27.04.1933
Efri deild: 57. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Jón Baldvinsson:

Það virtist helzt vera meiningin í ræðu hv. 1. landsk., að frv. þetta væri illa samið, kæmi í bága við gildandi 1. og væri forkastanlegt í sjálfu sér. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ætlar hann þó að greiða þessu óféti atkv. sitt. Þetta er nokkuð undarlegt, en þó ekki án fordæmis. Það fordæmi er sem sé til, að einn meiri háttar maður í þinginu, meira að segja flokksforingi, sagði fyrir ekki löngu síðan um eitt mál, að það bæri í sér afsal á landsréttindum, en samt greiddi hann atkv. með því máli. Það fer að verða nokkuð óskiljanlegt, þegar því er yfir lýst um eitt mál, að það feli í sér afsal landsréttinda, en sá, sem yfirlýsinguna gefur, greiðir þó atkv. með því. En þetta er fordæmið. Eins og hv. 1. landsk. benti á, þá eru til 1. um happdrætti frá 1926. (JónÞ: Það eru líka til önnur 1. um slíkt frá 1926!). Já, og samkv. þeim l. er stj. heimilt að veita félagi leyfi til að reka happdrætti. Ég get því ekki betur séð en að samkv. því hafi stj. hvenær sem er rétt til að veita slíkt leyfi. Hún gæti meira að segja gert það strax í dag, og kæmu þessi 1., sem hér er verið að samþ., þá að litlu gagni. Hv. 1. landsk. gat átt kost á því að koma þeim 1. í framkvæmd, en vildi ekki gera það, sjálfsagt af mórölskum ástæðum. Nú vill hann þó samþ. þetta frv., þótt hann sjái á því ótal smíðagalla. Það lítur því svo út, að hinn moralski sans hv. þm. hafi dofnað með aldrinum. — En fyrst minnzt er á smíðagalla, þykir mér rétt að henda á einn í viðbót: Ég get hvergi séð það í frv. þessu, að 1. frá 1926 séu numin úr gildi, ef þetta verður samþ. Það er hvergi gert beint og heldur ekki með hinu almenna orðalagi, sem stundum er notað, að öll önnur l.ákvæði, sem komi í bága við viðkomandi l., séu úr gildi numin.

Út af öllu þessu vil ég nú fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann taki málið út af dagskrá nú, svo tími vinnist til að athuga galla frv. og lagfæra þá. Það er skömm að því að samþ. frv., sem er svo hroðvirknislega samið, að það brýtur í bág við önnur 1., auk ýmsra annara ágalla. Og í sambandi við þetta er ekki hægt að komast hjá því að undrast afgreiðslu n. á þessu máli. Hún gefur víst út eitt af þessum einnar línu nál., sem sagt, segir ekki neitt. Hún leynir deildina því, að frv. sé að efni og formi óhafandi. Þetta tel ég óhæfilega afgreiðslu. Vil ég því fastlega mælast til, að hæstv. forseti taki málið af dagskrá að sinni, svo tími vinnist til að athuga frv., sem er að dómi eins manns úr n. óhafandi að efni og formi.

Viðvíkjandi brtt. mínum vil ég segja það, að mér þykir undarlegt, að hv. 1. landsk. vill ekki gera neinar umbætur á frv. Það er t. d. harkalegt að ákveða lægstu sekt 200 kr. fyrir hvað sáralítið brot sem er. Þá teldi ég það betra, að í l. stæði, að happdrætti mætti hafa innan ákveðins félagsskapar. En heldur en að láta fella þetta, tek ég a-liðinn aftur, enda er víst bezt, að allt sé sem vitlausast. Það er þó ekki rétt hjá hv. 1. landsk., að undir þeim kringumstæðum sé alltaf um muni að ræða. Happdrætti innan félags getur líka verið um einhverja peningaupphæð. En þar sem ég held, að ríkið muni aldrei fara að skipta sér af slíku innan félags, ef ekki er selt utan þess, þá tek ég a-liðinn aftur. Hinar brtt. mun ég láta ganga til atkv., en endurnýja þó þá ósk mína, að málið verði tekið út af dagskrá til frekari athugunar.