrirsögn á einn kafla sinn „Slökum í engu til“. Þessi grein á eins og ekki síður við samning þann, sem nú liggur hér fyrir, og að því leyti frekar, sem lengra er gengið í þessum samningi en samkomulaginu frá 1924. — Hæstv. ráðh. sagði, að eftir fiskveiðalöggjöfinni væru Norðmenn ekki réttlausir. Það er satt; þeir hafa vissan rétt til að selja lítilsháttar í land, en um það er sérstakt stjórnarráðsbréf frá 1924, sem um var deilt á sínum tíma og þingið var ekki á einu máli um skilning á því. Þær heimildir, sem eftir því fást, eru svo miklu minni en eftir samkomulaginu frá 1924 og sem verða samkv. samningi þeim, sem hér liggur fyrir, að þegar hæstv. ráðh. og aðrir fylgismenn samningsins eru að tala um, að í sumum atriðum sé farið skemmra en 1924 og í sumum lengra, þá eru þeir að reyna að slá með þessu ryki í augu almennings, að þetta sé aðeins ofurlítil tilfærsla, því að sannleikurinn er sá, að í samningnum, sem hér liggur fyrir, eru í verulegum atriðum rýmkuð réttindi Norðmanna frá samkomulaginu 1924, en í óverulegum atriðum þrengd. Það er sá mikli munur. Hæstv. ráðh. spurði í sinni ræðu, hvað stj. hefði átt að gera á síðastl. hausti, ef ekki hefðu verið líkur til, að samkomulag næðist, hvort hún hefði átt að kaupa kjötið, en til þess vantaði hana heimild, sagði hæstv. ráðh. Það er sennilega rétt, að í l. var ekki heimild til þess, en ef hæstv. ráðh. grandskoðar huga sinn og hæstv. ráðherrar athuga sinn gang, munu þeir sjá, að þeir hafi gert eitthvað til útgjalda fyrir ríkissjóð, sem þá vantaði heimild til og þarf ekki annað en að benda á hin stórkostlegu útgjöld til ríkislögreglunnar, sem nema vænni sneið af andvirði þess kjöts, sem þeir hefðu þurft að kaupa á síðastl. hausti, því að allt saltkjöt frá síðastl. hausti er selt. Menn ganga nú hér í Rvík á milli búðanna og biðja um saltkjöt, en það fæst hvergi. Það, sem út var flutt af framleiðslu síðastl. árs, munu hafa verið liðugar 6 þús. tn., og nú er kjötlaust hér á landi. Ég vil ekki segja, að allt myndi hafa selzt, ef ekkert hefði verið flutt út, en mikið hefði selzt, og hefði það ekki haft nein veruleg áhrif á verðið; en það er rétt að taka það fram strax, að það er ekki víst, að öll haust sé eins lítið kjöt til útflutnings eins og síðastl. haust, og það sem út var flutt á síðastl. hausti var ekki það mikið, að stj. hefði ekki ráðið við að kaupa það upp og haft eins góða heimild til að gera það eins og að eyða fé í ríkislögregluna. Hæstv. ráðh. játaði, að aðstaðan hefði breytzt síðan á síðastl. ári og sérstaklega gagnvart Bretlandi. Þetta er rétt; nú er þar takmarkaður innflutningur á kjöti. En athugar hann þá, að í samningnum, sem hér liggur fyrir, og hann játaði, að væri ókostur samningsins, að við erum sjálfir að takmarka innflutning okkar til Noregs? (Dómsmrh.: Við sjálfir?). Ég man ekki betur en að ég hafi séð í einhverri skýrslu um kjöttollsmálið, að þetta hafi komið frá Íslendingum, því að það mundi fara svo að lokum, að við þyrftum ekki á neinum saltkjötsmarkaði að halda. Þetta er einn höfuðókostur samningsins, að okkar réttindi fara minnkandi, en réttindi Norðmanna haldast áfram, svo lengi sem samningurinn gildir. Norðmenn fara verr með okkur Íslendinga en með aðrar viðskiptaþjóðir sínar, vegna þess að tollurinn á ísl. saltkjötinu er hærri miðað við verð, af því að hann er þungatollur, en á öðrum dýrari kjötteg., sem aðrar þjóðir flytja inn, og þó höfum við mjög góða aðstöðu gagnvart Norðmönnum. Ég veit ekki annað en að til skamms tíma hafi alls ekki verið amazt við því, að norskir kaupmenn gengu hér á milli verstöðvanna og keyptu fisk eða lýsi og hefðu allt eftir sinni hentisemi. Þeir hafa strandferðir hér við land, og ég skal ekki segja nema það kunni að vera landsmönnum að gagni. Þeir hafa megnið af flutningum frá landinu, h. u. b. allan fisk; auk þess kaupa Íslendingar meira af Norðmönnum af vörum en þeir selja til Noregs, síðustu árin svo skiptir þó nokkrum milljónum. Auk þess er nokkuð af því, sem við seljum til Noregs, aðeins umboðsvara, sem seld er annaðhvort til Ameríku eða Þýzkalands, svo sem fiskimjölið og lýsið, sem Norðmenn selja til stóru verzlunarhringanna í Þýzkalandi eða Ameríku. Að þessu leyti ættum við að standa vel að vígi gagnvart Norðmönnum. Svo er í þriðja lagi það, sem vel mætti athuga, að ég sé ekki, að okkur sé lífsspursmál að semja við Norðmenn, því að þeir hafa svo mikilla hagsmuna að gæta hér, að þeir hljóta að vilja veita okkur betri rétt en að farið sé í tollstríð milli landanna; en ég játa, að til eru þær þjóðir, sem okkur er lífsnauðsyn að semja við, en í þeirra tölu eru ekki Norðmenn.

