20.02.1933
Neðri deild: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

1. mál, fjárlög 1934

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hæstv. forseti! Ég legg hér með fyrir hv. þingdeild frv. til fjárlaga fyrir árið 1934. Frv. er, eins og venja er til, samið eftir fjárlögum yfirstandandi árs um gjöldin, og tekjur áætlaðar með tilliti til undanfarandi ára og gildandi tolla- og skattalöggjafar. Tekjumegin er að venju gert ráð fyrir framlengingu þeirra laga um tekjuöflun, sem falla úr gildi um næstu áramót, enda hefir stjórnin lagt fyrir þingið framlengingarfrumvörp. Það er fyrirsjáanlegt, að ríkisbúskapurinn getur ekki án þeirra verið, enda eðlilegt nú, þegar ýmsir eldri tekjustofnar bregðast stórlega.

Í frv. til fjárlaga, sem ég lagði fyrir síðasta þing, var mjög dregið úr ólögbundnum útgjöldum, og enn frekari lækkun og lagabreytingar samþ. á Alþingi samkv. tillögum fjárveitinganefnda. Þá var skorið nærri kviku að því er fjárlagaundirbúning snertir, og hefir stjórnin ekki treyst sér til að fara lengra í niðurskurði að því er fjárlagaundirbúning snertir. Þó hafa ýmsar fjárveitingar verið lækkaðar og sumar niður felldar. En þar með er ekki sagt, að ekki geti orðið um aukinn sparnað að ræða í framkvæmdinni. Um margar áætlunarfjárhæðir er svo lágt áætlað sem frekast er unnt, og er mest undir því komið — eins og nú er komið um sparnað í undirbúningi fjárlaganna —, að í framkvæmd þeirra sé beitt allri þeirri sparnaðarviðleitni, sem er án vansæmdar. Umframgreiðslur hafa allt frá því á ófriðarárunum verið miklar, og sum árin gífurlegar, og þarf enn að færa niður fjölmarga útgjaldaliði svo að nái áætlunum fjárlaganna. Stjórnin hefir í því efni sýnt öfluga viðleitni á síðasta ári, og mun halda áfram á sömu braut. Á rekstraryfirliti fjárl.frv. fyrir 1934 er tekjuafgangur rúml. 900 þús. kr. og á sjóðsyfirliti innborganir rúmum 350 þús. kr. hærri en útborganir. Má vel við una, ef sú verður raunin á. Tekjurnar eru varlega áætlaðar, og þó gert ráð fyrir, að tímarnir fari batnandi. Í sumum greinum hefði tekjuáætlunin verið höfð hærri, ef vitað hefði verið um útkomu síðastl. árs, þegar frv. var samið.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til hv. fjvn., þegar þessari umr. verður frestað.

Jafnframt því, að ég legg fjárlagafrv. fyrir hv. deild, er mér skylt að gefa skýrslu um hag ríkisins á síðastl. ári. Það er alþjóð kunnugt, að síðastl. ár var hið mesta kreppuár, verðhrun á landbúnaðarafurðum og atvinnuskortur í kaupstöðum og við sjóinn. Kaupgeta landsmanna var með allra knappasta móti og ríkissjóðstekjur því fallandi af sjálfu sér, en gjöldin fara ekki niður fyrirhafnarlaust, og vona ég, að hv. þingheimi finnist, af því sem á eftir fer, ekki verr hafa rætzt úr en við mátti búast. Tálvonir um afkomu ríkisins hefir sannarlega ekki verið ástæða til að gera sér í slíku árferði. Ég vænti og, þegar fullgerður verður landsreikningurinn fyrir 1932, að litlu skeiki frá því bráðabirgðayfirliti, er ég gef nú og svo hljóðar:

Tekjur (í þús. króna).

2. gr. Skattar og tollar.

Áætlun:

Tekjur:

1. Fasteignaskattur ......

330

371

2. Tekju- og eignarskattur

950

1.350

3. Lestagjald

40

52

4. Aukatekjur

570

572

5. Erfðafjárskattur

35

76

6.Vitagjald

425

483

7. Leyfisbréfagjöld

10

16

8. Stimpilgjald

360

411

9. Skólagjöld

15

15

10. Bifreiðaskattur

100

232

11. Útflutningsgjald

950

911

12. Áfengistollur

500

457

13. Tóbakstollur

1.050

1.046

14. Kaffi- og sykurtollur

950

951

15. Annað aðflutningsgjald

200

91

16. Vörutollur

1.550

1.216

17. Verðtollur

1.650

758

18. Gjald af innlendum

100

128

tollvörum

Samtals 9.136

Skattar og tolltekjur námu 1931 samtals 10738 þús. kr., og eru því 1602 þús. kr. lægri á síðasta ári. Er lækkunin aðallega fólgin í fjórum liðum:

