28.03.1933
Neðri deild: 38. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Magnús Jónsson:

Ég stend upp að þessu sinni aðeins til þess að mæla nokkur orð með þessari litlu brtt. Eins og hv. þdm. sjá, er svo ákveðið í 1. gr. frv., að fyrsti dráttur í happdrættinu ár hvert skuli fara fram í marzmánuði. Á hinn bóginn er svo ákveðið í 7. gr., að lögin skuli öðlast gildi 1. jan. 1934, og á þá að draga í fyrsta skipti í marzmánuði sama ár. Nú er það svo, að í frv. er aðeins dregið upp í aðaldráttum, hvernig á að haga þessu fyrirhugaða happdrætti. Miklu fleiri atriði því viðvíkjandi verður að taka fram í reglugerðum og erindisbréfum, sem gefin yrðu út í sambandi við þessi lög. Tíminn frá 1. jan. og þangað til fyrsti dráttur ætti að fara fram yrði allt of stuttur til þess að koma öllum slíkum undirbúningi í kring, og er því miklu eðlilegra, að lögin öðlist þegar gildi. Brtt. gengur aðeins út á að kippa þessu smáatriði í lag. Vonast ég eftir, að enginn ágreiningur verði um að samþ. hana.