27.03.1933
Neðri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

1. mál, fjárlög 1934

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það var auðfundið á ræðu hv. þm. Seyðf., að hann hefir fundið til þess, hve halloka hann fór í umr. hér á föstudaginn var. Nú hefir hann ætlað að bæta það upp með því að ybba sig og gerast stórorður. Ég ætla hér aðeins að láta rökin tala, en ekki skeyta um köpuryrði hans.

Hv. þm. talaði m. a. um brottfall sakamálsákærunnar á hendur bankastjórum Íslandsbanka, og er mér ánægja að því að svara því allrækilega, sem hann hefir sagt í hinni seinni ræðu sinni. Fyrri ræðunni hefi ég þegar svarað, svo að þar stóð ekki steinn yfir steini.

Í fyrri ræðu sinni gaf hv. þm. mér ekki tilefni til að gera annað en að sýna fram á, hvers vegna ég hefði látið þetta sakamál falla niður. Ég benti þá á og sannaði með tilvitnunum til ótvíræðra lagaákvæða, að bankastjórarnir hafa án dóms og laga verið látnir sæta þeirri refsingu, sem hörðust er lögð við hirðuleysi og trassaskap í embættisfærslu. Þetta hefir verið gert, eins og ég tók fram, án dóms og laga, og læt ég liggja milli hluta, hvort það hefir verið gert með réttu eða ekki, því að það skiptir mig engu í þessu sambandi. En af þessu leiðir, að ef skoða ber bankastjórana embættismenn eða sýslunarmenn ríkisins og ef þeir hafa ekki gert sig seka um vísvitandi glæpi, þá getur ekki verið um frekari viðurlög að ræða en þeir hafa þegar sætt. Gangi maður aftur á móti út frá því, að þeir hafi ekki verið sýslunarmenn ríkisins, og það er ótvírætt um einn þeirra, Eggert Claessen, því að hann var valinn af hluthöfum bankans, þá er refsingin fyrnd, því að vitaskuld getur refsing þeirra ekki verið hærri, þótt þeir séu ekki opinberir starfsmenn ríkisins.

Þetta er allt ómótmælanlegt, því að það styðst við skýr og ótvíræð fyrirmæli laga. Þetta hefir og hv. þm. Seyðf. fundið, því að nú gerði hann það, sem hann gerði ekki í fyrri ræðu sinni, en það var að reyna að sýna fram á, að bankastjórarnir væru kannske hreinir og beinir glæpamenn, sem myndi eiga að refsa sem fyrir vísvitandi afbrot. Þetta gefur mér tilefni til að ræða nokkuð um þá hlið málsins, og er mér kært að fá tilefni til þess, því að ég er því á engan hátt vanbúinn.

Ein sakargiftin er sú, að reikningar bankans hafi verið vísvitandi rangir eða falsaðir.

Þetta er byggt á því, að :

1) Lán danska ríkissjóðsins hafi verið tilfært í ísl. krónum, í stað danskra króna.

2) Bankavaxtabréf bankans hafi verið tilfærð í ísl. krónum, í stað danskra króna.

3) Að í brezka láninu frá 1921 hafi gengi hvers sterlingspunds verið talið 15 aur. of lágt.

Ekkert af þessu er á rökum byggt, eins og ég nú mun sýna fram á:

