28.03.1933
Neðri deild: 38. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég vil út af ræðu hv. þm. G.-K. segja það, að mér þykir það náttúrlega leiðinlegt, að hann skuli hafa fundið svona mikið til með þessu fyrirtæki, sem hér er um að ræða, háskólabyggingunni, að hann skyldi finna ástæðu til að sneiða að okkur flm. og þeirri hugsun, sem liggur bak við þá meðferð fjárins, sem við gerum ráð fyrir samkv. þessum till. Ég veit, að hv. þm. skilur þetta ákaflega vel og hefir glöggan skilning á því, hvaða þörf er hér fyrir hendi að greiða úr þessum málum, kreppumálum landsmanna, sem því miður hafa ekki einungis komið fram í sveitum landsins, heldur landinu í heild. Og ég þekki líka góðan vilja hans til þess að vinna þeim málum gagn og greiða úr þeim á sem beztan hátt, en hitt hélt ég, að hv. þm. ætti að vera fullkomlega ljóst, að til þess að geta greitt úr þessum málum, þá þarf ákaflega mikið fé, og það er svo um fjáröflunarleiðir ríkissjóðs, að það er reynt að dreifa þessu sem mest yfir á allan almenning, en hinsvegar er það vitaður hlutur, að með þeim aðalleiðum, sem farið er eftir til að ná fé inn í ríkissjóð, er þeim mjög mikið beint eða óbeint stefnt á atvinnuvegi landsmanna og þau fyrirtæki, sem atvinnuvegirnir eru nú reknir með og aflað er fjár með í þjóðarbúið. Eiginlega er svo ástatt fyrir atvinnnvegum landsmanna, þó það sé brýn þörf að afla fjár í þessu og öðru augnamiði, að það má öllum vera ljóst, að það er að ýmsu leyti óforsvaranlegt, eins og ástæðurnar eru, að leggja þetta að svo og svo miklu leyti beinlínis á þeirra herðar með þeim tekjuöflunaraðferðum, sem hér er um að ræða. Aftur á móti er ekki verið að leggja neinn þvingunarskatt, hvorki á atvinnuvegi landsmanna né einstaka menn. En það má segja, að hér sé verið að leggja gildru fyrir þá fýsn, sem liggur í því að kasta peningum um gæfuna, en þetta gera ekki aðrir en þeir, sem hafa eitthvert fé til að leggja í slíkt fjárhættuspil. Þess vegna er það harla einkennilegt, þar sem jafnbrýn nauðsyn er fyrir hendi eins og hér, að afla fjár til þess að greiða fram úr kreppunni, ef ekki má nota einmitt þessa eða einhverja álíka leið til þess að afla fjár í þessu augnamiði. Það, sem hér er um að ræða, er það, hvort kallar meira að, að reyna að afla fjár til að greiða fram úr kreppumálunum, eða þá hitt, að afla fjár til þess að byggja háskóla. Það er ekkert annað, sem greitt er atkv. um, en þetta. Ég og meðflm. minn lítum svo á, að eitt af þeim verkefnum, sem fyrir liggja, sé bygging háskóla. En hinsvegar er því svo farið með okkur, að við lítum svo á, að það séu önnur verkefni í þjóðfélaginu eins og nú standa sakir, sem ber að taka fram yfir þetta, og þess vegna er það, sem við höfum lagt inn á þá braut, að reyna að knýja fram þessa möguleika til þess að greiða úr þessum miklu erfiðleikum.

Ég vildi líka henda á það, hvernig fjvn. Nd. lítur á húsbyggingar eins og nú standa sakir. Hún hefir í sínum till. yfirleitt numið burt úr fjárl. fjárhæðir, sem staðið hafa í undanförnum fjárl. til húsabygginga frá hendi stj., af því það yrði að víkja fyrir annari brýnni þörf á þessum tímum að verja fé í þessu augnamiði.

Hv. þm. G.-K. dró það út úr orðum þessarar brtt., eða e. t. v. út úr orðum hv. 1. flm., að þessu fé ætti að verja til þess að greiða úr kreppumálum bænda. Það stendur nú ekkert um það í brtt. Það stendur þannig þar, að þetta fé eigi að nota vegna kreppumála, eða kreppunnar yfirleitt í landinu. Og að því leyti, sem hann vék orðum sínum að mér og hv. þm. Str., sem erum í þessari bændanefnd, þá get ég svarað honum því, að við munum bráðum koma með till. til viðreisnar í kreppumálum bænda, og ég býst við, að þegar þær till. koma fram, þá muni mörgum óa hreint og beint við, hvað það er mikið fé, sem við gerum ráð fyrir, að óhjákvæmilega verði að verja í þessu augnamiði, og þó við bendum á leiðir til þess að afla þessa fjár, þá er okkur vitanlega ljóst, að það er engan veginn sársaukalaust fyrir þjóðfélagið að inna þessa skyldu af hendi, að leggja þetta fé af mörkum. Einnig er okkur ljóst, að þrátt fyrir hina nákvæmu rannsókn á efnahag bænda, er ekki hægt að segja fyrir um það, hvað það fé er mikið, sem muni duga til þess að greiða úr því, sem allra mest er aðkallandi. Ég held því, að menn verði að gera sér það ljóst, hvort það er fært að fella niður í þessu augnamiði þann tekjuöflunarmöguleika, sem liggur í þessu happdrætti. Hinu er náttúrlega ómögulegt að neita, að þó það valdi háskólanum mikilla erfiðleika að starfa í svona þröngum húsakynnum eins og hann hefir nú, að miðað við aðrar þarfir, þá sé hægt að starfa þarna 2—3 ár enn. Það veldur ekki neinni byltingu, þó að skólinn verði að búa áfram við það skipulag, sem nú er og búið er að búa við síðan háskólinn var stofnaður. En hitt veldur byltingu í þjóðfélaginu, ef sá grundvöllur fellur undan þeim atvinnurekstri, sem meira en 40% þjóðarinnar byggist á. Það er ekki strax búið að afla möguleika fyrir þetta fólk til þess að ryðja sér braut á öðrum sviðum. Það kostar svo miklar breytingar í þjóðfélaginu að ætla sér að gera slíkt, auk þeirra erfiðleika og vandræða, sem leiðir af tilfærslum og snöggum breytingum milli atvinnuveganna, og ekki sízt, þar sem atvinnuvegirnir er jafneinhæfir og þeir eru nú í þessu landi.

Það er því engin tilbekkni við þessa hugmynd, sem er bak við þessa till. okkar. Hún byggist eingöngu á þessu, að við álítum ekki annað fært en að nota allar færar leiðir til fjáröflunar fyrir ríkissjóðinn, svo að hægt sé að greiða sem bezt úr þeim vandræðum, sem nú steðja að.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að segja út af þessu. Það er líka auðséð á brtt., að það er aðeins um stundarsakir, sem við viljum víkja út af þessari braut, því að í brtt. er gert ráð fyrir, að eftir árslok 1936 renni þetta fé í svokallaðan húsbyggingarsjóð, og verði þá varið samkv. ákvörðunum þingsins til þess að koma upp háskólanum eða öðrum slíkum byggingum.

Ég er ekki í minnsta vafa um það, að þegar þinginu þykir fært að verja fé til háskólabyggingar, þá verður litið með fullri sanngirni á þarfir og nauðsyn þessarar virðulegu stofnunar, Háskóla Íslands.