01.06.1933
Neðri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (1894)

209. mál, víxilskuldir á Austfjörðum vegna Síldareinkasölu Íslands 1931

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Það eru aðeins fáein orð út af mótmælum, sem hafa komið fram frá hv. þm. Borgf., og svo athugun hæstv. ráðh. á þessu máli.

Ég skal játa það, að ég gleymdi því í minni framsöguræðu að geta þess, að hv. þm. Borgf. var sá af nm., sem ekki vildi vera flytjandi þessa máls og taldi á því öll tormerki. Hann sagði, að það mætti líta svo á út af þessum afskiptum, sem þingið hefði haft af þessum lögum, að það gæti falizt í því viðurkenning hjá ríkinu, að það yrði að greiða skuldir einkasölunnar. Ég hefi í framsöguræðu minni lýst því yfir sem minni skoðun — og það er einnig skoðun hinna nm. —, að með þessari till. er ekki hægt að leiða neina ályktun um það, að ríkið eigi að bera nokkra ábyrgð á síldareinkasölunni eða skuldum hennar. Till. var einmitt stíluð með það fyrir augum, að hún yrði þannig orðuð, að ekki væri hægt að hengja hatt sinn á orðalag hennar. Og ég tók það fram í minni framsöguræðu, að það væri alls ekki meiningin hjá meiri hl. n. að gefa með þessari till. nokkuð undir fótinn um það, að ríkið ætti að bera ábyrgð á skuldum einkasölunnar. Þetta tók ég greinilega fram, og út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, þar sem hann tiltók orðalag till.: „þar til úrlausn fæst um viðskipti þessi, að nánar athuguðu máli“, þá sagði ég út af þessu orðalagi till., að meiri hl. n. ætlaðist alls ekki til þess, að ríkið tæki að sér neina ábyrgð á greiðslu þessara skulda, og lagalega eiga þessir menn aðeins aðgang að búi síldareinkasölunnar. Og í sambandi við þetta las ég upp bréf frá skilan. síldareinkasölunnar til stjórnarráðsins um þetta mál, þar sem n. skýrir frá því, að þetta mál hafi komið til sín og það verði ásamt öðrum slíkum kröfum tekið til greina, og það var með tilliti til þess, að ég útskýrði þetta orðalag till.: „þar til úrlausn fæst“ o. s. frv. þannig, að frá mínu sjónarmiði væri þessi úrlausn fengin, þegar skiptunum væri lokið. Þá sést bezt, hvað hver fær, og fyrr getur ríkið ekki hlaupið undir baggann með þessum mönnum að því er snertir viðskipti þeirra við einkasöluna. Ég var búinn að taka þetta svo greinilega fram, að mér finnst óþarfi af hv. þm. Borgf. að vera að væna meiri hl. n. um það, að hann hafi gefið nokkurn ádrátt í þessu efni, hvorki í till. eða ræðu þeirri, er ég flutti fyrir hennar hönd, að þetta geti orðið tilefni til þess, að ríkið beri ábyrgð á skuldum einkasölunnar. Þessu mótmæltum við greinilega í sambandi við till., þó það komi ekki beint fram í henni.

Hv. 1. þm. S.-M. var auðvitað ekki sem ánægðastur yfir þessari till., af því að honum þótti ekki nægilega hlaupið undir baggann með þessum mönnum, en málið er ekki komið svo langt ennþá, að hægt sé að hlaupa undir baggann á annan hátt en þann, að ríkisstj. reyni að fá bankana til þess að gefa frest á þessum skuldum. Mér finnst óþarfi að hafa fleiri orð um þetta, en ég vildi aðeins láta þessa skoðun í ljós, sem ég raunar hafði gert í minni framsöguræðu.