Um 1. atriðið er það að segja, að skuldin við ríkissjóðinn danska er þannig til komin, að bankinn tók á móti póstávísanafé í ísl. krónum, sumpart áður en nokkur gengismunur kom á danskri og ísl. krónu, sumpart eftir að sá gengismunur kom. Mér er þetta mál ákaflega kunnugt, því að þegar ég var fjármálaráðh. 1920, hafði ég áhyggjur yfir því, að þetta póstávísanafé hrúgaðist upp í bankanum, því að þá voru komnir miklir yfirfærsluörðugleikar, og ég leit svo á, að féð væri þarna á ábyrgð hins íslenzka ríkissjóðs. Fyrir því samdi ég svo um í ferð minni til Danmerkur 1920, að fé þetta væri úr ábyrgð hins íslenzka ríkissjóðs, þegar það væri innborgað í Íslandsbanka. Um þetta samdi ég við þáverandi Stafsgældsdirektör Andersen, sem jafnframt var deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu danska og bankaráðsmaður Íslandsbanka. Síðan varð ágreiningur milli bankans og danska ríkissjóðsins út af því, hvort hér væri um danskar eða ísl. kr. að ræða. Enginn efi gat verið á því, að það væru ísl. krónur, sem innborgaðar hefðu verið. Þessum ágreiningi lauk svo, að 1925 gerðu aðilar, bankinn og ríkissjóður Dana, samning um þetta fé, og skyldi það endurgreiðast á 18 árum. Í þessum samningi er það ákveðið, að skuld þessi skuli teljast danskar krónur, en til að vega upp á móti voru vextir af skuldinni ákveðnir 3%, ef ísl. kr. væri milli 75 og 85 danskir aurar, eins og þá var, en vextirnir áttu að hækka eftir ákveðnum reglum, ef munurinn á danskri og

Ef ísl. krónan er undir 98%, en ekki undir 90%, lækki vextirnir um ½.

— — — — 90%,— — — 85% — — — 1%

— — — — 85%,— — — 75% — — 1½%,

og sé gengi ísl. kr. undir 75%, lækki vextirnir um 2%.

Skuldin átti að afborgast á 18 árum frá 1. apríl 1925 að telja.

Samkvæmt framanrituðum ákvæðum verða vextirnir á skuldinni ákveðnir svo sem hér segir:

Vextir þjóðbankans danska eru nú 5%. Þar frá dregst fyrst ½% = eftir 4½%. ísl. krónu yrði minni, þó þannig, að þeir áttu jafnan að vera ½% undir vöxtum þjóðbankans danska. Það, sem hér var gert, er því það, að viðurkennt var, að skuldin skyldi teljast í dönskum krónum, en vextirnir settir eins og um ísl. krónur væri að ræða. Það hefir verið reiknað út af fagmanni, Brynjólfi Stefánssyni í Sjóvátryggingarfélagi Íslands, að þetta svari til þess, að bankinn hefði átt að greiða 6½% vöxtu, ef skuldin hefði verið talin í ísl. krónum.

Til þess að ekkert fari hér á milli mála, ætla ég að lesa hér upp vottorð Brynjólfs Stefánssonar um þetta. Það er svo hljóðandi:

„Ég undirritaður, Brynjólfur Stefánsson skrifstofustjóri, hefi samkvæmt beiðni Íslandsbanka athugað samning bankans við ríkissjóð Dana, dags. 13. og 14. júlí 1925, um greiðslu skuldar bankans við hann, sem þá var að upphæð 5 millj. danskar krónur. Athugunar þessarar hefir bankastjórnin beiðzt til upplýsingar um það, hvort ástæða sé til að meta bankanum gengistap á skuld þessari, vegna þess að hún er í dönskum krónum, en bankastjórnin lítur svo á, sem ákvæði téðs samnings um vaxtagreiðslu af skuldinni séu með því innihaldi, að eigi sé rétt að telja neitt gengistap á láni þessu, þó það sé bókfært hjá bankanum í ísl. krónum. Ákvæði téðs samnings um vexti af skuldinni er þau, sem hér greinir:

Vextirnir skulu vera ½% fyrir neðan vexti þjóðbankans danska, eins og þeir eru á hverjum tíma, þó eigi hærri en 6%. En á þeim tíma, sem ísl. krónan er undir gullgildi (pari) skal þó lækka ofangreinda vexti af skuldinni svo sem hér segir:

Vegna þess, að gengi ísl. kr. er nú ca. 82% (undir 85%, en ekki undir 75%), á ennfremur að draga frá 1½%, svo að vextir af láninu eru 3%“.

