17.03.1933
Neðri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

109. mál, stimpilgjald

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Það er svipað með þetta frv. og það, sem síðast var til umr. Frv. er flutt til þess að hægt sé að koma afsals- og veðmálabókum í betra horf en nú er. — Menn hafa sérstaklega trassað að láta þinglesa eignarheimild sína, þegar þeir fá eignina að erfð, og mun það mikið kostnaðarins vegna. Nú er það svo, að þegar um venjuleg kaup og sölu er að ræða, er skylt að láta stimpla slík bréf innan tveggja mánaða; annars verður að greiða stimpilsekt. Þess vegna er næstum útilokað, að menn láti dragast að þinglýsa slíkum bréfum. Allt öðru máli gegnir, þegar eignin er fengin að erfð. Mönnum finnst hart að þurfa að greiða bæði stimpilgjald og erfðafjárgjald af fasteignum við skipti, en aðeins erfðafjárgjald af lausafé. Og óneitanlega er þetta mjög ósanngjarnt, þar sem oft kemur fyrir, að einn erfinginn fær í sinn hlut fasteignina, en hinir lausaféð. — Þó er enn verra við að eiga, þegar fasteignin fellur til eftirlifandi maka upp í búshelming hans af arfahluta. Þá er hér um tvennskonar eignayfirfærslu að ræða og augljóst, að ekki á að greiða stimpilgjald vegna þess, sem hann fær sem búshelming. En þegar eftirlifandi maka er lagt út við skipti bæði lausafé og fasteign, án aðgreiningar á því, hvað skuli teljast lagt út upp í búshelming og hvað í erfð, þá er eigi hægt að ákveða, að hve miklu leyti stimpilgjald á að greiðast. Verður slíkt jafnan, þegar svo stendur á, hreint handahóf, sem alveg er óþolandi. Réttaróvissan á þessu sviði kemur skiptaráðendum oft í hin mestu vandræði. En framhjá ákvæðum skiptalaganna verður ekki komizt, því þau eru svo skýr, að ég býst ekki við, að sýslumenn eða bæjarfógetar treysti sér til að sleppa erfðaafsölum við stimpilgjaldsgreiðslu. Ég hefi leitað mér upplýsinga um það í stjórnarráðinu, hvort hægt myndi að sleppa þessu gjaldi. Fékk ég það svar, að að óbreyttri löggjöf væri það ekki hægt. — Þannig er nú sú hliðin, sem snýr að erfingjunum. Þá er eftir hin, sem snýr að því, að hafa veðmálabækurnar í lagi. Það er nú svo, að þeir menn, er fá fasteignir að erfð, draga von úr viti að láta þinglýsa eignarheimildir sínar, og stundum kemur það fyrir, að eignin gengur að erfð mann fram af manni án þess að eignarheimild sé þinglesin. Fyrir ríkissjóð er hér um lítið tap að ræða, þótt stimpilgjald félli niður í slíkum tilfellum, sem frv. gerir ráð fyrir. Oft og tíðum verður að fá eignarheimild án þess að stimpilgjald komi til greina, og tel ég alla sanngirni mæla með því, að gjaldið sé ekki greitt við slíkar eignayfirfærslur yfirleitt. Vænti ég, að hv. dm. komist að sömu niðurstöðu, að þetta sé ósanngjarnt fyrirkomulag gagnvart erfingjum og óhagkvæmt þeim, sem færa eiga veðmálabækurnar. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til grg. frv. og legg til, að málinu verði að lokinni umr. vísað til hv. fjhn.