12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Baldvinsson:

Út af ummælum hv. 1. landsk. vildi ég einungis upplýsa, að í Nd. lýsti hæstv. forsrh. yfir því, að stj. myndi gera þetta að fráfararatriði. Hann sagði, að norska stj. myndi búast við, að ísl. stj. legði öll sín áhrif og stöðu sína í veð til, að koma málinu fram. Þetta var að gefnu tilefni eftir fyrirspurn frá hv. 2. þm. Reykv., og áður hafði ráðh. í viðtali við þennan sama hv. þm. sagt hið sama. — Af umr., eins og þær hafa snúizt undanfarið, hefir það komið fram, að nokkrir vilja samþ. þetta til bráðabirgða handa stj., af því að þeir eru óánægðir með að vita ekki hvernig samningarnir við Englendinga muni fara. Í dag er 12. apríl og 15. á laugardaginn. Þá má í seinasta lagi, eftir ákvæðum samningsins, samþ. hann. Ég vildi því mælast til þess við hæstv. stj., að málið yrði tekið út af dagskrá, símað til Norðmanna og reynt að fá nokkurn frest á því að ganga frá þessum samningi. Þingmenn vilja fá að vita, hvernig fer um samningana við Englendinga, og verið gæti, að þeir yrðu búnir t. d. 14. maí, en engu er spillt þótt dragist að samþ. þessa samninga þangað til. Um það er því einungis að ræða, hvort hæstv. stj. treystir sér til að útvega frest hjá Norðmönnum. Það er ekki byrjuð nein síldveiði, svo að Norðmenn mundu geta veitt okkur þennan frest; hinsvegar væri hugsanlegt, að á þeim tíma væri komin full vitneskja um, hvernig semdist við Englendinga, og mér skilst á mörgum hv. þm., að þeir mundu vilja haga atkv. sínu nokkuð öðruvísi, ef þeir vissu til fullnustu um samningana við Englendinga. Þetta er það stóra atriði í þessu máli. Mér finnst sjálfsagt í svona þýðingarmiklu máli að fá svar við þessu fyrir laugardag, og mætti því taka málið út af dagskrá og taka það svo á dagskrá aftur, ef ekki fengist frestur, sem stj. vonandi gæti útvegað. Þessu vil ég alvarlega beina til hæstv. stj.