11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki vera langorður um þetta, því að það eru mest endurtekningar, sem hér eru hafðar á orði. Ég vil þó neita því, að ég hafi viðurkennt, að þýðingin á samningnum væri ónákvæm. Ég hefi að vísu sýnt þá miklu sanngirni að segja, að ef þýða skal orðin, þá þýða orðin „vedtar ikke“, „samþykkir ekki“. „Vill ekki“ er betri íslenzka og venjulegt lagamál. Hv. þm. vinnur sínum málstað ekkert gagn, þótt hann ráðist á þau orð, sem eru góð íslenzka.

Hv. 2. landsk. telur það hafa verið höfuðvillu hjá stjórninni að kúga ekki Norðmenn til samninga fyrir síldveiðitímann með því að draga að sér hendina með öll réttindi Norðmanna hér á landi. Ég vil benda hv. þm. á það, að það hefði verið ástæða til að segja eitthvað slíkt, ef við hefðum sagt upp samningum við Norðmenn. En nú var þetta öfugt. Norðmenn sögðu upp samningnum og settu sig í þessa aðstöðu sjálfir, og þeir gátu með sinni aðstöðu gert hvað sem verkast vildi.

Það var óhugsandi, að við gætum nokkuð beitt okkur vegna fiskiveiðalöggjafarinnar, og þó að enginn samningur hefði verið, höfðu Norðmenn mikið til þessi réttindi, að selja síld í land til söltunar samkv. skýringum, sem ekki er hægt að breyta í neinni verzlun. Þetta er því tilhæfulaust, að stjórnin hafi haft nokkurt vopn í höndum, sem hún hafi ekki beitt.

Hv. þm. heldur því fram, hans flokkur og flokksblöð, að með þessum samningi sé landhelgin eyðilögð, síldveiðarnar lagðar í rúst og sjómenn, útgerðarmenn og bændur séu á móti samningnum. Mig skal ekki undra, þó að hann sé á móti samningnum, þegar svona er ástatt. En hvernig vill hv. þm. skýra það, að síðasta þing vildi gera ýtarlegar ráðstafanir til þess að koma á samningum? Hvernig vill hann skýra það, að samningurinn hefir mikið fylgi utan þings og innan? Og hvernig ætlar hann að skýra það, ef samningurinn verður samþ., eins og ég tel sjálfsagt að verði?

Ég býst við, að þegar til kemur muni hann finna, að það vantar eitthvað á það, að þetta sé rétt. Menn munu sjá, að hér er framkvæmd landhelgisgæzla alveg óskert, og síldarútgerðin mun geta þrifizt eftir sem áður og við höldum öllum okkar landsréttindum. En að því er snertir ísl. netagerðarmenn vegna þeirrar ívilnunar, sem Norðmenn fengu með að bæta veiðarfæri sín í landi sjálfir, þá held ég að sé engin vinna frá þeim tekin. Ég veit ekki, hvort það er nokkur skylda fyrir ísl. skip að fara í land til þess að láta gera við veiðarfæri sín. Og ég veit ekki betur en að það megi hver sem er gera við net, og það hefir verið haft orð á því, hvort ekki væri réttara að taka upp venju Norðmanna í þessu efni heldur en að kaupa allt út. En sleppum því.

Það er talað hér eins og það sé engin hætta í því fólgin að fara í viðskiptastríð við Norðmenn. Ég vil hér bæta við einu atriði, sem ekki hefir verið nefnt áður, og það er, að slík barátta gæti flutzt yfir á sameiginlegan markað okkar í saltfiskslöndunum. Þetta er að vísu ekkert nýtt atriði. Það hefir oft áður komið fram hjá Norðmönnum, og nú síðast í sumar, er ég var þar staddur, varð ég þessa var. Það er því ekki gott að segja, hve miklu illu það gæti til vegar komið, ef við lentum í harkalegu viðskiptastríði við Norðmenn. Þetta á líka að koma til greina, þegar um það er rætt, hvort við eigum að gera samningsslit við Norðmenn. Ég segi, að það sé heppilegra fyrir sjávarútveg okkar, að við höfum vinsamlega samninga við Norðmenn.