Hæstv. forsrh. talaði hér í dag og játaði nú, að ónákvæmni væri í þýðingunni á samningnum. Ég hirði ekki að fara út í hugleiðingar hans um rétt stj. til að gera þessa samninga og skyldu þingsins, en ég ætla að víkja að því, sem snertir þýðinguna. Hæstv. ráðh. varð að játa, að þetta væri ekki orðrétt þýtt og að það væri ónákvæmni í þýðingu á einni þeirri grein, sem ég las upp, 13. gr. Það játaði hann. Ég býst við, að slíkur samningur sem þessi verði togaður eins og hrátt skinn milli þeirra aðilja, sem eftir honum eiga að fara, og sérstaklega af því að það er svo margbreytilegt, sem Norðmenn hafa við okkur að skipta eftir samningnum, þá er sennilegt, að þeir togi samninginn meira en við, og þá er leiðinlegt, að í slíku skjali skuli stj. ganga inn á, að íslenzki textinn sé ekki orðrétt þýddur og að það sé ónákvæmni í þýðingunni. Þá lýsti hæstv. ráðh., hvernig þessi texti hefði orðið til. Samningsuppkastið er gert í Noregi. Síðan er samningurinn sendur hingað heim og hér er hann þýddur á íslenzku og sendur til Noregs til athugunar og undirskriftar. Þetta þýðir, að það er norski textinn, sem fyrst er gerður og íslenzka þýðingin síðan byggð á honum. Norðmenn mundu þá sjálfsagt telja það alveg víst, að það sé norski textinn, sem ræður, ef ágreiningur verður um, hvernig skilja beri hina mismunandi texta samningsins. Ég minntist raunar á það í dag, að það er dálítið skiljanlegt, af því Íslendingar stóðu það betur að vígi, að þeir skildu norskuna, en Norðmennirnir skildu ekki íslenzkuna.

Hæstv. ráðh. sagði, að þessir samningar gætu ekki verið mér alvörumál, úr því að ég væri að fara út í aðra eins smámuni eins og þýðinguna. Það er nú svo, að við þrjár umr. í Nd. og eina umr. hér í Ed. er búið að ræða rækilega um kosti og ókosti samninganna, hvaða áhrif þeir hefðu á atvinnuhætti Íslendinga, og þá álít ég, að það sé rétt, að við einhverja umr. sé líka rædd sú formlega hlið málsins og ekki sízt við 2. umr., þegar þingsköp gera beinlínis ráð fyrir því, að rætt sé um einstakar greinar, orðalag þeirra og efni.

