28.03.1933
Neðri deild: 38. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Jónas Þorbergsson:

Brtt. sú, er hv. þm. V.-Húnv. bar hér fram við 2. umr., miðaði allmjög til þess að hnekkja framgangi þess máls, sem koma á í framkvæmd með stofnun þessa happdrættis. En þessi tilraun hv. þm. að reyna ennþá einu sinni að tefja framgang þessa máls misheppnaðist þá. En nú hefir hann ásamt hv. þm. Borgf. lagt inn á nýja leið í þessu máli, sem þeir munu telja sigurvænlega, með því að þeir hafa nú tekið kreppuna í lið með sér.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál; ég álít enga þörf á því, en mér dylst ekki, að með þessum till. er verið að egna fyrir menn. Þessar till. eru, að því er mér virðist, bornar fram í þeirri trú, að bæði ég og aðrir fulltrúar bændastéttarinnar þorum ekki að ganga á móti brtt. til að bæta úr þeim húsnæðisvandræðum, sem háskólinn hefir haft við að búa. En ég get sagt þessum hv. flm. það, að ég er ekki svo hræddur við mína kjósendur, að ég af þeirri ástæðu snúist á þeirra mál. Ég læt ósagt, hvað aðrir kunna að gera, en ég fylgi hiklaust þeirri hugmynd, sem felst í frv. eins og það er nú og fylgi því óbreyttu.