31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (1877)

158. mál, sútunar- og skófatnaðarverksmiðju

Guðrún Lárusdóttir:

Það er ekkert vafamál, að skinnin má nota til margs, og hafa þm. átt kost á að kynna sér það í vetur, þar sem greinileg sýnishorn um það lágu fyrir fjvn. Það var kona ein, sem sótti um styrk til þess að kaupa vél til þess að sníða íslenzk skinn, bæði í hanzka, töskur og fleira. Ég hefi sjálf komið á verkstæði hennar og veit það vel, að hún notar jöfnum höndum íslenzk skinn og erlend, og það var ekki hyggilega gert að neita um aðstoð til að koma þessari iðngrein vel á fót, allra sízt þegar fjárhæðin, sem farið var fram á, var ekki hærri en einar 2000 krónur. En um gæði og sölumöguleika get ég sagt eina sögu, sem ég hefi heyrt, af konu einni íslenzkri, sem keypti sér dýrindis „pels“ í utanför sinni. Þegar svo konan kom heim til Íslands aftur, bilaði fóðrið í kápunni eitthvað lítilsháttar, og var því sprett frá, en undir því kom í ljós íslenzkur sútunarstimpill. Þetta sýnir glögglega, að möguleikar eru fyrir hendi, ef vel er á haldið, og er óskandi, að málið komist sem fyrst og bezt í framkvæmd, og mun ég gefa því mitt atkvæði.