27.03.1933
Neðri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

1. mál, fjárlög 1934

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Það var ekki margt í ræðu hv. þm. Seyðf., sem tók til mín, og mun ég þess vegna ekki vera langorður. En þó eru nokkur atriði, sem ég get ekki látið hjá líða að gera nokkrar athugasemdir við.

Í ræðu sinni á föstudaginn átaldi hann stjórnina fyrir það, að hún hefði hvergi sparað fé, nema til vegagerða, símalagninga og annara verklegra framkvæmda. Telur Alþýðublaðið í dag, að sá sparnaður hafi numið um 330 þúsundum króna. Ég skal koma að þessu atriði síðar; ég vil aðeins minna hv. þm. á það, að honum hefir láðst að geta um ýmsan annan sparnað, sem stjórnin hefir lagt meiri áherzlu á.

Ef hver einstakur liður í landsreikningnum fyrir árið 1931 er borinn saman við tilsvarandi útgjaldaliði á árinu 1932, samkv. yfirliti því, sem hæstv. fjmrh. gaf er hann lagði fjárl.frv. fyrir þetta þing, þá telst mér svo til, að á liðunum um dómgæzlu, samgöngur á sjó, kennslumál og á vísinda- og bókmenntastyrkjum og ýmsum styrkjum í 16. gr. og útgjöldum samkv. lögum og fjáraukalögum, sé sparnaðurinn á þessum liðum eingöngu mikið á 3. millj. meiri á árinu 1932 en árið áður.

Í framsöguræðu sinni mun hæstv. fjmrh. hafa gert ráð fyrir, að greiðsla samkv. heimild laga og fjáraukalaga gæti orðið um 400 þús. kr. En á árinu 1931 var sá liður 1846 þús. kr. Hér er því um sparnað að ræða, sem nemur hér um bil 1½ millj. kr. Ég er ekki að segja, að það sé af neinni dyggð, að núverandi stj. hafi sýnt þennan sparnað. Ég er aðeins að benda á, að þessi upphæð er allmiklu hærri en þessi 330 þús., sem mér skildist að hv. þm. Seyðf. vildi telja hinar einu sparnaðartilraunir núverandi stjórnar. Svo skal ég koma aftur að vegamálunum.

Núverandi ríkisstj. settist að völdum í öndverðum júnímánuði síðastl. Þarf ekki að taka fram, að ríkissjóður var ekki harmafullur þá, og það leit ekki heldur svo út, að hann mundi verða það á næstunni.

Ég get minnzt á það, að í stað þess að tollstjórinn var vanur að koma með í ríkissjóð um 150 þús. kr. á hverri viku, kom um það leyti ekki nema 20 og upp í 46 þús. á viku, og þá um næstu mánaðamót átti að fara fram greiðsla til útlanda vegna afborgana af skuldum, sem nam á 2. millj. kr.

Ég held, að flestum verði það allljóst, að ríkisstj. þóttist verða að gæta allmikillar varfærni um útgjöld, sem mögulega varð hjá komizt, eins og þá stóð á.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að varið hefði verið til vega s. l. ár um 600 þús. kr. Hæstv. fjmrh. mun í fjármálaræðu sinni hafa talið þessa upphæð nær 700 þús. kr. En við þá upphæð má bæta láni, sem tekið var til brúargerða og var um 155 þús. kr. Við það hækkar upphæðin allmikið.

Við þá upphæð, sem þá munu hafa verið glöggir reikningar til um, má svo bæta allmikilli upphæð, sem varið var til vegagerða síðastl. haust, einmitt til þess meðfram að bæta úr atvinnuleysinu. Þá haustvinnu má því skoða sem atvinnubótavinnu, þó hún færi fram á vegum úti um land. Það, sem hefir verið varið til vega og brúargerða, hefir því numið, að láninu meðtöldu, um 930 þús. kr. skv. lokareikningsyfirliti vegamálastjóra. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. hafi vitað þetta. En ég skal upplýsa það, svo að hann komist að raun um, að sparnaður stj. hefir ekki fyrst og fremst eða aðallega komið fram á þeim liðum, sem lúta að því að veita alþýðumönnum atvinnu.

