28.04.1933
Efri deild: 58. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

138. mál, meðalalýsi

Jón Baldvinsson:

Það er eflaust mikil þörf á að hafa eftirlit með framleiðslu og útflutningi þeirrar vöru, sem hér er um að ræða, eins og annara vörutegunda, og sjá um, að hún sé fyllilega markaðshæf. Það er vitanlega Íslendingum mjög gagnlegt, að vörur þeirra séu vel vandaðar; hækka þær við það í verði.

En ég vildi beina því til hv. n., að mér finnst dálítið klúðurslegt orðalagið í 1. gr. frv., þar sem talað er um merkingu orða í frv. Í síðustu málsgr. stendur „Lýsismatsmaður hvern þann undirlýsismatsmann, sem lýtur yfirlýsismatsmanni“. Mér finnst þetta hálfgert klúður og vil biðja hv. n. að athuga, hvort ekki má orða þetta á skemmtilegri hátt.

Ef til vill er orðalag frv. víðar dálítið óviðfelldið, og mætti breyta því þannig, að betur færi í munni.

Þá er efnishlið frv. Í 5. gr. er gert ráð fyrir, að yfirlýsismatsmaðurinn sé skipaður samkv. till. lýsissamlags íslenzkra botnvörpunga. Það má vera, að það sé stærsta lýsissamlagið hér. En það eru einnig lýsissamlög úti um allt land, og í stórum verstöðvum eru þau allumfangsmikil. Það má því segja, að það sé að taka eitt samlag út úr að láta lýsissamlag ísl. botnvörpunga hafa rétt til að benda á mann til að gegna yfirlýsismatsstarfinu. Á hinn bóginn virðist dálítið óviðkunnanlegt, þar sem lýsissamlögin hljóta að eiga talsvert saman við yfirlýsismatsmanninn að sælda, að þau geti ráðið, hvaða maður er skipaður í þá stöðu. Það er eins og hann gæti orðið þeim að einhverju leyti háður, þó auðvitað þurfi það alls ekki að verða svo.

Ég bendi aðeins á þessi atriði til athugunar. Mér dettur í hug, hvort ekki mætti breyta 5. gr. þannig, að í stað „Lýsissamlags íslenzkra botnvörpunga“ kæmi t. d.: stjórn Fiskifélags Íslands. — Vænti ég, að hv. n. athugi þessa hluti.