25.03.1933
Neðri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Hannes Jónsson:

Hv. flm. lagði mikið upp úr því, að gull og grænir skógar væru í vændum, ef háskólinn hefði forgönguréttinn, en ekki ríkið. Ég sé nú enga ástæðu til að ætla þetta, nema gengið sé út frá því, að ríkisstofnanir séu með betra stjórnarfyrirkomulagi en ríkið sjálft, en ég sé enga ástæðu til að ætla slíkt, enda hefir reynslan oft sýnt hið gagnstæða.

Hv. flm. talaði einnig um, að óeðlilegt væri, að taka stimpilgjaldið af brúttóágóða. Hann sagði, að af því gæti leitt töluverðar tekjur fyrir ríkissjóð, jafnvel þótt rekstrarhalli væri á happdrættinu. Ef slíkt gæti komið fyrir, virðist ekki svo mikið vera upp úr þessu fyrirtæki að hafa, að vert sé að leggja út í það. Ég held, að enginn andstæðingur hefði getað svert happdrættishugmyndina meira en hv. flm. hefir gert með þessu. Til hvers ætti að vera að stofna happdrætti, ef tap ætti að verða á því? Ef málið á hér nokkra andstæðinga, hefir hv. flm. styrkt þá í trúnni.

Með þeirri ráðstöfun á tekjum sjóðsins, að ekki megi binda tekjurnar fyrirfram á ég við, að ekki skuli byrjað á byggingu fyrr en nægilegt fé er fyrir hendi. Ef háskólinn á að hafa einkaleyfið í 10 ár, getur ekki verið meiningin, að byrjað sé að byggja strax. Byggingunni á að vera hægt að ljúka á 1—2 árum, og bað á þann hátt, sem óbornar kynslóðir geta unað við, en ekki eins og þjóðleikhúsið eða aðrir slíkir steinstöplar, sem eru og verða öldum og óbornum til hrellingar. Mín brtt. vill einmitt koma í veg fyrir flaustursverk og óhagstæða samninga.

Ef háskólanum er veittur þessi réttur, sé ég ekki neitt á móti því, að svo geti farið, að einstaka ríkisstofnanir aðrar fari fram á, að ríkið fái sér í hendur vissa tekjustofna, t. d. kolaverzlun eða þess háttar. Eigi að ganga inn á þessa braut, veit ég ekki, hvar verður látið staðar numið. Ég álít, að á skuli að ósi stemma og afhenda ríkissjóði þegar þessar tekjur, svo að hægt sé að verja þeim eftir þörfum í hvert skipti. Það tjáir ekki að vera að benda á skyldleika háskólans og ríkissjóðs, því að slíka frændsemi geta í raun og veru allar ríkisstofnanir rakið. Ég mun því halda fast við brtt. mínar.

Ég get fallizt á með hv. flm., að brtt. hv. þm. Dal. sé viðaukatill. (MJ: Miðlunartill.), því að í henni felst í raun og veru ekki annað en það, sem er í frv. sjálfu, nema hvað við eigi að taka, er háskólabyggingunni er lokið. En það má líka segja, að tími sé til kominn eftir 10 ár, að ríkið taki að sér happdrættið. Það er líka alveg fráleitt í frv. að binda einkaleyfið við svo langan tíma, þótt byggingunni kynni að verða lokið töluvert fyrr. Ef tekjurnar yrðu t. d. 350 þús. kr. á ári, þyrfti tíminn ekki að verða svo langur. Þetta er ein veila af mörgum í frv.

Ég vil alvarlega vara við því að ganga inn á þá braut að afhenda tekjustofna ríkissjóðs til einstaklinga eða stofnana innan ríkisins. Bæjar- og sveitarfélög gætu farið að ganga á lagið, og óvíst, hvar yrði látið staðar numið. Ég vil vara við þessu um alla tekjustofna ríkisins, og þá ekki sízt happdrætti, sem er einn hinn sjálfsagðasti liður í ríkisrekstri.