En svo kemur það, sem er aðalatriðið: „Sé nú gengismun þeim, sem nú er milli dönsku og ísl. kr., breytt í hækkaða vexti, upp úr téðum 3%, meðan verið er að afborga skuldina, þá verður niðurstaðan þessi: Eftirstöðvar lánsins eru nú 3900000 danskar kr., og til þess að jafnast á við gengismuninn, verða vextir af láninu framvegis að teljast á ári, og er þá gengið út frá óbreyttu gengi á ísl. kr. og óbreyttum vöxtum þjóðbankans danska. Á þessum grundvelli má því telja lánið í ísl. kr. með 6½% ársvöxtum.

Reykjavík, 18. febr. 1930.

Brynjólfur Stefánsson“.

Þetta sýnir alveg ljóst, að vextirnir eru miðaðir við ísl. kr. og hreint ekki mjög háir. 3% vextir eru aftur á móti svo lágir, að engum getur dottið í hug, að miðað sé við danskar kr.

Að þessu athuguðu er það að mínu viti gersamlega útilokað, að nokkur dómstóll telji það fölsun á reikningum, þótt þessi skuld sé talin í ísl. kr. Þetta höfuðvígi er þá hrunið í rústir.

Þá er 2. atriðið, um bankavaxtabréfin, þ. e. ákæran um, að þau hafi átt að teljast í dönskum en ekki ísl. kr. Þau voru gefin út á Íslandi og í ísl. kr., og bankinn sá sér ekki annað fært en að telja þau í ísl. kr., enda má í þessu sambandi vitna í aðferð Landsbankans. Svipað hefir og komið fyrir síðar. Svíar heimtuðu t. d. í svipuðu tilfelli af Dönum, að þeim yrði borgað í sænskum kr. Féll dómur í málinu í hæstarétti Dana á þá leið, að Danir hefðu ekki þurft að borga í öðru en dönskum kr., en það þýðir, að hér hefði ekki þurft að borga í öðru en ísl. kr., því að það, sem einum telst leyfilegt, getur ekki verið saknæmt hjá öðrum.

Loks er 3. atriðið, enska lánið. Ef það er fölsun að telja sterlingspundið 15 au. of lágt, þá hefir Alþingi og stj. líka falsað LR. 1928, því að þar var ákveðið að telja sterlingspundið milli 21 og 22 kr. Er þetta nóg til þess, að ekki er hægt að dæma bankastjórana fyrir slíkt.

Ég kem þá að þeirri sakargiftinni á hendur bankastjórunum, að efnahagsreikningur bankans hafi sýnt betri afkomu en raunverulegt bar, sökum þess, að ýmsar skuldir, sem taldar voru til eigna, hafi í rauninni berið tapaðar. Þetta er án efa rétt. Reynslan hefir eflaust sýnt, að miklu meira var tapað en reikningar hinna ýmsu tíma sýna. En var þetta vitanlegt bankastjórunum á þann hátt, að það sé kriminelt? Ég tel alveg útilokað, að hægt sé að sanna slíkt.

Ég veit það vel, að enginn bankastjóri í heiminum getur ábyrgzt, að ekki sé eitthvað tapað af því, sem talið er meðal eigna í bankareikningi. Holubankastjóri, eins og hv. þm. Seyðf., getur það ekki einu sinni, auk heldur bankastjórar allstórra banka. Hjá bankastjórum Íslandsbanka gat þetta ekki verið í sviksamlegum tilgangi gert. Það getur vel verið, að bankastjórarnir hafi tilhneigingu til að láta hag bankans líta sem bezt út, en cui bono, hverjum til góðs? Ekki sjálfum sér, heldur þá bankanum, sem átti að starfa áfram.