1. Tóbakstollurinn hefir lækkað úr rúml. 1500 þús. kr. í rúml. 1 millj. kr. Stafar það mest af því, að lögin um tóbakseinkasölu gengu í gildi um áramótin 1931—32, og mun þá hafa átt sér stað allmikill óeðlilegur innflutningur á tóbaki fyrir áramótin. Það má gera ráð fyrir, að sá innflutningur hafi hækkað tóbakstollinn á árinu 1931 um 200 þús. kr., og hefir því tóbakstollur síðasta árs lækkað að sama skapi.

2. Annað aðflutningsgjald, er svo nefnist og er aðallega tollar af súkkulaði, kakaó, konfekti, brjóstsykri og tei, hefir lækkað úr kr. 223 þús. árið 1931 í kr. 91 þús. árið 1932. Sú lækkun er auðskilin og stafar mest frá ströngum innflutningshöftum, sem beitt hefir verið á síðasta ári.

3. Vörutollurinn hefir lækkað um rúmar 200 þús. kr. á síðasta ári, enda hefir miklum mun minna flutzt inn af byggingarvörum og annari þungavöru en áður.

4. Stórfelldust er lækkunin á verðtollinum. Hann var árið 1930 um 2300 þús. kr., 1931 lækkaði hann ofan í 1400 þús. kr., en er nú kominn niður í rúm 750 þús. kr. Ástæðurnar eru minnkandi kaupgeta almennings vegna kreppunnar og þau gjaldeyris- og innflutningshöft, sem ekki varð hjá komizt að beita á síðasta ári, til þess að komast hjá skuldasöfnun erlendis. Það eru þungar búsifjar fyrir ríkið, þegar tollar lækka svo ár frá ári, en hitt verður vitanlega að ganga fyrir, að koma á greiðslujöfnuði við útlönd í slíku árferði, sem nú er, þegar hvorki er æskilegt né mögulegt, að skuldir haldi áfram að hlaðast upp erlendis.

Tveir skattar hafa gefið hærri tekjur nú en árið áður, fasteignaskatturinn, sem var innheimtur eftir nýja matinu, hann hækkaði sem sé um 80 þús. krónur, og bifreiðaskatturinn, sem hækkaði um tæplega 100 þúsund krónur vegna hinna nýju laga um bifreiða- og benzínskatt, sem gengu í gildi um mitt síðastliðið ár.

Ég vil loks nefna tekju- og eignarskattinn, sem hefir farið fram úr áætlun, mest vegna þess, að beitt var heimild síðasta þings um 25% hækkun á honum, og varð hann þó einum 60 þús. kr. lægri en árið áður. Og útflutningsgjaldið, sem að vísu náði ekki áætlun, en reyndist þó einum 230 þús. kr. hærra en árið áður, og nemur það hér um bil þeim síldartolli, sem ekki innheimtist hjá Síldareinkasölunni 1931.

Þá tel ég næst 3. gr. A., tekjur af rekstri ríkisstofnana:

Í þús. kr.

Áætlun:

Tekjur:

1. Póstsjóður

59

000

2. Landssíminn

358

190

3. Víneinkasala

700

700

4. Ríkisprentsmiðja

40

55

5. Ríkisvélsmiðja

30

25

6. Tóbakseinkasala

300

7. Viðtækjaverzlun

50

1320

8. ÷ rekstrarhalli útvarpsins

150

1170

Í þús. kr.

Áætlun:

Tekjur:

3. gr. B. Tekjur af fasteignum

36

30

4. gr. Vaxtatekjur

268

400

5. gr. Óvissar tekjur

50

25

Skemmtanaskattur og skiptimynt

39

+ skattar og tolltekjur

(áður talið)

9136

Tekjurnar eru þá alls

10800

Þess skal getið, að póstsjóður gaf 1931 80 þús. kr. í tekjuafgang og landssíminn 100 þús. kr. og víneinkasalan 150 þús. kr. meira í tekjuafgang en 1932.

Einnig ber að athuga, að 50 þús. kr. rekstrarhagnað viðtækjaverzlunarinnar ber að draga frá rekstrarhalla útvarpsins.