Hv. þm. talaði líka um að stj. hefði aðallega sparað fé til símans. Ég hefi nú hér fyrir framan mig yfirlit frá landssímastjóra, og skv. því hefir verið varið til síma um 578 þús. kr. samtals. Af þessari upphæð fór mestur hlutinn til þess að fullgera sjálfvirku símstöðina hér í Rvík og símakerfið hér í bænum. Ég hygg, að viðvíkjandi símakostnaði hér innan bæjar megi treysta orðum landssímastjórans sjálfs, að 2/3 af þeirri upphæð, eða 265 þús., hafi farið í beina vinnu til almennings, og megi þess vegna skoða þetta sem atvinnubótavinnu. Minnstur hluti þessa fjár var skv. fjárveitingu, heldur var verk þetta unnið sumpart fyrir símans eigið fé og sumpart notað til þess lán, sem áður var búið að taka til þessa fyrirtækis.

Ég held því, að hv. þm. hefði átt að kynna sér þetta mál lítið eitt nánar áður en hann hreyfði þessum harðyrðum í ræðu sinni. Hann komst svo að orði, að stjórnin hefði gert sitt til að auka kreppuna, með því að taka atvinnuna af fólkinu. Ég hygg, að þegar þessir 2 liðir eru lagðir saman, þá sjái hv. þm. sjálfur, að hann hefir nokkuð ofmælt. Jafnframt verð ég að benda á það, að stjórnin hefir veitt dálítið fram yfir þá fjárveitingu, sem hún hafði til atvinnubóta, og hefir auk þess greitt fyrir allmörgum sveitar- og bæjarfélögum um lántökur til framlags að þeirra hluta til atvinnubótanna, þó að stjórninni bæri eigi skylda til.

Til atvinnubóta hefir, að meðtöldu framlagi bæja og kaupstaða, verið varið um 948 þús. kr., og þótt ég sjái ekki eftir þessu fé og viti að þess hafi víðast verið full þörf til styrktar atvinnulitlum mönnum í landinu, mun svo vera háttað fjárhagnum eins og þingið hjó hann í hendur ríkisstjórn, að þó hv. þm. telji þennan styrk ekki skörulega í té látinn, þá má stj. þykja þetta allhá upphæð, borið saman við fé það, er stj. hefir umráð yfir.

Þá má og í þessu sambandi minna á, að á síðastl. vori leit ekki glæsilega út um horfur og hag af rekstri síldarverksmiðjunnar á Siglufirði. Voru þá líkur til, að ríkissjóður neyddist til að hlaupa verulega undir bagga með verksmiðjunni, til þess að hægt yrði að láta verksmiðjuna vinna. Leitaði stjórnin því samþykkis aðalflokkanna til þess að verksmiðjan yrði starfrækt, þótt horfur væru allt annað en góðar. Slíkt mátti skoða sem atvinnubætur, og ekki sem lítilfjörlegastar, því að með því var tryggð atvinna a. m. k. 1000 manns. Að svo vel tókst til með verksmiðjuna og rekstur hennar og hag, má kalla happ eitt, ef athugaðar eru horfur þær, er þar voru fyrir hendi.

Hv. þm. ávítar það harðlega, að í fjárlagafrv. stjórnarinnar fyrir næsta ár skuli ekki veitt nema 1 millj. kr. til verkl. framkvæmda, og þykir honum stj. skera það framlag hneykslanlega við neglur sér. Ég skal fúslega játa, að meira fé hefði þurft, en hinsvegar megum við gæta þess, að fáir eru þeir liðir fjárlagafrv., sem ekki eru skornir við neglur eða jafnvel kviku.

