27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (1898)

204. mál, búfjársjúkdómar

Flm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Allmikill faraldur í sauðfé gengur nú yfir víðsvegar á landinu, sem stafar að langmestu leyti, eftir því sem sagnir herma, af lungna- og garnaormaveiki. Sömuleiðis hefir nokkuð borið á hinni svo kölluðu Hvanneyrarveiki. Slíkur faraldur sem þessi hefir gengið nokkrum sinnum áður yfir ýms héruð og valdið miklu tjóni. Horfir þetta mjög í óvænt efni fyrir sauðfjárræktina í landinu, og er þess vegna kominn tími til, að gerðar séu ráðstafanir til þess að gera rannsókn á þessum sjúkdómum og vita, hvort ekki sé hægt að finna orsakir þeirra. Nú á landið á að skipa duglegum og ötulum vísindamanni á þessu sviði, sem er Níels Dungal, forstöðumaður rannsóknarstofu háskólans, sem einnig á að verða forstöðumaður rannsóknarstofunnar í þarfir atvinnuveganna. Með tilliti til þess er farið fram á það við ríkisstj., að hún feli þessum manni að rannsaka þessi mál og yfirleitt verði gert það, sem hægt er, til þess að reyna að komast fyrir orsakir þessara kvilla og finna ráð við þeim. Þetta er einmitt eitt alvarlegasta áhyggjuefnið fyrir sauðfjárframleiðendurna í landinu eins og sakir standa, því af þessum kvillum stafar mikil hætta. Ég vænti, að hæstv. ríkisstj. verði vel við tilmælum í þessa átt og að hv. d. vilji samþ. þessa ályktun.