Þetta minnir mig á það, að reikningar Landsbankans hafa aldrei sýnt, að hann ætti minna en ekki neitt. En fyrir nokkrum árum var skipuð nefnd til að rannsaka hag hans. Hún komst að þeirri niðurstöðu, að bankinn skuldaði 6 millj. kr. umfram eignir, en engum hefir samt dottið í hug að saka bankastjóra þessa banka um fölsun reikninga. Þetta eitt ætli að vera nægilegt til að sýna, að hér væri um hið hróplegasta ranglæti að ræða, ef sakamál ætti að höfða gegn einum, en sleppa öðrum fyrir sömu sakir. En aðalatriðið er, að hér er ekki um saknæmt atriði að ræða.

En svo er annað atriði í þessu máli, og það er, að ef bankastjórarnir væru sekir í þessu og öðru, sem ég hefi talið, þá hljóta líka endurskoðunarmenn bankans að vera það og sjálfsagt einnig bankaráðsmennirnir, sem hafa undirskrifað reikningana.

Ég sá í einhverju blaði, að ég hefði í fyrri ræðu minni kennt starfsmönnum Íslandsbanka um misfellur, sem kynnu að hafa verið á reikningum bankans, en ég er mér þess ekki meðvitandi, að ég hafi í þeirri ræðu nefnt starfsmenn bankans, og er þetta því ekki annað en rakalaus tilbúningur, enda hefði mér ekki getað dottið slík endileysa í hug.

Ég hefi þá svarað óbeinlínis flestu því, sem hv. þm. Seyðf. sagði viðvíkjandi Íslandsbanka.

Hann sagði, að strax hefði verið krafizt sakamálsrannsóknar eftir að bankanum var lokað. Ég man ekki eftir neinni slíkri kröfu fyrr en ári seinna, er hún kom frá verkamannafélaginu Dagsbrún.

Hv. þm. sagði, að ég hefði legið á skjölum málsins í 9 mánuði, fullan meðgöngutíma, eins og hann orðaði það. En honum finnst víst ekki nema eðlilegt, að það tæki meira en 2 ár fyrir fyrirrennara minn að fá menn til að rannsaka hag bankans. Finnst honum þá ekki bankastjórarnir hafa þurft tíma til að ganga í gegnum öll plögg, er fram komu við rannsóknina? Mér finnst ekki nema eðlilegt, að þeir væru lengi að þessu, enda gerðu þeir það vandlega.

Hv. þm. fann ekkert við það að athuga, þó að bankastjórarnir væru ekki spurðir, hvort þeir fyndu sig seka. Hann sagði, að ekki væri vani að spyrja sakborninga slíks. Ég get þá sagt honum, að það er grundvallarregla alls réttlætis að spyrja þann, sem fyrir sök er hafður, hvort hann viðurkenni sig sekan. Refsiréttur Rómverja byrjar á þessum orðum: audiatur et altera pars. (Það ber að yfirheyra báða aðila). En 1933 kemur svo fram þingmaður hér úti á Íslandi, sem er svo fáfróður eða svo illviljaður, að hann vill ekki játa spyrja sakborninga.

Hv. þm. sagði, að ég hefði í öllu farið eftir því, sem bankastjórarnir hefðu sagt. Hvaðan hefir hann það? Hér fer hann með rangt mál, líklega vísvitandi. Hann viðurkennir, að hann hafi ekki vit á þessum málum, en vill þó gera sig að dómara í þeim. Mun leitun á slíku ábyrgðarleysi. Svo bætir hann við: „Það var bezt að játa dóm ganga um þessa bankastjóra, til þess að þeir yrðu þá sýknaðir“. Ég vil spyrja hann: Vill hann láta ákæra sig fyrir manndráp, þótt hann væri saklaus og yrði sýknaður?

Hv. þm. sagði, að það væri ekki leikur að liggja undir grun. En það er hann, sem hér er að reyna að læða inn grun um það, að þessir bankastjórar séu glæpamenn, þó að hann í öðru orðinu viðurkenni, að hann hafi ekki vit á þessum málum.

