06.04.1933
Efri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

114. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Hv. 4. landsk. hefir gert rétta grein fyrir efni þessarar brtt., og þarf ég því ekki öðru við að bæta en því, að eins og kom fram í ræðu hans, þá er um þetta atriði ágreiningur á milli bæjarstjórnar og hafnarstjórnar. Þær breyt. á hafnarlögunum, sem með þessu frv. er farið fram á, lágu fyrst fyrir hafnarstjórn og voru samþ. þar ásamt þeirri breyt., sem felst í brtt. hv. 4. landsk. En í bæjarstj. var ákveðin andstaða gegn því að kjósa í hafnarstjórnina til lengri tíma heldur en í aðrar nefndir, sem bæjarstjórnin kýs, og allar eru kosnar aðeins til eins árs í senn. Ég vil taka það fram, að í bæjarstj. var þetta atriði ekkert flokksmál. Ég held, að það hafi verið fulltrúar af öllum flokkum, sem bentu á, hvað óheppilegt það gæti verið, ef árekstur yrði milli bæjarstj. og hafnarstj. út af málefnum hafnarinnar, og sá ágreiningur yrði að standa óleystur allt að því í fjögur ár. Sjálfur var ég mjög hlutlaus í þessu máli, bæði í bæjarstj. og hafnarstj., en gat þó ekki annað en viðurkennt þessar mótbárur bæjarstj. Mér finnst, að úr því búið er að lögleiða, að samþykki beggja aðilja, bæjarstj. og hafnarstj., þurfi að koma til um fjármál hafnarinnar, þá sé ekki rétt að stofna til þess með nýju löggjafarákvæði, að ágreiningur út af slíkum málum geti ekki fengið úrlausn innan hæfilegs tíma. Og ég tel það fyrir mitt leyti hættulaust fyrir málefni hafnarinnar, þó bæjarstj. geti skipt um menn í hafnarstj. á eins árs fresti. Vil ég því heldur mæla á móti brtt. hv. 4. landsk. Ég álít, að mótbárur bæjarstj. gegn þeirri breyt. hafi við meiri rök að styðjast heldur en óskir hafnarstj. um það, að hún fái að verða meira hliðstæð bæjarstj. sjálfri, sem er kosin til fjögurra ára.