12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Út af því, sem hv. 2. landsk. hreyfði, að fara fram á það við stj., að Norðmenn væru beðnir um frest, þangað til lokið væri ensku samningunum, þá vil ég taka það fram, að það væri sjálfsagt að taka það til athugunar, þar sem það er mín fyrsta ósk í þessu máli, sem ég tók fram áður en samningarnir komu fyrir þingið, en það er því miður ómögulegt að segja um, hvenær á vorinu eða sumrinu þessum samningum við Englendinga verður lokið, og þess vegna er ekki svo gott að fara fram á neinn ákveðinn frest við norsku stj., og ef það yrði gert, yrðum við að setja þann frest svo langan, að allar ráðstafanir viðvíkjandi síldarútveginum í sumar yrðu þá um garð gengnar. Afleiðingin af því, ef þeir veittu þennan frest, er auðsæ; hún yrði sú, að þetta sumar stæðu fríðindin þeim til handa, sem búið er að semja um og þeirra þing er búið að samþ. Þetta yrðum við að gera til þess að fá þennan frest. Niðurstaðan yrði því sú, að Norðmenn fá þau réttindi, sem þeim eru ætluð eftir samningnum, en við ekki. Eins og nú er komið um horfurnar fyrir því, hvenær ensku samningunum verði lokið, álít ég þessa leið ekki tiltækilega, heldur verði að samþ. samningana nú til bráðabirgða með það fyrir augum, að segja þeim upp með 6 mán. fyrirvara til brottfalls eftir ár, ef okkur heppnast að ná þannig samningum við Englendinga, að við teljum okkur það fært. Ég vildi gefa þessa skýringu; annars er þessi uppástunga hv. 2. landsk. í samræmi við það, sem ég hafði óskað, og skal ég fúslega játa, að mín afstaða til þessa frv. getur hæglega orðið gagnstæð að ensku samningunum loknum. Þá veit maður, hvar maður stendur og getur tekið sína afstöðu eftir því. Nú lamar óvissan að því leyti, að maður getur ekki gert upp við sig, hversu stórfenglegar ráðstafanir þurfi að gera til að losa okkur undan nauðsyninni á því að semja oftar við Norðmenn. (JBald: Er þetta svar fyrir stj.?). Nei, þetta er svar frá mér eftir mínum kunnugleika gegnum utanríkismálanefnd.