Þá talaði hann um dóm Kristjáns Karlssonar. Ég hélt, að hann bæri svo mikið skyn á þessi mál, að hann vissi það, sem allir aðrir vita. Hér var um laun að ræða, sem Kristján Karlsson krafðist, eftir að hann var farinn frá starfi sínu við bankann. Voru honum ekki tildæmd launin. En ég hélt, að hv. þm. Seyðf. sæi, að það er sitt hvað, að maður á ekki laun skilið fyrir starf, sem hann hefir ekki unnið, og hitt, að hann eigi refsingu skilið fyrir verk, sem hann hefir leyst af hendi.

Það hefir oft verið talað um töp Íslandsbanka. Það er rétt, að þau voru sorglega mikil. En langmestan hluta þessara tapa hefir bankinn borgað með varasjóði sínum og uppspöruðu fé og hlutafé. Þegar bankanum var lokað, var gert ráð fyrir því, að af þessum 20 millj., sem hann skuldaði, væri skuld umfram eignir 3 millj. Það er alveg rétt, að þessi töp eru stór, en það hafa fleiri tapað en Íslandsbanki. Ég hefi dálítið kynnt mér meðferðina á útibúi Íslandsbanka á Ísafirði, meðan hv. þm. Seyðf. var þar starfsmaður. Getur verið, að ég lesi seinna upp dóm, er kveðinn var upp 1926 og bregður ljósi yfir þetta. Hv. þm. þarf ekki að stökkva hátt yfir töpum Íslandsb., því hann hafði skamman tíma verið við stj. útibúsins, þegar mikil töp komu í ljós.

Hv. þm. sagði, að ég myndi treysta því, sem Einar Arnórsson segði. Já, en Einar Arnórsson hefir aldrei sagt það, sem hann vill vera láta. Hv. þm. er bara að reyna að gefa í skyn, að bankastjórarnir séu sekir, en þorir ekki að segja það umbúðalaust. En ég skal segja honum það hreinskilnislega, að ég mun aldrei nota mitt vald til þess að setja þá undir sakamálsákæru, svo að þeir fái sýknunardóm. Það væri herfileg misbeiting réttvísinnar. Ef ég er sannfærður um, að maður sé saklaus, þá væri það glæpur af mér að höfða gegn honum sakamál.

Þá talaði hv. þm. um mig í sambandi við 7. júlí og 9. nóv. og málshöfðanir út af þeim atburðum, er þá gerðust. Ég hélt, að hann meinti aðeins 9. nóv. Ég vísa því heim til föðurhúsanna, að ég hafi farið með rangt mál í þessu sambandi. En úr því hann þykist svona heilagur og er að tala um það, hve litlar sakir séu fyrir málshöfðuninni út af 9. nóv. í haust, þá skal ég lofa honum að heyra fáein læknisvottorð, sem sýna, hvað gerðist. Reyndar segir hann, að ekki hafi annað gerzt en að maður hafi ætlað að ná í fingur á einum lögregluþjóninum, sem þó hefði ekki tekizt.

Hér eru tvö af þessum vottorðum. „Jakob Björnsson lögregluþjónn handleggsbrotnaði á vinstra framhandlegg þann 9. þ. m. (fractora ulnæ). Verður hann sennilega ófær til vinnu 6 vikna tíma í allt.

Reykjavík, 30/11 '32.

B. Gunnlaugsson læknir“.

„Meiðsli þau, sem Sigtryggur Eiríksson lögregluþj. varð fyrir 9. nóv., voru: Háls- og bakvöðvar voru mjög mikið marðir og bólgnir, svo að hreyfing á þessum vöðvum var nærri ómöguleg vegna sársauka. Á höfði var hann auk þess töluvert marinn. Af þeim áverka, sem hann hafði fengið, var hann mjög máttfarinn í öllum útlimum, og er það enn, má búast við, að hann verði ekki vinnufær fyrr en eftir 1—1½ mán. hér frá

Rvík, 2/12 '32.

Ó. Þórðarson“.

