28.03.1933
Neðri deild: 38. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Lárus Helgason:

Það var svo, þegar málið var til umr. síðast, að mestallur fundartíminn fór til að ræða þetta eina mál, og það fór svo, að sú till., sem um var að ræða, var drepin rækilega, enda fannst mér það mjög eðlilegt. Hér kemur fram áhugamál frá þeim mönnum, sem finna sárast til þeirra þrengsla, sem háskólinn á við að búa. Og ég segi fyrir mig, að ég get ákaflega vel unnað þessum mönnum og landinu því í heild, að það geti sem fyrst rætzt úr þessum húsnæðisvandræðum, sem háskólinn á við að búa. En ef á að breyta þessu frv. eins og hv. þm. V.-Húnv. vill vera láta, þá kæmi mér ekki á óvart, þó það liðu ár og dagar þangað til nokkuð yrði úr framkvæmdum þessa happdrættis, sem hér er um að ræða. Það verður svo bezt nokkuð úr framkvæmdum þessa máls, að menn hafi mikinn áhuga fyrir þessu, og það menn, sem hafa töluverð ráð til þess að geta komið þessu í framkvæmd. Ég geri ráð fyrir, að það verði að láta meira eða minna af mörkum, ef þetta mál á að komast í framkvæmd. Ég trú því ekki, að bændur yfirleitt séu svo þröngsýnir, að þeir vilji ekki gjarnan stuðla að því, að þetta mál nái fram að ganga.

Ég tel rangt af hv. þm. V.-Húnv. að seilast hér inn á þetta mál. Mér finnst mjög eðlilegt, að frv. eins og það var í byrjun nái fram að ganga. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að þegar safnazt hefir nóg fé til þess að koma upp þessari nauðsynlegu byggingu, þá eigi ríkið að taka við henni, og þá er fengin reynsla fyrir því, hvernig þetta muni ganga. Og ég trúi þeim mönnum bezt til þess að koma þessu fram, sem finna sárast til þrengslanna, sem háskólinn á við að búa. Ég held, að þessu máli sé bezt borgið með því að vera ekki að hringla neitt í þessu og samþ. frv. eins og það liggur fyrir.