22.03.1933
Efri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

114. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Flm. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Á síðasta þingi var að vísu afgr. frv. um breyt. á hafnarl. fyrir Reykjavík, en það hefir þó komið í ljós, að ekki hafa verið tekin þar inn í öll nauðsynleg ákvæði. Er því hér farið fram á tvö ný ákvæði. Það fyrra fer fram á, að varafulltrúar skuli vera í hafnarstjórn. Í síðari gr. frv. eru ákvæði, sem tryggja gjaldheimtuna. Er það í rauninni ekkert annað en lögfesting á framkvæmd þeirrar venju, að skoða ógreidd hafnargjöld sem forgangsskuldir í þrotabúum og dánarbúum. Þó er þarna nýmæli, sem sé það, að tryggja hafnarsjóði lögveð í skipinu fyrir skipagjöldum, og gangi það veð í eitt ár fyrir samningsveði í skipinu. Er ekki farið fram á, að þetta sé hliðstætt sjóveði eða gangi fyrir sjóveði, heldur aðeins að það gangi fyrir samningsveði.

Eins og nú hagar til um innlend fiskiskip, þá verður oft ekki komizt hjá því að veita þeim gjaldfrest á hafnargjöldum frá vertíðarbyrjun og þangað til seint á haustin, þegar afli þeirra kemst í peninga. Hjá sjávarútveginum er svo þröngt um rekstrarfé, að draga verður allar greiðslur svo sem hægt er. Hefir hafnarsjóður heldur kosið að veita gjaldfrest en að stöðva skipin. En þá er líka nauðsynlegt að hafa einhverja tryggingu fyrir greiðslunni. Er þá ekki ósanngjarnt, að þetta hvíli sem lögveð á skipinu í eitt ár. Þetta lögveð í ekki lengri tíma ætti ekki að þurfa að gera innheimtuna slælegri en vera ber.

Hafnarsjóður vildi ekki fara fram á, að lögveðið gilti í 2 ár, eins og annars tíðkast um opinber gjöld, sem venjulega halda rétti sínum í 2 ár.

Að endingu vil ég láta þá ósk mína í ljós, að hv. d. lofi málinu að fara sína leið. Ég legg til, að því verði vísað til sjútvn.