12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég játaði að vísu, að meiri réttindi kæmu fram í formsatriðum nú heldur en skjalfest hefðu verið 1924, en ég hélt líka jafneindregið fram, að réttindin hefðu þá verið þau sömu, því að á undanförnum árum hafa menn bara lokað augunum fyrir því, að hegðun Norðmanna hefir komið í bág við það, sem leyfilegt var, t. d. hafi haft alla sína hentisemi innan landhelgi. Hv. þm. sagði, að ísl. sjómenn gerðu ákaflega mikið úr þessum tugum þúsunda tunna, sem hann hélt fram, að Norðmenn mundu flytja inn meira en áður. En þar er því til að svara, að mjög vafasamt mun það reynast, að þetta verði mikil aukning. Því að samkv. 6. gr. sést ekki betur en að yfirleitt sé þetta atriði tekið varnartökum. Jafnframt má taka til athugunar, að þótt leyft hafi verið samkv. 1924 svo mikið magn, að nam 140 þús. tunna, þá voru þau ákvæði ekki notuð til hlítar, heimildin var aðeins notuð fyrir 30 þús. tunnur, og ekki meir. Svo að auðséð er, að þótt heimildin sé færð upp í 160—170 þús. tunnur og notuð eftir sama hlutfalli, þá skiptir það sízt svo miklu máli fyrir ísl. sjómenn sem hv. 2. landsk. vill vera láta. Nú, og þótt heimildin yrði notuð til hins ýtrasta, þá stafar nú engan veginn eins mikil hætta af því og áður. T. d. get ég minnzt á gang síldarinnar. Ekki er hann til hægðarauka Norðmönnum, þeir þyrftu annað árið að veiða utan landhelgi, en hitt árið innan hennar. Ég get rifjað hér upp gömlu söguna, sem gekk um áhrif síldveiðalöggjafarinnar áður en hún var sett: Ef hún kæmist á, átti hún að gera Norðmönnum hér svo þröngt fyrir dyrum, að þeir gætu ekkert aðhafzt, en yrðu neyddir til að láta af öllum sínum glæsilegu vonum um síldveiðarnar hér við land. En sú hefir reyndin orðið, að ekki var nóg með að veiðar Norðmanna hafa vaxið stórum, heldur hafa og fjöldi annara þjóða skipa siglt í kjölfar þeirra inn í hina íslenzku síldarparadís. Er engum blöðum um það að fletta, að spádómarnir íslenzku um útrýmingu norskra síldveiða hér hafa reynzt harla haldlitlir, og reynslan hefir sýnt sig þveröfuga við þá, því að sífellt færist og hefir færzt í aukana ófögnuður þessi. Það, sem hv. þm. sagði um að síld Norðmanna væri ekki samkeppnisfær, getur hvergi staðizt, því að það hefir komið í ljós, að Norðmenn eru fljótari til að selja en síldareinkasalan. Ég vona, að hv. þm. sé ekki að drótta því að síldareinkasölunni, að síldin sé svo miklu verr verkuð hjá henni heldur en öðrum! Nei, það stafar af því, að norska síldin er fljótunnin og kemst eðlilega fyrr á markaðina í Eystrasaltslöndunum. En það, sem hér ber að gera, er að tryggja íslenzkri síld þennan nýja markað, sem ég gat um, því að vorar verkunaraðferðir eru einmitt þær, sem eru skilyrðin fyrir vörugæðum þar.