25.03.1933
Neðri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Hannes Jónsson:

Hv. 3. þm. Reykv. er nú nokkuð farinn að draga úr því, sem hann hefir áður sagt hér í hv. d. Hann er nú farinn að viðurkenna, að svo geti farið, að happdrættið yrði ekkert verr rekið sem ríkisfyrirtæki heldur en undir stjórn háskólans. Og ég er ekkert undrandi yfir því, þó hann hafi komizt að þeirri niðurstöðu. Ég veit ekki, hvað háskólinn ætti að vera færari um að skipa stjórn þessa fyrirtækis heldur en ríkisvaldið.

Þá vildi hv. þm. telja, að dæmið um þjóðleikhúsið væri einmitt sönnun um það, hvað nauðsynlegt væri að samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir. Ég vil nú benda hv. þm. á það, hvort ekki hefði verið heppilegra, að ákveðið hefði verið af Alþingi, hvort byrjað skyldi á byggingu þjóðleikhússins að svo stöddu eða ekki, áður en farið var að reisa húsið. Ég er alls ekki viss um, að Alþingi hefði fallizt á, að sjálfsagt væri að byrja byggingu leikhússins á þessum tíma. Og ég hygg, að flestir hefðu verið ánægðir með það nú, þó að það hefði verið látið bíða nokkur ár að leggja fé í þá byggingu. Ef það lægi undir ákvörðun þingsins í hvert skipti, hvernig ágóðanum af happdrættinu er ráðstafað, yrði e. t. v. athugað nokkuð nánar, hvort heppilegt væri að byrja á byggingunni eða ekki. Og þegar Alþingi væri einu sinni búið að ganga inn á, að verkið væri hafið, mundi það sjá svo um, að það stæði ekki allt of lengi yfir.

Mér finnst því allt, sem fram hefir komið við þessa umr., styrkja það, sem ég hefi sagt, að nauðsyn beri til að hafa framkvæmdirnar í þessu máli sem mest á valdi Alþingis á hverjum tíma. Og þar sem ekkert hefir komið fram, sem mælir með framgangi frv. í þeirri mynd, sem það var borið fram i, sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um það frekar og læt atkvgr. skera úr um brtt. mínar. Verði þær felldar, mun ég við 3. umr. gera tilraun til að koma frv. í það horf, að við það megi una.