27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (1900)

204. mál, búfjársjúkdómar

Halldór Stefánsson:

Ég vil aðeins leyfa mér að mæla með þáltill. hv. þm. Borgf. og leggja frekari áherzlu á þá nauðsyn, sem fyrir henni er. Við höfum nokkrir þm. hugsað okkur að bera fram till. í þessa átt, en þegar við ætluðum að afhenda hana, var þessi till. þegar komin fram, og sáum við þá ekki ástæðu til að bera fram aðra till., þar sem hún var mjög um sama efni. Ég veit, að það hefir verið svo um aðra þá sauðfjárpest, sem hér er sérstaklega nefnd, þá sjúkdóma, sem talið er að stafi af ormum í sauðfé, bæði lungnasjúkdóma og meltingarsjúkdóma, að þeir hafa gengið eins og faraldur yfir sveitirnar víðsvegar á landinu, og hefir ekki orðið rönd við reist, þegar þeir hafa komið. Þessir sjúkdómar hafa spillt svo afurðunum og drepið fé, að einstakir bændur og einstakar sveitir, þar sem þessi faraldur hefir verið skæðastur, hafa fjárhagslega alls ekki rönd við því reist, og það er ein ástæðan til hins erfiða hags bænda. Ég hefi orðið þess var, að almenningi hefir þótt verða of lítil not af dýralæknum

landsins í starfi þeirra. Þetta ber ekki svo að skilja, að ég sé að bera neinar ásakanir á dýralæknana. Það er nú svo, að það næst oft ekki til dýralæknanna, sízt nægilega fljótt, þegar um einstaka sjúkdóma er að ræða; ennfremur er það, að verð einstakra gripa er ekki svo hátt, að það geti svarað kostnaði að vitja dýralæknis langar leiðir upp á von og óvon. Menn hafa tíðum óskað þess, að dýralæknarnir legðu meiri stund á að rannsaka farsóttir í búfénaði en verið hefir, enda þótt nokkuð hafi verið að því gert, og það alls ekki að árangurslausu. En það þarf betur að gera, ef duga skal.

Ég býst við, að ástæðan til þess, að dýralæknar hafa gefið sig minna að því að rannsaka sauðfjárpestir en vert hefði verið, sé m. a. sú, að þá hafi vantað nauðsynlegt starfsfé til þess að geta gefið sig við þessum rannsóknum. Og það tel ég, að sé aðalefni og aðalatriði þessarar till., að hún veiti heimild til fjárframlags í þessu skyni, sem máske hefir ekki verið áður.

Ég vil beina því til hæstv. ráðh., að þetta er hið mesta nauðsynjamál, og það má ekki horfa í það, þó að þurfi að verja nokkru fé í þessu skyni meira en verið hefir. Ég tel, að það ætti að fela dýralæknunum það, hverjum í sínu umdæmi, að vinna að því að rannsaka þessa búfjársjúkdóma, og vinna að því í samráði við ríkisstj., sem að sjálfsögðu myndi leita ráða og forsagnar forstöðumanns rannsóknarstofu háskólans um þessi efni.

Þar sem enginn ágreiningur virðist vera um þessa till., sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta lengra mál.