Þá talaði hv. 1. þm. Reykv. um samningana, og hafa þeir þá allir talað, nefndarmennirnir, og gert grein fyrir sinni afstöðu til samninganna, en hafa farið í nokkuð svipaða átt og í nál., sem þeir sendu okkur hér í d. Hv. 1. þm. Reykv. var að afsaka starf n. og sagði, að það væri hlutverk nefndar að athuga formhlið málanna og grandskoða, hvort þau kæmu í bága við önnur 1. Yfirleitt virðist eftir ummælum hans, að n. hafi eingöngu athugað formshlið málsins, en hún hafi ekki minnzt á efni samningsins, sem er þó aðalatriðið í þessu máli, og hvaða áhrif þessi löggjöf hefði á atvinnuvegi landsmanna. Það var það, sem mér fannst að n. hefði fyrst og fremst átt að athuga, en það hefir n. vendilega forðast. Mér finnst sannast að segja, að n. hafi heldur ekki athugað formhlið málsins, úr því að hún hefir ekki einu sinni komið auga á þá ónákvæmni, sem er í íslenzka textanum, miðað við þann norska. Það lítur ekki út fyrir, að n. hafi athugað þetta, eða kannske á þetta allt að felast í þessu nál., þar sem segir, að það sé ekkert við samninginn að gera annað en að fella hann eða samþ.

Þá var hv. 1. þm. Reykv. með ónot og snuprur til hv. 2. þm. Reykv., sem ekki á sæti í þessari hv. d. og getur ekki svarað fyrir sig, fyrir að hafa vakið öldu gegn þessu frv. Hann hefði komið af stað heiftúðlegum andmælum gegn frv. eftir að hafa í utanríkismálanefnd samþ. samninginn eða a. m. k. látið hann ganga fram athugasemdalaust. Ég hlustaði á umr. í Nd. um daginn, og ég heyrði hv. 2. þm. Reykv. segja frá því, sem hann hefir endurtekið við mig í kvöld, að hann hefði gert ágreining á fundi, þegar samningurinn lá fyrir, um einstök atriði samningsins, og þegar hv. þm. G.-K. spurði hann á þeim fundi, hvort hann mundi greiða atkv. með samningnum, sagðist hann engu lofa um það. Hann myndi bera sig saman við sína flokksstjórn. Það var gert ráð fyrir, að þetta myndi verða stjfrv. og myndi koma fram á öndverðu þingi. Svo leið og beið og þá gerði stj. Alþýðusambands Íslands þá ályktun, að þessi samningur skyldi birtur, til þess að menn fengju tækifæri til að sjá hann áður en hann væri lagður fram til samþykktar. Það hefir sýnt sig, að það var ekki að ófyrirsynju gert. Hvaðanæfa hafa borizt andmæli gegn samningnum, fyrst og fremst frá þeim stéttum, sem eftirgjöfin á fiskiveiðalöggjöfinni bitnar á, sjómannastéttinni og útvegsmönnum, er stunda síldveiði. Þaðan hafa komið mjög ákveðin og eindregin mótmæli gegn því að samþ. þennan samning. Ég skil sannast að segja ekki, hvað hv. þm. (JakM) á við með því að láta þennan samning ganga í gegnum „rólega athugun á venjulegan hátt“, eins og hv. 1. þm. Reykv. orðaði það. Mér skilst, að hann meini með því, að stj. hefði ekki átt að segja neinum utanþings frá þessum samningi, heldur hefði hún átt að leggja frv. fram á leynifundi til að láta samþ. það eða fella. Það er gefið, að hefði það verið gert á leynifundi, þá hefði lítið heyrzt utan að, hvernig menn tækju þessum samningi; svo að það er það, sem hv. 1. þm. Reykv. harmar, að það skyldi ekki vera hægt að afgreiða þennan samning á lokuðum fundi, því að þá þurfti hann ekki að gera kjósendunum grein fyrir afstöðu sinni til málsins. — Hv. 1. þm. Reykv. tók fram öll rök fyrir því, að þessi samningur ætti að samþykkjast. Hann sagði, að ef þetta hefði verið borið undir þingið í fyrra, hefði það verið samþ. í einu hlj. Það er hægt að segja það eftir á, en ekki er líklegt, að stj. hefði fengið heimild til að bjóða það, sem felst í þessum samningi. Hann vildi ekki halda í samninginn, þó að honum þætti vænt um stj., og það, sem hann sagði um samninginn og honum til andmæla, var, að síldarútvegurinn í fyrra undir frjálsu fyrirkomulagi hefði gefið vonir um, að nú myndi fara að rætast úr fyrir mönnum og gefið bjartari vonir um framtíðina en verið hefði meðan síldareinkasalan var. Þetta frjálsa fyrirkomulag var áður en síldareinkasalan kom, og hvernig var því lýst af þeim mönnum, sem aðallega hafa haft forgöngu í síldarútgerðinni eins og Birni Líndal og Ólafi Thors, þegar þeir á þinginu 1926 komu með frv. um lögbundin félagsskap til þess að selja síldina? Á þessu þingi lýsti Björn heit. Líndal þessu þannig, að það hefði verið vont í hitteðfyrra, það hefði verið verra í fyrra og liti út fyrir að fara versnandi hjá síldarútveginum, vegna hinnar taumlausu samkeppni, sem eyðilegði verðið og markaðinn. Alveg það sama hefir verið í fiskverzluninni. Það var svo komið á síðastl. ári, að framleiðendur og fiskútflytjendur, þeir, sem mest hafa talað fyrir frjálsri samkeppni í allri verzlun, hafa komið sér saman um og fengið til þess opinberan stuðning, að þvinga alla landsmenn undir eitt samlag til þess að geta ráðið framboðinu og til þess að geta haft hönd í bagga með verðinu. Hv. þm. G.-K. þurfti m. a. s. meðan hann var ráðh. á jólaföstunni, að gefa út ein bráðabirgðal. til þess að tryggja þennan félagsskap. Það eru þess vegna líkur fyrir því, að síldarútvegsmenn muni framvegis, þrátt fyrir það, hvernig fór um síldareinkasöluna, koma til löggjafans og biðja um stuðning, til þess að geta haft einhverjar reglur um sölu á síldarafurðunum.

