10.04.1933
Neðri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

101. mál, hafnargerð á Húsavík

Sveinn Ólafsson:

Ég hefi ritað undir nál. á þskj. 352 með fyrirvara. Þetta má ekki skilja svo, að ég álíti, að Húsavík eigi ekki jafnríkan rétt til stuðnings um hafnarbætur sem aðrir hafnarstaðir, heldur vil ég enn sem fyrr minna á þá hættulegu braut, sem þingið hefir lagt inn á, er það breytti eldri ákvæðunum um framlag ríkissjóðs til hafnarbygginga 1929 úr ¼—1/3 í 2/5 byggingarkostnaðar. Þessi óheillabreyting byrjaði þá með lögum um hafnargerð á Skagaströnd, en síðan hafa 4 vafasamir hafnarstaðir fengið fyrirheit þingsins um 2/5 kostnaðar af hafnargerð og ábyrgð á láni að 3/5. Eðlilega krefjast Húsvíkingar nú sömu vilkjara. Ég vildi ekki kljúfa n. út af þessu, en fyrirvarinn er til kominn vegna þess, að ég hefi um nokkur ár reynt að fá þessum ákvæðum breytt til hins fyrra forms við meðferð hafnarmála, en allt hefir komið fyrir ekki. Upphæðir þær, sem nú eru fyrirheitnar höfnum á Eyrarbakka, Akranesi, Sauðárkróki, Dalvík, Hafnarfirði og Ólafsvík, nema nærri 2 millj. kr., beint framlag úr ríkissjóði, og 3 millj. króna í ríkisábyrgð, — eða alls sem næst 5 millj. kr. Er þar Hafnarfirði ætlaður kostnaður úr ríkissjóði, Ólafsvík ¼, en hinum öllum 2/5. Hefir ennþá mjög lítið af þessum hafnabótum komið til framkvæmda, en skuldbindingar ríkissjóðs vaxið árlega. Ég býst nú við, að þetta frv. verði samþ., enda þótt ég ætli að sitja hjá við atkvgr. Ég hefi á undanförnum þingum árangurslaust reynt að takmarka þessar skuldbindingar ríkissjóðs við hóflegar upphæðir, eða 1/3 af framlaginu. Ef frv. þetta verður samþ., bætist enn við, 1000000 kr., og nema þá þessi framlög, sem á ríkissjóði hvíla um bein framlög og ábyrgðir vegna nefndra hafna, nær 6 millj. kr. Auk þess liggur nú fyrir frv. til 1. um þá breyt. á hafnarlögum Ísafjarðar frá 1922, að hlutfallið ¼ úr ríkissjóði breytist í 2/5. Og það má ganga að því vísu, að aðrar hafnir hér á landi, sem fengið hafa áður fyrirheit um opinberan styrk til framkvæmda í þessu efni, miðaðan við ¼ eða 1/3, fari einnig fram á það, að þeim verði bætt það upp af ríkissjóði, að þær hafa lagt fram ýmist 2/3 eða 3/4 hluta kostnaðar. Við þessu má búast t. d. í Vestmannaeyjum. (PO: Hvað er mikið búið að leggja fram af því opinbera til hafnargerðar í Vestmannaeyjum?). Það var ákveðið ¼ kostnaðar á sínum tíma. En auk þess gæti Rvík krafizt líkrar ívilnunar um sína höfn.

Eina leiðin út úr þessum vanda virðist mér að ákveða í almennum hafnarlögum eitthvert hámarksframlag úr ríkissjóði í þessu efni, og hygg ég, að rétt og sanngjarnt væri að hafa það hið sama og var til 1929, eða ¼—1/3 eftir aðstöðumun.

Það er ekki sýnilegt annað en að á næstu árum muni verða mikið kapphlaup um að fá viðurkenningu þingsins fyrir þessum ábyrgðum og framlögum. Og þá er spurningin: Hverjir eiga að ganga fyrir? — Það er ljóst, að þegar ríkissjóður er búinn að binda sér 6—8 millj. kr. bagga með þessum framlagaloforðum, þá verður ekki öllu sinnt í einu, nema þá að mjög litlu leyti. Ég get hugsað mér, að meiri háttar ágreiningur geti orðið um það, hvar eigi að byrja á framkvæmdum, þegar svo er komið.

Með þessu, sem ég hefi sagt, er þá gerð grein fyrir fyrirvara mínum við nál. En ég tek það aftur fram, að ég álít Húsavík eiga jafnan rétt og hinar hafnirnar til ríkissjóðsframlags að 2/5. Hinsvegar álít ég, að þeim hafi öllum verið ívilnað of mikið með fyrirheitinu um 2/5 framlags af ríkisfé, og sumum alveg að óþörfu.