25.03.1933
Neðri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. (Ólafur Thors):

Ég get leitt hjá mér að minnast á flest þau atriði í þessu máli, sem ég ella hefði e. t. v. haft ástæðu til að drepa á, vegna þess að hv. frsm. menntmn. hefir nú tekið af mér allan vandann og mestalla virðinguna af því að vera frsm. þessa máls. Mér finnst ekki hafa komið fram neinar mótbárur gegn frv., sem verulegu máli skipta. Það eru eðlilegar þessar almennu aths. um það, að margt annað þurfi að gera heldur en byggja háskóla, og þess vegna geti komið til greina að ráðstafa því fé á einhvern annan hátt, sem hér er gert ráð fyrir að afla: Ég geng þess ekki dulinn, að hvaða mál sem borið er fram hér á Alþingi og hvað mikil nauðsyn sem liggur þar til grundvallar, þá eru alltaf nokkuð skiptar skoðanir; alltaf koma einhverjir og segja, að það liggi ennþá meira á einhverju öðru. Það þýðir því ekki að vera að lengja umr. út af slíkum viðbárum. Hitt má vera stuðningsmönnum þessa frv. gleðiefni, að allir, sem um þetta mál hafa rætt, viðurkenna, að fyrir hendi sé mjög brýn nauðsyn á því að bæta úr húsnæðisvandræðum háskólans. Þessa viðurkenningu álít ég skipta talsverðu máli, og ég tel, að allir unnendur þessa máls megi gleðjast yfir henni og þeim velvilja, sem fram hefir komið, enda þótt sumir vilji ganga lengra og aðrir skemmra í málinu.

Ég hefi ekki umboð til þess frá n. að fara fram á við hæstv. forseta, að hann taki málið út af dagskrá og fyrir mitt leyti óska ég ekki heldur eftir því. Brtt. þær, sem fyrir liggja, hafa þegar verið nokkuð ræddar, og sé ég því ekki ástæðu til þess að fresta umr.