31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (1908)

204. mál, búfjársjúkdómar

Atvmrh (Þorsteinn Briem):

Öllum mun kunnugt, hve mikið hefir borið á sjúkdómum í sauðfé hin síðari ár, og hafa þeir reynzt hinir verstu vágestir, einkum þó þeir, sem nefndir eru í till., t. d. lungna- og garnaormaveiki og Hvanneyrarveikin svonefnda, sem mönnum er enn ókunnugt um, af hverju stafar. Það er nú mjög aðkallandi þörf á því, að þessir sjúkdómar séu rannsakaðir og ráð fundin við þeim. Nú stöndum vér og væntanlega betur að vígi til þess að framkvæma þessar og þvílíkar rannsóknir en áður, vegna heimildar þeirra í 22. gr. fjárl., sem gerir stjórninni mögulegt að útvega fullkomnara húsnæði fyrir rannsóknarstofu háskólans. Til þess að rannsaka þetta höfum vér einn hinn færasta mann í þeirri grein, prófessor Dungal, sem er forstöðumaður rannsóknarstofunnar. Og ef þessi þáltill. verður samþ., þá mun stj. einmitt fela rannsóknarstofunni á hendur þessa rannsókn í samráði og samvinnu við dýralækna landsins.

Jafnvel þótt þessi rannsókn kunni að hafa nokkurn kostnað í för með sér, sem ég hygg þó, að verði ekki mjög mikill, þá tel ég þetta mál skipta svo miklu fyrir landbúnaðinn, að ég vil mæla með því við hv. deild, að till. verði samþ.