Þó að þeir samningar, sem nú liggja fyrir, verði samþ., þá megum við Íslendingar að vísu koma á skipulagi um sölu á síldarafurðum, en ef Norðmenn telja það skerðingu á sínum réttindum, þá segja þeir upp samningnum. Þeir fá aukin réttindi nú miðað við samningana 1924, en okkar réttur fer minnkandi. Þá held ég, að það hafi verið hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Árn., sem báðir vildu halda því fram, að fyrir þessa samninga eða samkomulag, sem gert var á síðastl. hausti, hefðum við getað selt kjöt til Noregs.

Hv. 1. þm. Reykv. tók það réttilega fram, að Norðmenn höfðu sín réttindi óskert í sumar við síldveiðarnar. Það var það, sem ég álít, að hafi verið höfuðvillan hjá hæstv. forsrh. og þeim, sem að þessum samningi stóðu frá Íslands hálfu, að þeir skyldu ekki beinlínis kúga Norðmenn til þess að ganga inn á samninga áður en þeim voru veitt réttindi til að nota þessa ívilnun sumarið 1932. Þegar þeir höfðu fengið þessi réttindi, þá fóru þeir að semja og stóðu samningarnir yfir á meðan þeir nutu hlunnindanna, en þegar kom að þeim tíma, þegar Íslendingar þurftu að fara að flytja sína vöru til Noregs, þá voru Norðmenn búnir að njóta þessara hlunninda yfir sumarið. Þetta gerði Norðmönnum aðstöðuna miklu hagfelldari. Það er mín skoðun, að eitthvert mesta klaufastrikið í þessu máli hafi verið það, að Norðmenn voru ekki þvingaðir til samninga áður en síldveiðatímabilið sumarið 1932 byrjaði. Það má náttúrlega segja eins og hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Árn., að vegna þessara samninga höfum við getað selt okkar kjöt til Noregs. En það er nú bara eftir að bita úr nálinni með það. Við höfum að vísu getað selt kjötið til Noregs, og við eigum að fá tollinn endurgreiddan þegar samningarnir eru staðfestir, svo að það er ekki fyrr en samningarnir eru samþ., sem við njótum þessara hlunninda hjá Norðmönnum.

Hv. 1. þm. Reykv. byrjaði á því að tala með samningnum og fyrir honum á alla lund og lýsti því yfir að lokum, að hann mundi greiða atkv. með honum til 3. umr., „en tæplega lengra“, sagði hann. Þetta verður sennilega útlagt þannig, að hann greiði samningunum atkv. til 3. umr. og áfram ef stj. þarf á að halda. Eins var með hv. 2. þm. S.-M., að hann talaði á móti samningnum á allan hátt, enda er það skiljanlegt, því að hann mun vegna afskipta sinna af síldareinkasölunni og síldveiðunum hafa þekkingu á því, hvað þetta er skaðlegt fyrir síldarútveginn, en samt vill hann láta hann komast áfram. Það er sannarlega undarleg afstaða þessara nefndarmanna, þegar þeir eru að gera grein fyrir atkvæðum sínum.