Svona gæti ég lengi haldið áfram. Ég get nefnt meiðsli Matthíasar Sveinbjarnarsonar, Magnús Hjaltesteðs, Þórðar Ingimundarsonar, Guðbjörns Hanssonar, Pálma Jónssonar, Margríms Gíslasonar, Ágústs Jónssonar, Erlings Pálssonar o. fl. Voru flestir þeirra óvígir eftir.

Og svo kemur hv. þm., þykist vera einhver sannleikspostuli og segir, að ekki hafi annað gerzt en það, að einhver hafi ætlað að taka í einhvern fingur á einhverjum lögregluþjóni, sem ekki hafi verið til.

Þá fór hann nokkrum orðum um það, sem hann kallaði mannúðarmál mín, sem hann talaði svo mikið um á föstudaginn var. En hann gleymdi dæmum úr þessum mannúðarmálum, sem hann kallar. Af hverju nefndi hv. þm. ekki, að það hafa komið 5 kærur á hendur formanni Alþýðuflokksins, Jóni Baldvinssyni? Af hverju nefnir hann ekki, að Jón Baldvinsson hafi orðið fyrir ákæru? Og af hverju álasar hv. þm. mér ekki fyrir, að ég skuli ekki hafa sett hans kæra flokksbróður undir sakamálsrannsókn? Ekki getur þar verið um hlutdrægni að ræða frá minni hendi. Ég gæti trúað, að einhverjum fyndist, að hann hefði ekki hvað sízt átt að skýra frá a. m. k. einni af þessum kærum. Nei, þetta, að ég hefi ekki látið fara fram rannsókn út af kærum á formann Alþýðusambandsins, ætti að sýna hv. þm., að það er ekki farið eftir því nú, hvort það er pólitískur andstæðingur, sem á í hlut. Ég skal svo, eftir því sem ég get, fylgja ræðu hv. þm. og svara með fáum orðum þeim atriðum öðrum, sem hann vék að mér.

Ég get þá fyrst nefnt það, þó því væri ekki sérstaklega beint til mín, að hv. þm. ávítaði stj. fyrir að vera ekki búin að leysa stjórnarskrármálið. Það má nú segja, að hann sé bráðlátur, þingið er nú ekki meira en hálfnað, og hvernig getur hv. þm. búizt við, að búið sé að leysa málið? Það hefir komið fram frv., sem ýmsum hefir líkað allvel og tjáð sig fylgjandi, en það er ekki hægt að sjá fyrr en í þinglok, hvað úr því verður. Hv. þm. getur ekki ennþá álasað stjórninni fyrir þetta mál. Því það hefir heyrzt, að hann væri ánægður með þetta frv. og mundi sjálfur ætla að fylgja því. Ég held, að hæstv. forsrh. hafi svarað öllu viðvíkjandi landhelgisgæzlunni, og get ég þess vegna hlaupið yfir þann lið.

Hv. þm. breiddi sig mjög yfir það, að ég hefði sagt, að hann hafi farið með ósanna sögu austan úr Vaðlavík. Hann sagði, þegar hann var búinn með söguna, að hann tryði því ekki, að hún væri sönn, en ég vissi það ekki fyrr en nú, að hann átti bara við enda sögunnar. En ég get fullvissað hann um, að hún er algerður tilbúningur, eins og hann sjálfur gat til.

Þá eru það þessir 4 skipstjórar á launum. Ég vil spyrja hv. þm., hvaða skipstjóra á varðskipunum ég hefi bætt við. Ef hann getur ekki bent á, hvaða skipstjóra ég hafi bætt við, þá er hann að fara með vísvitandi blekkingar, og hann ætti ekki að leyfa sér að bera öðrum það á brýn, sem hann hefir gert sig sekan um sjálfur. Ég get fullvissað hv. þm. um það, að ég hefi engum bætt við, því að þessir menn voru allir á launum, þegar ég tók við.

