31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (1876)

158. mál, sútunar- og skófatnaðarverksmiðju

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég get tekið undir það með hv. 5. landsk., að í till. er ekki tekið fram um 2 mikilsverð atriði. Annað er gæði og nothæfi skinnanna og hitt sölumöguleikar. En þó að þetta sé ekki sérstaklega tekið fram, þá liggur það í hlutarins eðli, að þetta eru þau undirstöðuatriði, sem verður fyrst og fremst að ganga úr skugga um með rannsókn. Hv. 5. landsk. sagði líka, að ein stór skóverzlun hér í bæ væri ekki trúuð á það, að þessi iðnaðargrein ætti nokkra framtíð fyrir sér hér í bæ. En ég þekki samt aðra stóra skóverzlun, sem er bjartsýnni í þessum efnum. Hefir hún sérstaklega mikla trú á því, að hér megi með góðum hagnaði gera alla venjulega slitskó, leikfimiskó og skó til notkunar inni við úr íslenzkum skinnum. Hæstv. forsrh. benti og á, að innlend skinn mætti og nota til annars en skógerðar, því að hingað væri fluttur inn fyrir stórfé ýmiskonar skinnavarningur til klæða og skrauts, og ég get ekki trúað öðru en að vel unnin íslenzk skinn geti komið þar að notum. Við, sem búum í köldu landi, notfærum oss alls ekki sem vera skyldi innlend skinn til klæða á vetrum. Og stöndum vér þar að baki flestum eða öllum þeim þjóðum, er í jafnköldu loftslagi búa.

En þótt hverju heimili, til sveita a. m. k., sé nauðsynlegt að eiga slík hlífðarföt í vetrarhörkum og illviðrum, þá eru þau enn varla til nema á einstöku stað. Stafar það aðallega af því, að menn hafa ekki enn reynt þetta og þekkja vart annan skinnfatnað en útlendan, sem auðvitað er mikils til of dýr allri alþýðu manna. En ef reynslan er einu sinni fengin, þá hugsa ég, að þeir séu fáir, sem ekki vilja eiga hlífðarföt úr íslenzkum skinnum.

Þá er það og kunnugt, að innlend skinn eru ágætlega nothæf til hanzka- og töskugerðar og ýmiskonar smáiðnaðar, er gætu sparað oss að miklum mun erlend leðurvörukaup.

Hv. 5. landsk. beindi því til stj. að gæta allrar varúðar um að veita ríkisábyrgð fyrir láni til innlendrar skófatnaðar- eða leðurvöruverksmiðju skv. heimild í 22 gr. fjárl. Það er ljóst mál, að stj. mun ekki nota þá heimild fyrr en rannsókn í þessu efni er svo langt komin, að vænta má góðs árangurs. Það væri óforsvaranlegt að nota umrædda fjárlagaheimild án undangenginnar rannsóknar. Og m. a. af þeirri ástæðu vona ég, að þáltill. verði samþ.