Það hefir ekki verið minnzt á eitt atriði hér, sem einn sjómaður vakti athygli mína á í dag skömmu fyrir fund. Það var viðvíkjandi reknetaskipunum. Það er talið, að norsk reknetaskip séu venjulega milli 50 og 60 hér viðland. Og það er talinn sæmilegur afli, að þau fái 1200 tunnur hvert yfir síldveiðatímabilið. En til þess að geta selt síld í land þurfa þau ekki annað en að gera samning við Holdö í Krossanesi eða Evanger á Raufarhöfn. En þó að þau geri samning um síldarbræðslu, þá þurfa þau ekki að selja þangað neitt. Þau gætu kannske látið þangað nokkrar tunnur rétt til málamynda. Ef þau aðeins gera samning, þá geta þau fullkomlega hagnýtt sér sínar 1200 tunnur, 700 tunnur geta þau selt í land, en farið með 500 tunnur með sér.

Öll þessi síldarsala í land hlýtur að verða til þess að keppa við ísl. síldveiðiskipin, og verður það til þess, að Íslendingar geta ekki saltað eins mikið og hefir verið, eða að öðrum kosti hlýtur verðið að falla sakir vaxandi framboðs. Enda er nú þegar farið að bera á því, að farið er að bjóða síld með lægra verði en verið hefir síðastl. ár. En það er talið að vera í gegnum þá Norðmenn, sem ætla sér að gera út næsta sumar í skjóli þessa samnings.

Það er öllum vitanlegt, að það hefir reynzt svo á síðustu árum, að sú síld, sem söltuð hefir verið í landi, hefir þótt betri vara en sú, sem söltuð er í skipum, og það er nokkurnveginn víst, að svo framarlega sem ekki kæmi til þess, að Norðmönnum yrði veittur þessi réttur, sem þeir eiga að fá eftir þessum samningi, þá mundu Íslendingar geta notið þess markaðs, sem þegar er fenginn fyrir slíka síld. Og það er öllum augljóst, að það verður minna, sem ísl. síldveiðiskip geta selt til söltunar í landi eftir því, sem norsk skip mega salta og selja meira.

Það sem Norðmenn fá einnig með þessum samningi, er réttur til þess að láta síldarverksmiðjur sínar hér á landi starfa áfram, og mér skilst, að sá réttur gildi áfram þrátt fyrir það, að þessum samningi verði sagt upp. Þau skip, sem verksmiðjurnar gera samning við, öðlast meiri réttindi en önnur norsk skip til þess að selja síld í land til söltunar, og rétt til þess að athafna sig á ísl. höfnum, Siglufirði og Akureyri. Þeim er veittur meiri réttur en ísl. skip hafa. Þegar ísl. skip koma í höfn til þess að gera við veiðarfæri sín, verða þau að flytja þau til þeirra manna, sem hafa það starf með höndum, að gera við, en það lítur út fyrir, að skipshafnir norsku skipanna megi gera sjálfar við sín veiðarfæri. Hvar sem á þennan samning er litið, þá eru aukin réttindi Norðmönnum til handa, og það er játað af öllum og búið að taka það fram við allar umr. og ástæðulaust að gera það oftar.

En út af því, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, að það væri ástæða til þingrofs um slíkan samning, þá vil ég segja annað, sem sé það, að það væri ástæða til að bera þennan samning undir þjóðaratkvæði áður en hann er samþ. hér og vita þá, hvort yrðu fleiri með en móti. Og ég er ekki í vafa um það, hvor atkvæðatalan yrði hærri. Því að það er vitanlegt, að flestir bændur, sem tala um þennan samning, eru á móti honum, þó þeir kunni kannske ekki við það að kveða upp úr með það, af því að þetta er gert í því skyni að veita þeim hlunnindi.

Það var sagt hér á dögunum og raunar fullyrt, að á búnaðarþinginu væru ekki nema 1 eða 2 menn, sem mæltu þessum samningi bót, en allir hinir væru á móti.

Þetta er í samræmi við það, að bændur hafa jafnan haldið fastast á öllum réttindum landsins. En eftir þessum samningi er verzlað með landsréttindi, eins og hv. 1. landsk. tók fram við 1. umr. þessa máls.