01.06.1933
Neðri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (1893)

209. mál, víxilskuldir á Austfjörðum vegna Síldareinkasölu Íslands 1931

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. S.M. sagði, að hér væri ekki verið að krefja ríkissjóð um sjálfsskuld, þannig að ríkissjóður hefði ekki stofnað til neinna slíkra skulda. En hér er verið að krefja ríkissjóð um skuld, og það gera þeir, sem annars halda því fram, að ríkissjóður beri ábyrgð á rekstri þessarar stofnunar, — ekki af því að ríkissjóður hafi stofnað til skuldarinnar, heldur af því, að ríkissjóður beri ábyrgð á þeirri stofnun, sem stofnað hefir til þessarar skuldar. Hv. þm. sagði, að krafan væri byggð á sanngirni. Það má vel vera, að þetta sé sanngirniskrafa, en það er þá sama sanngirniskrafa hjá öðrum, sem krefja síldareinkasöluna um skuld. Þessi stofnun er búin að greiða sumum að fullu þeirra skuldir, öðrum lítið eða ekki neitt. Því má segja það sama, að þeirra kröfur séu líka sanngirniskröfur, þegar þetta er lagt til grundvallar. En þingið verður að forðast að gefa nokkuð undir fótinn með þetta, en það gerir það með því að samþ. þessa till.

Hv. þm. minntist á nokkur dæmi þess, að ríkissjóður hefði hlaupið undir bagga með mönnum, sem hefðu orðið fyrir óhöppum, og tók t. d. Kötlugos. Því svaraði hæstv. dómsmrh. eins og við átti, ekki einasta hv. 1. þm. S.-M., heldur mér líka, sem staðið hefi með honum að þessu óhappaverki að setja síldareinkasöluna á stofn. Að þessu leyti höfum við leitt nokkurskonar Kötlugos yfir sjávarútveginn, sem kannske einna harðast hefir komið niður á mönnum í námunda við hv. 1. þm. S.-M.

En hvað því viðvíkur, að eldingu hafi slegið niður í hús og ríkið hlaupið þar undir bagga, þá fór hv. þm. ekki inn á það, á hverju slíkt byggist. Það byggist á því, að þarna var landssímastöð. Nú dettur engum manni í hug, að ríkissjóður beri ábyrgð á þeim kröfum, sem stofnað er til í nafni landssíma Íslands. Þar var um sanngirniskröfu að ræða, og ef það var af völdum þess, sem ríkisvaldið hafði gert, og óhappið byggðist á því, þá var það ríkið, sem átti að hlaupa undir baggann, eins og það líka gerði.

Hv. þm. Ak. var með einhverja kröfu í fyrra á hendur ríkinu út af því, hvernig komið er fyrir síldareinkasölunni. En það mætti þá ef til vill skilja hv. þm. þannig, að hann ætlaði að nota sér samþykkt þessarar till. til þess að byggja brú fyrir sína kjósendur til þess að koma þeim inn á ríkissjóðinn, sem honum tókst ekki í fyrra. Hann sagði, að það væri til tvennskonar réttur, lagalegur og siðferðislegur. Það er náttúrlega nokkuð mikið til í því, en ég vil benda á það, að ég og hv. 1. þm. S.-M. berum ábyrgð á því gagnvart okkar kjósendum, að hafa verið með í því að setja þetta fyrirtæki á stofn. Og hv. 1. þm. S.-M. byggði það á kröfu sinna kjósenda, að síldareinkasalan var sett á stofn, svo að það má benda á það, að það er ekki gott að beita þessum siðferðislega rétti til ríkisins. Það er yfirlýst af hv. 1. þm. S.-M., að ríkið beri enga ábyrgð á þessu fyrirtæki. Það er þá rétt að vekja athygli á því, að það ætti að beina þessum siðferðislega rétti í sambandi við þetta mál í einhverja aðra átt heldur en til ríkisins. Annars hefi ég verið með því, að þessum mönnum væri rétt einhver hjálparhönd, en ég mótmæli því, að Alþingi geri það á þann hátt, að það gæti orðið til þess, að menn geti fengið aðstöðu til að byggja á kröfur sínar um það, að ríkið beri ábyrgð á gjaldþroti síldareinkasölunnar. Það er þess vegna, sem ég er algerlega á móti þessari till., og hefi ég ekki viljað taka neinn þátt í meðferð málsins á þeim grundvelli, og mun því greiða atkv. á móti till., því að ég vil ekki á nokkurn hátt veikja aðstöðu ríkissjóðs.