Ég vík að gjöldunum, en þau eru þessi:

Í þús. kr.

Áætlun:

Greitt:

7. gr. Vextir

1118

1436

8. — Konungsmata

73

72

9. — Alþingi

233

244

10.— Ráðuneytið

242

290

— — Hagstofan

58

57

— — Utanríkismál

95

96

11.—Dómgæzla og lögreglustjórn

955

1056

— — Embættisrekstur

194

280

12.— Læknaskipun

700

674

13. - Vegamál

994

742

— — Samgöngur á sjó

451

557

— — Vitamál

467

416

14.—Kirkjumál

280

340

— — Kennslumál

1339

1460

15.—Vísindi, bókm.,listir.

207

200

16. — Verkl. fyrirtæki

1811

1781

17. - Styrktarstarfsemi

843

1000

18.— Eftirlaun

252

237

19. —Óviss gjöld

150

213

22. —Heimildir

505

24. — Lög og fjáraukalög

400

Gjöldin alls

12056

Tekjuhalli ársins er því kr. 12056 þús. (gjöld) ÷10800 þús. kr. (tekjur) — kr. 1256 þús.

Skylt er þó að taka fram, að í gjöldum eru hér taldar fyrningar. Nema þær samtals 383 þús. kr. Þar er ekki um að ræða raunveruleg útgjöld á árinu, heldur lækkun á bókfærðum eignum. Um það hefir verið nokkur ágreiningur, hvort fyrningar skyldu taldar til gjalda, eða hvaða eignir skyldu fyrndar, og er tekjuhallinn því að áliti þeirra, sem sleppa vilja fyrningunum, undir 1 millj. króna.

En til að fá greiðsluhallann, verður að taka með eignahreyfingarnar, en þær eru gjaldamegin:

Í þús. kr.

20. gr. Afborgun lána ............ 890

Eignaaukning (ríkisstofnana) ........... 585

Fyrirframgreiðslur ........ 13

Afborganir lausaskulda .... 188

1676

og tekjumegin:

20. gr. Fyrningar ................ 383

Útdregin bankavaxtabréf ... 34

Endurgr. lán og fyrirfram

greiðslur ................. 266

683

Munurinn á gjöldum og tekjum á eignahreyfingum er því 994 þús. kr., sem verða að leggjast við tekjuhallann til að fá greiðsluhalla ársins, en hann verður þá:

Í þús. kr.

Tekjuhallinn .................... 1256

+ 993

Samtals 2249

Munurinn á innborgunum og útborgunum ársins er því kr. 2249000 — eða 21/4 milljón, sem er um 750 þús. kr. minna en á síðasta ári.

Þessi er þá útkoma ársins eftir hinu nýja reikningslagi, en til að fá samanburð milli ára hefi ég látið gera tekjur og gjöld ársins 1932 upp eftir hinu gamla reikningslagi. Samkvæmt því voru:

Í þús. kr.

gjöld ársins 1931 ........ kr. 17877000

en ársins 1932 .......... — 15716000

Útgjöld ríkisins hafa því

lækkað á árinu 1932 um kr. 2161000

Tekjur voru 1931 ........ — 15067000

en 1932 ................ — 13466000

Tekjurnar hafa því verið kr. 1601000 lægri á síðasta ári en þær voru árið áður.

Umframgreiðslur námu 1931 um 5 millj. króna, en 1932 2200 þús. kr., en af því er tæp 1 millj. kr. greidd samkv. heimildargrein fjárlaganna og sérstökum lögum. Skal ég þar nefna rúml. 300 þús. kr. til atvinnubóta, kr. 150 þús. til Eimskipafélags Íslands og kr. 110 þús. til brúargerðar á Þverá. Það er því líklegt, að fjáraukalög fyrir 1932 verði fyrir innan 1 millj. kr., og er það óvenjulega lágt, miðað við það, sem oft hefir verið, einkum á krepputímum.

Það verður ekki sagt, að niðurstaða fjárhagsársins 1932 sé neitt fagnaðarefni. Það eru ekki mörg fagnaðarefni nú á tímum. En þó örðugir tímar séu, þá hefir þó miðað í áttina til jafnvægis milli tekna og gjalda, þrátt fyrir mikla tekjurýrnun. 2 millj. kr. niðurfærsla á gjöldum á einu ári er sízt minni sparnaður en við mátti búast, og má halda lengra í sparnaðaráttina með stjórnarráðstöfunum. Það verður ekki allt gert í einu.

