14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

98. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Á þessum erfiðu tímum, sem yfir standa, hefir það komið fram, og ekki sízt í Vestmannaeyjum, að það er ógaman að byggja tekjuöflun bæjarsjóða einungis á útsvörum. Því hagar nú svo til hjá okkur, að bærinn á ekki neitt land og hefir því ekki tekjur af lóðum, eins og sum bæjarfélög. Það hefir verið farið fram á við þingið, að bærinn fengi keyptar Eyjarnar, en það fékkst nú ekki.

En þótt tekjuöflunin gangi erfiðlega, þá eru kröfurnar til bæjarfélagsins sívaxandi, en minnka hvergi á slíkum krepputímum. Sérstaklega get ég minnst á t. d. útgjöld til skóla, sem eru orðin milli 50 og 60 þús. kr. á ári. Og fátækraframfærið hefir aukizt að miklum mun vegna kreppunnar. En til atvinnubótavinnu varði bærinn síðastl. ár nær 40 þús. kr., þ. e. a. s. kr. 38262,91, þar með talið framlag til ræktunarvegar. Þetta er miklu meiri fjárhæð en gert var ráð fyrir á fjárhagsáætlun bæjarins. Við höfum nú reynt að halda útsvörunum svo í hófi sem unnt hefir verið. En þrátt fyrir það innheimtast þau hvergi nærri öll. Það var þess vegna tekið til athugunar hjá bæjarstjórn, þegar síðasta fjárhagsáætlun var samin, hvaða leiðir væru færar til að afla nokkurra tekna til viðbótar fyrir bæjarsjóð. Niðurstaðan varð sú hjá meiri hl. bæjarstj., að fara fram á við hið háa Alþingi að fá heimild til að leggja nokkurt vörugjald, sem rynni í bæjarsjóð, á þær vörur, sem fara um höfnina. Nú kannast ég við, að það vörugjald, sem þegar er greitt í Vestmannaeyjum, er hærra en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu, enda eru hafnarmannvirki þar ákaflega dýr.

Vörugjaldið hefir nú þann kost, að það er h. u. b. tryggur tekjustofn, því að afhending fer ekki fram fyrr en bæjarsjóður hefir fengið sitt gjald. Er því þessi tekjustofn hinn líklegasti til að koma að gagni.

Það hafa nú ýmsar fleiri uppástungur komið fram um tekjuöflun, t. d. um það, að bærinn fengi heimild þingsins til einkasölu á vissum vörutegundum. En slíka till. flutti hv. þm. Ak. fyrir skömmu og fékk þungar undirtektir. Og mannaskipti hafa ekki orðið síðan, svo að von sé til betri undirtekta nú.

Það er úr vöndu að ráða fyrir bæjarfélag, sem hefir fyrir stórum hóp atvinnuleysingja að sjá, og ennþá stærri hóp þurfalinga, en fær svo ekki nema um 2/3 af þeim útsvörum, sem lögð hafa verið á. Það er eiginlega neyðarúrræði að þurfa að fara fram á þessa heimild. En bæjarstj. hefir ekki séð sér annað fært, þar eð hún vill í lengstu lög reyna að standa við skuldbindingar bæjarfélagsins og í lengstu lög reyna að hjálpa þeim, sem þurfa að leita á náðir bæjarfélagsins, og hinum, sem ganga atvinnulausir langa kafla ársins. Því miður er ekki hægt að búast við, að þessum byrðum taki að létta af bráðlega, og þess vegna er alveg nauðsynlegt að fá nokkra tekjuöflun til viðbótar.

Ég vildi svo mælast til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn.