11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Baldvinsson:

Ég vil víkja að ofurlitlu hjá hæstv. forsrh. Hann var að ógna okkur með því, að ef við ekki samþ. samninginn og færum að hefja viðskiptastríð við Norðmenn, þá mundu þeir hefna sín á okkur í sambandi við saltfisksmarkað okkar á Spáni. Ef Norðmenn færu að selja fisk þar suður frá með lægra verði en við, þá gerðu þeir sjálfum sér líka mikinn skaða. En mér finnast líkur til þess, að Norðmenn gerðu eitthvað það, sem hagur væri í fyrir sjálfa sig, frekar en fara að selja fisk með skaða. Þeir myndu líklega reyna að semja við okkur af nýju, þó að þeir fengju ekki eins mikil fríðindi og nú, samkv. þessum samningi, þar sem svo ójafnt er skipt, að Norðmenn fá mikil og aukin réttindi, en hlunnindi þau, sem við eigum að fá, eru mjög takmörkuð og fara minnkandi, og það er sá rauði þráður, sem gengur gegnum alla samningana. Þegar á þetta er litið, verður ekki annað sagt en að Norðmenn hafi mjög leikið á okkur.

Þá spurði hæstv. forsrh., hvernig stæði á því, að samningarnir hefðu svona mikið fylgi í þinginu, ef bændur, verkamenn og útgerðarmenn væru almennt á móti þeim. Þessu er því að svara, að fjöldi þeirra þm., sem greiða ætla atkv. með samningunum, hafa í ræðum sínum lagzt á móti þeim og talið þá óhafandi með öllu. En skýringuna fyrir þessari afstöðu þingmannanna er að finna í ræðu hv. frsm. (IP). Hann hélt því fram, hv. frsm., að það myndi geta skaðað okkur, ef við gengjum á móti samningunum, þar sem væri um að ræða milliríkjasamning, sem gerður væri af nefnd manna fyrir landsins hönd, og samþ. af ríkisstj. En þetta er misskilningur, því að þingið á að ganga frá samningnum að síðustu, og eru því engin viðurlög, sem við liggja, þó að það felli hann. Í þessu liggur skýringin á því, hvers vegna svona margir þm. fylgja samningnum. Ennfremur er töluverður ótti hjá sumum hv. þm. um það, að allt samkomulag milli Íhalds og Framsóknar fari út um þúfur, verði þeir ekki samþ., og að stj. neyðist því til að segja af sér. Hv. 1. þm. Reykv. hlustaði ekki á ræðu mína, en þó segir hann að rök þau, er ég bar fram í ræðu minni, hafi verið léttvæg. Ég get svo sem vel skilið, að honum finnist það léttvæg rök gegn samningi þessum, þó að 300—400 sjómanna í Rvík og Hafnarfirði fái að ganga atvinnulausir í landi vegna ákvæða hans. Upp úr slíkum smámunum leggur hv. 1. þm. Reykv. ekki mikið. Honum tekur ekki svo sárt til hinnar fátæku sjómannastéttar.

Ég talaði áðan við mann, sem hlustaði á ræðu þessa hv. þm. í dag; taldi hann eins og fleiri, að ræða hans hefði að mestu hnigið að því að færa fram rök með samningnum, aðeins hefði hann tvístígið dálítið í endalokin og sagzt mundu greiða atkv. með samningnum til 3. umr., en tæplega lengur, sem flestir skildu þannig, að hann myndi þá greiða atkv. með honum, ef stj. vantaði atkvæði til þess að koma honum gegnum þingið.