01.06.1933
Neðri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (1890)

209. mál, víxilskuldir á Austfjörðum vegna Síldareinkasölu Íslands 1931

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Það er vitanlega í alla staði virðingarvert af hv. þm. Borgf. að vilja standa hér á verði fyrir hagsmunum ríkisins og koma í veg fyrir, að þingið gefi nokkra yfirlýsingu, sem skapar „kreditorum“ einkasölunnar meiri rétt en þeir hafa.

En ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á, að jafnhliða hinum lagalega rétti kröfuhafanna, sem er að ýmsu leyti vafasamur, að því er suma þeirra snertir a. m. k., þá má líka tala um siðferðislegan rétt þeirra manna, sem harðast hafa orðið úti í viðskiptunum. Að því er snertir þá menn, sem þessi till. fjallar um, þá er það óneitanlegt, að þeir hafa orðið sérstaklega hart úti.

Á síðasta þingi var rætt nokkuð um annan flokk manna, sem álíka stóð á fyrir, og þingið leit með sanngirni á kröfur þeirra. En að því er snertir þessa menn, þá höfðu þeir afhent síldareinkasölunni vörur sínar í góðri trú. Þeir fengu að vísu ekki peninga fyrir og ekki heldur ávísanir, en þeir fengu víxla, sem þeir skoðuðu jafntrygga greiðslu sem ávísanir eða peninga.

Ég verð því að lýsa því yfir sem mínu áliti, að það mæli ákaflega mikil sanngirni með því að taka nokkurt tillit til þessara manna, og ég tel það sjálfsagt, að á sínum tíma verði það gert. Í þessari till. felst ekki annað en það, að málaferlum gagnvart þessum mönnum verði frestað um sinn. En ég er ekki viss um, að þessi leið sé sú heppilegasta. Það, sem hér er um að ræða, er, eins og hv. frsm. minntist á, að fresta því, að gengið verði að mönnunum, og að til þess gæti komið eftir að búið væri að taka dóm. Um þetta vil ég ekki deila. Ég get hugsað mér, að í sumum tilfellum, þar sem menn eiga víxla, þá geti verið nauðsynlegt að taka dóm, og þess vegna hefði verið réttara að binda þau ákvæði í þessari till., að það mætti ganga að mönnum til fullnægingar lögunum.

Ég sé ekki tilefni til að fara lengra út í þetta, en vil fyrir mitt leyti leggja til, að till. verði samþ.