Þá var hv. þm. mjög hreykinn yfir því, að hann hefði borgað kost á varðskipunum 1931. Já, er það ekki von, að hann sé montinn af því! Heldur hann virkilega, að það sé aðalkostnaðurinn við varðskipin, sem hann étur, þegar hann ferðast með þeim? Ég hélt, að hann mundi vita, að aðalkostnaðurinn liggur ekki í því. Hann var, ef ég man rétt, mánaðartíma á ferðalagi á einhverju af varðskipunum. Og varðskipin urðu alltaf að vera til taks fyrir hann og hv. 5. landsk., hvenær sem var. Svo kemur hann og ætlar að telja mönnum trú um, að ríkið hafi ekki skaðazt á þessu, af því að hann hefði borgað það, sem hann át á skipinu! Þetta álítur hann ekki blekkingar. Þessi maður getur gert sig að dómara yfir öðrum. Nei, það var ekki það, sem hann át um borð í skipinu, sem var aðalkostnaðurinn, heldur það, sem eyddist í rekstur skipsins og að það var tekið frá landhelgisgæzlunni. Það var aðalatriðið, og það mun skipta þúsundum og sennilega tugum þúsunda. Hv. þingmaður varð að éta allt aftur í sig, sem hann sagði um greiðsluna til Guðmundar Sveinbjörnssonar. En það var ekki fyrr en hann fékk afrit af ávísuninni til Guðmundar Sveinbjörnssonar, sem hann trúði því, að honum hefði ekki verið borgað meira en 4 þús. kr. En það sanna í þessu máli er það, að Jónas Jónsson, sem hv. þm. er nú að verja eins og hann getur, borgaði þessi 4 þús. árið 1928, og hann borgaði sömu upphæð 1929 og 1930, en 1931 er það Tryggvi Þórhallsson, sem borgar það, og 1932 er það ég. En hv. þm. Seyðf. hélt sér saman um það, sem var borgað á árunum 1928, '29 og '30, af því að Jónas borgaði það, en hann reyndi að ráðast á mig, af því að hann hélt, að ég hefði borgað fyrir árin 1931 og 32. Það sést þess vegna af þessu, að það er fullkomlega ósatt, sem hann sagði, að ég hefði borgað Guðmundi Sveinbjörnssyni 8 þús. kr. fyrir eftirlit með landhelgisgæzlunni 1931 og 1932.

Ég verð að segja hv. þm. það, að hann var heppinn að geta notað vottorðið frá Jónasi Jónssyni áður en hann afturkallaði það eins og hann gerði um vottorðið til Vigfúsar Einarssonar. En viðvíkjandi því starfsfólki, sem getur um í vottorðinu, að engin aukaborgun hafi verið greidd fyrir að leysa af hendi störf skrifstofustjórans, þá held ég, að við það sé hægt að gera athugasemd. Það er óhætt að athuga laun Gissurar Bergsteinssonar meðan hann var skrifstofustjóri, hvort þá hafi ekki verið borguð hærri laun. Þegar hv. þm. Seyðf. er að tala um 5. landsk., álítur hann það enga sök, þó hann hafi borgað 4 þús. kr. fyrir starf, sem alls ekki var unnið. En ef það er ég eða Tryggvi Þórhallsson, þá er það saknæmt. Auðvitað skiptir það engu máli, þó þessari ávísun hafi ekki verið framvísað fyrr en 1932, a. m. k. getur maður búizt við, að réttlætistilfinning hv. þm. Seyðf. sé svo mikil, að hann saki mig ekki um það, hvað ávísuninni var seint framvísað, heldur er það skrifstofustjórans sök að framvísa henni ekki fyrr.