Hv. þm. er eflaust kunnugt um, að stj. mun síðar leggja fram frv. til tekjuaukalaga. Samkvæmt þeim mun teknanna ekki aflað með þeim hætti að taka tolla af hverjum brauðbita eða brýnustu nauðsynjum, sem landslýður þarf að hafa sér til lífsviðurværis, heldur með því að leggja toll á óþarfa allan og ónauðsynlegar vörur, og ennfremur með auknum tekju- og eignarskatti. Það, að stj. hefir ekki enn komið fram með þær tillögur, stafar af því, að þeim er ætlað að bíða þess, að unnt verði að afgreiða þær í sambandi við önnur mál, er miða að þessu sama marki: Ráðstafanir vegna kreppunnar.

Þá má benda á, að stj. hefir í hyggju að taka lán til brúargerða, þar sem héruðin bjóða fram slík lán, eins og t. d. Rangvellingar gerðu sl. ár. Þetta gerir stj. ekki af því, að hana langi til þess að hlaða láni á lán ofan, heldur er þessi ráðstöfun gerð til samgöngubóta og til eflingar atvinnunnar í landinu og miðar til þess, sem á að vera sameiginlegt markmið allra stjórnmálafl.: að vinna bug á atvinnuleysinu.

Jafnframt er stj. að athuga möguleikana fyrir lántöku til nýrra vega, ef heimild fæst til slíks. Vænti ég einmitt, að hv. þm. Seyðf. ljái þessari hugmynd óskipt lið sitt, því ekki myndu verkamenn í þeim landsfjórðungi, sem hans kjördæmi er í, fara varhluta af hlunnindum þeim, er þessi ráðagerð veitti landslýð, ef hún kæmist í framkvæmd, að því er snertir samgöngu- og atvinnubætur. Áherzlan er einmitt lögð á að greiða sem mest úr atvinnuþörf manna um land allt, a. m. k. svo, að allir fái nokkra bót, þótt ekki verði hægt að gera svo öllum líki.

Þá minntist hv. þm. á, að sér þætti stj. lítið sem ekkert hafa gert til úrlausnar kreppumálanna. Hann nefndi það, að skipuð hafi verið sérstök nefnd til þess að athuga hag og horfur landbúnaðarins, og mér skildist hann telja það mjög óviðeigandi að byrja á því starfi á undan öllu öðru. Ég mun síðar koma að því, hve „óviðeigandi“ það er. Hann sagði, að nefnd þessi hefði verið sein í verkum og ekkert lægi enn eftir hana. Nú verða menn að gera sér grein fyrir því, hve umfangsmikið og erfitt starf það er, sem nefnd þessi hefir með höndum. Safna þarf skýrslum um alla bændur á landinu og hag þeirra, og er það eigi alllítið starf, og að því loknu þarf að vinna úr skýrslum þessum, og tekur það eigi minni vinnu né tíma. Þetta starf er auðvitað bráðnauðsynlegt, til þess að fá fulla vitneskju um hag bændastéttarinnar í heild og fá þar með grundvöll til að byggja á. Bændanefndin er nú langt komin með starf sitt og hefir þegar ýms smærri frv. tilbúin, og eitt aðalfrumvarpið er nú svo langt komið, að búast má við því þegar í þessari viku, og verða þá hin tekin fyrir um leið. Auðvitað má um það deila eins og öll önnur mannanna verk, hversu vel hér hafi til tekizt, en að því hefir verið unnið af alúð að fá sem bezta úrlausn vandamálanna. Og einmitt vegna þessa hefir fjvn. flýtt afgreiðslu fjárlfrv. sem mest hún mátti, til þess að því betri tími ynnist fyrir þingið til þess að sinna kreppumálunum.

