31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

138. mál, meðalalýsi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og sjá má á þskj. 271, er frv. þetta flutt af sjútvn. En grg. þess ber með sér ástæðurnar fyrir því, að n. tók að sér flutning frv. nú. Það eru að vísu til nokkuð gömul 1. um lýsismat, en þau eru mjög ófullkomin. Þar er aðeins heimilað, að lýsisútflytjendum sé gefinn kostur á að fá meðalalýsi flokkað og metið, ef þeir óska eftir því. Hinsvegar getur hver og einn sent út lýsi og selt án þess að það hafi verið metið.

Í frv. er ætlazt til, að mat og vinnsla meðalalýsis fari fram á líkan hátt hér og hjá þeim þjóðum öðrum, sem hafa fullkomnasta vinnslu og verkun meðalalýsis. Ætlast frv. til, að því verði náð á þann hátt, að vinnsla og verkun meðalalýsis fari aðeins fram á vinnslustöðvum og verkunarstöðvum, sem atvmrn. löggildir, samkv. reglugerð, er um þetta verður sett, ef frv. verður gert að 1.

Þá er og gert ráð fyrir því í frv., að skipaður verði einn yfirlýsismatsmaður, er umsjón hafi með öllu lýsismati á landinu, og einnig með þeim lýsismatsmönnum öðrum, er undir hann eru settir. Þetta er svipað og á sér stað nú um annað opinbert mat, t. d. á fiski, sem reynsla er nú fengin um, að stórum hefir bætt söluna á saltfiski. Hins sama má vænta af l., er skuldbinda alla til að hlíta settum reglum í meðferð og verkun á lýsi til sölu út úr landinu.

Norska meðalalýsið er nú viðurkennt um allan heim. Íslenzkt lýsi hefir á síðari árum mestmegnis verið flutt til Noregs og þaðan hefir lýsið svo aftur verið flutt út, og þá sem norskt lýsi, eða kallað svo. Bæði í Noregi og Nýfundnalandi hafa verið gerðar víðtækar ráðstafanir um vöndun á framleiðslu þessa lýsis, til þess að tryggja sér að standast samkeppnina um heimsmarkaðinn. Með þessu frv. er spor stigið í þá átt, að íslenzkt meðalalýsi geti unnið sér álit sem íslenzkt meðalalýsi á heimsmarkaðinum. Er þetta því næsta þýðingarmikið spor, því hin mesta nauðsyn er að koma þessari framleiðslu okkar í það horf, að hún vinni sér álit á heimsmarkaðinum sem góð og vönduð vara. Eins og vitanlegt er, þá höfum við Íslendingar lært að búa til meðalalýsi af Norðmönnum þeim, er settu upp sínar bræðslustöðvar hér á landi fyrir nokkrum áratugum. Íslendingar bræða nú allt sitt lýsi, en bræðslustöðvum þeirra, einkum í smærri verstöðvum, er enn í ýmsu ábótavant, einkum hvað mat snertir. Mest framför á þessu sviði hefir orðið fyrir samstarf það, er íslenzkir botnvörpuskipaeigendur hófu um verkun og sölu lýsis. Síðan þetta hófst, sem. var 1921, hefir þessi framleiðsla tekið miklum umbótum undir stjórn lýsissamlagsins, einkum þó hér í Rvík. Lýsissamlagið hefir komið á gæðajöfnun á þessari vöru. En það, sem hefir bakað íslenzkri lýsisframleiðslu mest tjón, er það, að varan hefir ekki verið „standardiseruð“. Allt lýsi frá keppinautum okkar sætir þessari meðferð, er gæðajafnað. Nú er farið fram á, að þetta verði gert hér, og ætti að því að vera mikil framför. — Í Vestmannaeyjum er nú verið að koma lýsisframleiðslunni í betra horf. Sama er að segja um Keflavík, Sandgerði og ég hygg einnig Akranes. Mikið er nú lagt á sig á þessum stöðum til þess að gera þessa vöru betri og markaðshæfari. Þær tilraunir, sem Íslendingar hafa gert í þessa átt, hafa þegar borið árangur og eru líklegar til að bera enn meiri árangur. Við verðum þess fljótt varir, að útlendir kaupendur hafa vel opin augu fyrir því og fylgjast vel með því, sem við Íslendingar gerum til að bæta okkar lýsisframleiðslu. Og nú er svo langt komið umbótum, fyrir samstarf botnvörpuskipaeigenda, að tækilegt þykir að stíga síðasta sporið til að gera íslenzkt meðalalýsi algerlega hæfilegt til sölu á heimsmarkaðinum sem fyrsta flokks vöru hvað hreinsun, meðferð og allan tilbúning snertir. Sem sagt, félagið er að koma sér upp kaldhreinsunarstöð fyrir lýsi, og er lýsisvinnslan þá komin á það fullkomnasta stig, sem þekkist. Ég skal geta þess, að um leið og þetta er gert, sem er mest fyrir forgöngu Reykvíkinga, þá opnast sá markaður í Bandaríkjunum, sem áður var lokaður, en sá markaður er líklegur til að hafa mikla þýðingu fyrir okkar meðalalýsi. Bæði í Bandaríkjunum og öðrum löndum eru strangar kröfur gerðar í lyfjabúðunum til meðalalýsis, bæði hvað lit, bragð og efnasamsetningu snertir. Íslendingar hafa nú verið að keppa að því að gera meðalalýsið svo úr garði, að við verðum á engan hátt eftirbátar annara þjóða um að það mundi takast. Það má telja víst, að eins verði með meðalalýsið íslenzka og er um ísl. saltfisk, og að ekki verði langt þar til íslenzkt meðalalýsi er selt í lyfjabúðum víðsvegar um heim við hliðina á norsku og nýfundnalenzku meðalslýsi.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að forstöðumaður efnarannsóknarstofunnar í Rvík hafi yfirumsjón með framleiðslu meðalalýsis, gegn 1500 kr. árslaunum og ferðakostnað og fæðispeninga að auki, þegar hann dvelur utan síns heimilis. Að vísu verða margir fleiri lýsismatsmenn víðsvegar um land í verstöðvunum, sem reynast vitaskuld misjafnlega hæfir. Það þarf vitanlega mikla æfingu í því að verða góður lýsismatsmaður — að bragðreyna lýsið, en svo er matið kallað. En með fullkomnari verkun, sérstaklega kaldverkun lýsis, er ekki nóg að bragðreyna það. Þá þarf líka fram að fara nákvæm efnafræðileg rannsókn á því. Eins og nú horfir virðist því heppileg ráðstöfun að fela forstöðumanni efnarannsóknarstofunnar yfirumsjónarstarfið, því þar eru efnarannsóknirnar á íslenzka lýsinu gerðar. Ég vona, að hv. deild verði samþykk sjútvn. um það, að ekki megi lengur úr hömlu dragast að koma þessu máli í rétt horf.

Þar sem málið er flutt af sjútvn., þá vænti ég þess, að það þurfi ekki að sæta þeirri töf að vera vísað til n. Vona ég, að því verði vísað til 2. umr. n.laust, að þessari umr. lokinni.