Útlitið fyrir yfirstandandi ár er ekki sem verst. Fjárlög þessa árs eru meir en 1 millj. kr. hagstæðari að því er útgjöld snertir en fjárlög síðasta árs, og hrekkur það væntanlega til að jafna tekjuhallann. En greiðsluhallann allan þarf að jafna, ef vel á að vera, og vænti ég, að sumir tekjustofnar, svo sem tóbakstollur og verðtollur, muni rétta sig nokkuð á árinu. Með auknum sparnaði og nokkrum nýjum álögum ætti að mega komast langt í að rétta við greiðsluhalla fjárlaganna þegar á þessu ári. Er það sízt lakara útlit en við mátti búast. Það miðar greinilega í áttina og nálgast aftur jafnvægi í ríkisbúskapnum, ef frekar fer batnandi í ári, sem ég geri ráð fyrir, þó hægt muni batinn koma.

Breytingar á skuldum ríkissjóðs á árinu 1932 hafa verið þessar:

Í þús. kr .

Tekin ný bráðabirgðalán innan-

lands ......................... 1600

Lán til Þverárbrúar og Affalla . .. . 110

Skuld á hlaupareikningi í Lands-

bankanum ..................... 830

Skuld við Handelsbankann ...... 60

2600

í þús. kr.

Þar frá má draga:

Afborganir af föstum lánum . .. .. 890

og afborganir á lausaskuldum .... 188

1078

og eru þá eftir .................. 1522

en við bætast ............... 217

vegna lóða- og húsakaupa í Reykjavík, en þar kemur eignaaukning

á móti.

Aukning á hinum eiginlegu ríkisskuldum er því samtals ........ 1739

Afborganir á skuldum, sem stofnanir annast sjálfar afborgun af,

hafa á árinu numið . .... .. .. ... 205

og mega þær dragast frá 1534

Aukning á öllum skuldum ríkisins, en þær námu 31. des 1931 . . 39393

er því ........................ 1534

og nema þá allar ríkisskuldir í

árslok 1932 .................. 40927

Hér er þó ekki tekið tillit til gengislækkunar á dönskum lánum á árinu, — og ég hirði ekki að breyta, þessari heildarskuld í gullkrónur til samanburðar við fyrri ár, því sá samanburður hefir litla þýðingu, þar sem gullverð alls varnings, sem undir skuldabyrðinni stendur, hefir fallið stórlega, og þá gert skuldabyrðina miklum mun þyngri en hún áður var. Er það eitt mesta áhyggjuefnið í sambandi við afkomu ríkisins og efnahag — en öllum innlendum mönnum ósjálfrátt, og verður ekki um sakazt.

Gagnvart útlöndum hefir hagur þjóðarinnar að öðru leyti batnað að mun á árinu. Í árslok 1931 voru lausaskuldir bankanna gagnvart útlöndum £ 398 þús., en í árslok 1932 £ 345 þús. Lausaskuldir bankanna hafa því samtals minnkað um tæpar 1200 þús. kr. á árinu, og er það vitanlega að þakka gjaldeyrisskömmtun og innflutningshöftum.

Verzlunarjöfnuðurinn hefir farið stórum batnandi. Árið 1930 nam innflutningur um 12 millj. kr. meiru en útflutningur. 1931 var verzlunarhallinn um 3,5 millj., en 1932 hefir innflutningur, skv. bráðabirgðauppgerð, numið 34 millj. og útflutningur 44 millj. Verzlunarjöfnuður við útlönd er því nú orðinn hagstæður, og nemur afgangurinn af útflutningi um 10 millj. kr. En þess er að gæta, að ósýnilegar greiðslur eru mestallar til útlanda og hverfandi litlar hingað til lands. En þó má öruggt fullyrða, að greiðslujöfnuðurinn við útlönd hefir verið hagstæður á árinu og nokkuð afborgazt af almennum verzlunarskuldum erlendis. Er því sama að segja um þjóðarbúskapinn gagnvart öðrum löndum og um ríkisbúskapinn, að allt stefnir í rétta átt. En eftirtektarvert er það, að því erfiðari sem hagur manna hefir orðið innanlands, því betri hefir greiðslujöfnuðurinn við útlönd orðið. Er það sannarlega til athugunar, að láta ekki góðærin bera sig oflangt, svo eftirköstin verði minni. Eftirköstin hafa nú orðið þungbær, því það er minnkandi kaupgeta almennings, og harðhent, en óhjákvæmileg gjaldeyris- og innflutningshöft, sem hafa kippt greiðslujöfnuðinum við útlönd í lag. Það er ekki fyrirsjáanlegt, að hægt sé að lina á tökunum á þessu ári. Erlendum gjaldeyri er þegar ráðstafað að miklu leyti fram á mitt ár. En því verður gjaldeyrisverzlunin sjálf að ráða, hvaða stefnu er fylgt í þessum efnum. Það hefnir sín grimmilega, ef ekki er tekið fullt tillit til gjaldeyrisskortsins.

Það sést því á þessu yfirliti, að síðasta ár hefir verið bæði gott og illt. Illt um það, að atvinnuleysi og verðfall á landbúnaðarafurðum hefir veitt almenningi þungar búsifjar, en gott um það, að verðfesting og jafnvel nokkur verðhækkun hefir orðið á sjávarafurðum vegna aukinna sölusamtaka, útgjöld ríkisins eru minnkandi og stórum batnandi verzlunarjöfnuður er allgóður undirbúningur undir yfirstandandi ár og gefur vonir um batnandi hag og nálægt jafnvægi í þjóðar- og ríkisbúskap.

Það eru að vísu mörg verkefni og stór framundan og tvísýnt um úrslit sumra stærstu málanna. Það hefir orðið mikil breyting á viðskiptum þjóðanna, sem heimta nýjar aðferðir og nýja samninga við viðskiptaþjóðir sínar. Um það efni skal ekki rætt til neinnar hlítar að þessu sinni. Það verða höfuðviðfangsefni þingsins að gera ráðstafanir um verzlunina út á við, aukna notkun innanlands á afurðum landsins og milda áhrif kreppunnar á skuldabyrði og atvinnuskorti hinna vinnandi stétta í landinu.

Fyrir þingið verður síðar lagður samningur um verzlunarskipti milli Íslands og Noregs. Og samningar hafa staðið við Englendinga, en vafasamt, hvort þeim verður lokið, eða hvort vér sjáum til fulls, hverju vér munum eiga að mæta um útflutning á landbúnaðarafurðum til Englands áður en þingi lýkur. Það er ekki ósennilegt, að vænlegra verði að þessu sinni að fresta þingi til haustsins fremur en slíta því með vorinu, vegna þess hve örlagaríkt það er fyrir landbúnaðinn, hvaða kjörum hann á að sæta á brezkum markaði. Skuldamál landbúnaðarins má nú taka föstum tökum, en afkoma þessa árs er ekki fyrirsjáanleg fyrr en e. t. v. með haustinu. — Í Þýzkalandi hafa þegar verið hækkaðir tollar á síld, og útlit fyrir, að bráðlega verði hækkaðir stórlega tollar á innfluttum fiski og síldarafurðum. Er það eitt af því, sem gerir útlitið ískyggilegt, því hinn þýzki markaður hefir verið til mikillar hjálpar á síðasta ári. Á Norðurlöndum höfum við aftur á móti væntanlega ekkert að óttast á þessu ári, — og Suðurlandamarkaðurinn er með líkum hætti og undanfarið og ekki stórar blikur á lofti.

Það bendir allt til, að viðskiptalíf ársins og nokkuð fram í tímann verði með þeim hætti, að knýjandi nauðsyn verði til að búa meir að sínu en áður og hafa sterkari tök á að stjórna innflutningnum, einkum um það, hvaðan að er keypt, en þekkzt hefir um langt skeið.

Allflestar ráðstafanir til að bæta kjör bænda og verkamanna kosta aukin útgjöld, og verður Alþingi að sjálfsögðu að sjá fyrir auknum tekjum til að standa undir auknum byrðum. Um það verða átök í þinginu. En ég hygg, að öllum muni svo ljós vandræðin, að menn sætti sig nú betur en áður við að gripa til óvenjulegra ráðstafana.

Í stjórnmálaviðureigninni eru tveir þættir, sem mest gætir. Annar er viðfangsefnin sjálf og lausn þeirra, en hinn er bardagatilhneiging mannanna sjálfra. Það ástand, sem nú ríkir, verður til að styrkja annanhvorn þáttinn, en aldrei hefir nauðsynin verið meiri en nú á því, að sá þátturinn styrkist, sem spunninn er úr viðfangsefnunum sjálfum og viðleitninni á að leysa þau með heill alþjóðar fyrir augum. Mín ósk er sú, að það verði hinn vígði þáttur í störfum þessa nýbyrjaða þings.