Hv. þm. taldi það óviðeigandi, að skipuð skyldi nefnd til þess að athuga eingöngu vandræði þau, sem þjaka landbúnaðinum, og að hún léti ekki annara hagi til sín taka. Því er þar til að svara, að ef þingið vildi láta skipa kreppunefnd, er vinna skyldi á víðari grundvelli, myndi stj. ekki á nokkurn hátt leggja stein í götu hennar. En ástæðan til þess, að stj. hefir skipað þessa sérstöku bændanefnd fyrst, á rót sína að rekja til þess, að á undanförnum þingum hafa mjög verið rædd vandamál verkamanna í bæjum og kaupstöðum, og hefir talsvert fé verið lagt fram til þess að létta undir með þeim. Það er auðvitað mjög lofsvert, að svo mikill áhugi skuli hafa sýndur verið til aðstoðar mönnum þeim, sem erfiðasta eiga aðstöðu í kaupstöðunum. En bar þá ekki að hugsa neitt um bændurna, þótt vitað sé, að kaup bænda hefir lækkað a. m. k. um 60%? Í blöðum jafnaðarmanna hefir heyrzt, að vörur bænda væru ósæmilega dýrar, m. ö. o. að kaup þeirra væri alltof hátt. Mér finnst sízt eðlilegt eða viðeigandi, að þm. þess flokks, sem mest ber hag verkamanna fyrir brjósti, skuli beita sér svo mjög á móti hagsmunum bænda, verkamannanna í sveitunum, sem hann gerir í afstöðu sinni til norsku samninganna. Ég ætla ekki að fjölyrða um það efni nú, en afstaða þessa hv. þm. var svo gerólík afstöðu hv. þm. Vestm., sem líka er fulltrúi sjávarmanna eins og hv. þm. Seyðf., að ég get ekki algerlega leitt það hjá mér. Hv. þm. Vestm. leit að vísu ekki svo á, að samningarnir væru hagfelldir fyrir menn við sjávarsíðuna, en hinsvegar áleit hann, að hér væri svo mikið í húfi fyrir bændastétt landsins, að hann vildi hennar vegna leggja nokkuð í sölur. Betur kynni ég við, að hv. þm. Seyðf. hefðu farizt orð um þetta mál á svipaða lund.

Vart verður um það deilt, að af alþýðumönnum á landinu hafi bændur einna versta aðstöðu. Hvert er kaup bænda fyrir þrotlausa vinnu allan ársins hring?

Enginn meðalbóndi, hvað þá einyrki, mun vinna færri stundir yfir árið en 3000—3300. Það þykir góður árangur, ef skepnuhöld blessast svo, að á árinu fái þeir í afurðir af eigin erfiði um 2000 pund af kjöti. Öðru er varla til að dreifa, því að ull er vitaverðlaus, hrekkur rétt til fyrir smölun og rúningu og öðrum kostnaði. Með því kjötverði, sem nú er í afskekktari sveitum landsins, er ekki hægt að reikna árskaup bónda, sem verður að strita hvíldarlaust allt árið, meira en 500 kr. En tímakaupið verður þá 16—17 aurar um klukkustundina.

Nú vil ég gjarnan trúa því, að þessi hv. þm. hafi af einlægni barizt fyrir kauphækkun verkamanna í bæjum. En þá kemur það undarlega fyrir sjónir, að hann skuli af alefli beita sér gegn því, að bændum opnist leið til þess, að þetta lága kaup þeirra væri tryggt, þótt ekki væri farið fram á meira. Og því vænti ég þess, að hv. þm. ljái lið þeim ráðstöfunum, sem síðar koma fram á þessu þingi til þess að rétta hag bænda.

Til hjálpar atvinnulitlum og atvinnulausum verkamönnum í kaupstöðum mun á þessu ári varið á 2. millj. króna. En fyrir bændur er enn engin sérstök kreppuráðstöfun gerð. Nú treysti ég því fastlega, að er frv. þessa efnis koma fyrir þingið, væntanl. í þessari viku, þá skerist þessi hv. þm. ekki úr leik um að létta undir með þeim, sem þyngstan bera baggann.