Þá nefndi hv. þm. rannsóknina gagnvart Lárusi á Kleppi. Get ég upplýst nokkuð um það, þó að ég hafi ekki fyrirskipað hana. Eftir að búið var að setja Lárus af fór hann í mál við ríkissjóð og krafðist skaðabótagreiðslu, en til þess að vera viðbúinn í þessu máli var rannsókn sett af stað. Þá spurði hv. þm., hvort Hesteyrarmálinu yrði ekki áfrýjað. Ég get sagt honum það, að ég er ekki búinn að lesa það mál, og get þess vegna ekki sagt honum, hvort því verður áfrýjað eða ekki. En það var auðfundið á hv. þm. Seyðf., að honum var annt um það mál. Skyldi það ekki vera af því, að það var verkamannafél. Dagsbrún, sem hafði kært, sem honum er svo annt um þetta? Það er ekki ákveðið ennþá, hvort því verður áfrýjað eða ekki. En í þessu sambandi get ég upplýst það, að ég býst við, að málskostnaður verði ekki undir 20 þús. kr. Því að þegar fyrirrennari minn, Jónas Jónsson, fékk þessa kæru í hendur, var strax sent af stað varðskip og látið liggja lengi fyrir vestan með ærnum kostnaði. En hvernig sem á þetta mál er litið, þá er það ekki annað en lítið lögreglumál. Það sýnir bezt sambandið milli hv. þm. Seyðf. og fyrrv. dómsmrh., að það er sent af stað herskip með ærnum kostnaði, og svo fæðist þessi litla mús, 100 eða 200 kr. sekt út af öllu saman.

Þá vék hv. þm. að öðru, sem hann var ákaflega sár yfir. Það var viðvíkjandi Ísleifi Briem. Hann sagði, að ég hefði skýrt rangt frá, þegar ég sagði, að hann hefði ekki verið dæmdur fyrir fals. Ég sagði bara, að hann hefði ekki verið dæmdur fyrir eiginlegt fals. Refsing fyrir eiginlegt fals er svo ákveðin í lögum, að það sé 1 til 8 ár. Svo getur hann borið það saman við þá refsingu, sem ákveðin er í dómnum.

Svo minntist hv. þm. á náðun Þórðar Flygenrings. Ég sagði á föstudaginn var, að ég hefði aðeins tekið tillit til þess, sem fyrrirennari minn var búinn að ákveða, að Þórður Flygenring skyldi verða náðaður.

Því til sönnunar skal ég lesa upp vottorð frá hv. 2. þm. Rang., sem hann hefir gefið mér nú alveg samstundis. Það er svona:

„Áður en stjórnarskiptin urðu síðastl. ár, hafði ég minnzt á það við þáv. dómsmrh., Jónas Jónsson, að hann leitaði náðunar fyrir Þórð Flygenring, þar sem mér var persónulega kunnugt um, að hann var veill að heilsu og að hann auk þess hafði mjög góðan vitnisburð forstjóra vinnuhælisins og meðmæli hans til þessa. Neitaði þáverandi dómsmrh. að gera þetta þá, en gaf mér í skyn, að hann mundi gera það, er refsitíminn yrði hálfnaður eða svo. Þessa gat ég við núv. dómsmrh., er ég minntist á þetta sama efni við hann, skömmu eftir stjórnarskiptin.

Virðingarfyllst.

Alþingi, 27. marz 1933.

Sveinbjörn Högnason.

Til dómsmrh. Magnúsar Guðmundssonar“.

Nú getur hv. þm. borið þetta saman við vottorðið, sem hann er með, frá fyrrv. dómsmrh., sem ég man ekki betur (ég ætla nú að vera varkár, svo hv. þm. geti ekki talað um óvarkárni) en algerlega neitaði að eiga nokkurn þátt í þessari náðun.

Ennfremur sagði hv. þm., að ég hefði ekki náðað þá fátæku, heldur aðeins þá ríku og stóru. Ég get sagt hv. þm. það, að ég hefi náðað marga fátæka menn, en hv. þm. hefir ekkert kært sig um að fá að vita um það. Hann fer hér aðeins með fullyrðingar, sem hann getur ekkert um vitað, hvort eru sannar eða ósannar.

Þarf ég svo ekki að eyða meiri tíma að svo búnu í hv. þm. Seyðf., en mun fá orðið seinna, ef ég finn, að ég hefi gleymt einhverju.