27.03.1933
Neðri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

1. mál, fjárlög 1934

Haraldur Guðmundsson:

Ég mun fara fljótt yfir sögu, vegna þess hve tíminn er naumur. Ég verð að segja, að ekki hafði hæstv atvmrh. miklu að svara. Niðurstaða sú, er hann komst að um bág kjör bænda, er sjálfsagt rétt. En svo segir hann, að köldu hafi andað í garð bænda af hálfu mín og Alþýðufl. og við spillt mjög fyrir með andstöðu við norsku samningana. Þetta er alveg rangt og órökfast, og vil ég hnekkja þeim ummælum hans. Ráðh. verður að hafa hugfast orðtækið: „Svo skal böl bæta, að biði ei annað meira“.

Hvernig var nú kaupið í tíð bændastj., þegar innflutningur var án takmarka? Hin glæsilega útkoma var hið áðurnefnda 500 kr. nettókaup. Hverju breytir að norsku samn. verði felldir? Því er borið við, að sölutregða verði á lágtollakjöti. En þessi lágtollur nemur 25 kr. á tunnu! Að sala á kjötinu fari hækkandi? Mér finnst hún fara lækkandi. Þó að á næsta ári verði fluttar út 11000 tn., verður útflutningur brátt hverfandi og smáminnkandi. En bændur selja víðar kjöt en til Noregs. Beztu markaðir þeirra eru einmitt kaupstaðirnir íslenzku. Og beztu viðskiptavinirnir eru einmitt íslenzkir verkamenn og sjómenn. Og ef svo illa skyldi til takast, að stórkostl. verði spillt kaupgetu þeirra, en það uggir mig að verði, ef samþ. verða norsku samn., þá býst ég við, að dýrkeypt yrði reynslan.

Þetta, sem ráðh. sagði um að blöð og þm. Alþýðufl. hefðu minnzt á, að bændur hefðu of hátt kaup, eru staðlausir stafir. Hinsvegar hefir verið bent á gífurlegan verðmun á afurðum þeirra, er erl. eru seldar og hér. En bændur skilja það vel, að því dýrara sem kjöt þeirra og smjör er, því minna geta verkamenn hér heima keypt af þeim, og þeir hafa vit á að skemma ekki sinn bezta markað með alltof háu verðlagi á vörum sínum.

Ekkert er eins hættulegt og að ala á andstæðum hagsmunum verkamanna og bænda. Þar er svo ástatt, að eins líf er annars víf, frekar en nokkursstaðar.

En að ég hafi farið rangt með tölur, þ. e. a. s. fjárhæðir þær, sem í fjárlfrv. eru, er eingöngu hæstv. fjmrh. að kenna, því, að ég hafði vizku mína úr bráðabirgðayfirliti því, er hann lagði fram hér í deildinni.

Ég hefi ekki verið mótfallinn tillögum til úrlausnar kreppuvandræðunum, síður en svo, en hitt átel ég harðlega, að stj. skuli loka augunum fyrir vandræðum verkamanna- og sjómannastéttarinnar, því að þær stéttir eiga um sárt að binda af völdum kreppunnar ekki síður en sú stétt, sem stj. virðist hér aðallega bera fyrir brjósti, líklega vegna þess, að þar hefir hún sitt kjörfylgi. Og hneykslanlegt finnst mér slíkt athæfi sem það, að ætla ekki nokkurn eyri til atvinnubóta í fjárl.frv. þessu, og fella niður 300000 kr., er til þessara þarfa voru hugsaðar. Um fylgi við kreppubollaleggingar hæstv. ráðh. vil ég engu lofa, fyrr en till. um það koma fram og ég sé, hvernig þær líta út.

Ég man eftir því, að á þingi 1931 klofnaði fjvn. Nd. um kreppumálin. Ég átti þá sæti í þeirri n. Og ég man eftir því, að íhöldin bæði, sjálfstæðið og framsókn, sem þá voru að hneigjast saman, voru sammála um það að kalla allt mitt tal og tillögur til að mæta kreppunni karlanöldur og kreppumas. En allir sjá þó nú, að hægra hefði verið þá í byrjun kreppunnar og betra árferði að draga úr áhrifum hennar, hefði röggsamlega verið á móti henni tekið. En þá brostu þeir bara að vitleysunni úr mér og samherjum mínum. —

Mér þótti hæstv. dómsmrh. vera undarlega byrstur í ræðu sinni. Það var þó sannarlega ekki ástæða fyrir hann að vera það, því eftir því sem honum sjálfum sagðist frá, þá hafði hann hrakið alla ræðu mína, þá er ég hélt á föstudaginn, svo „þar stóð ekki steinn yfir steini“, að því er honum sjálfum sagðist frá. — En þrátt fyrir þessa herfilegu útreið, sem ég fekk þá, að dómi hæstv. dómsmrh. sjálfs, að því er hann sagði, þá er ég þó ekki frá því, að einhver efi hafi falizt hið innra hjá hæstv. ráðh. sjálfum um „að ekki stæði steinn yfir steini“, því langur kafli af þeirri ræðu, er hann hélt nú, var einmitt svar við þeirri ræðu, er ég hélt á föstudaginn. Ég skal nú, eftir því sem tími minn endist, víkja nokkru nánar að þessum „sterku rökum“ hæstv. dómsmrh.

Hann sagðist hafa náðað marga fátæka menn. Ég skal nú ekki segja um það. Ég hefi ekki orðið var við, að svo hafi verið, og engar skýrslur hefir hæstv. ráðh. gefið um það. Það mun að vísu oft vera gert, að gefa þeim föngum, er hegða sér vel, eftir nokkuð af ídæmdri hegningu, og þó aldrei nema minnihlutann. En í þeim dæmum, er ég nefndi, var ýmist um uppgjöf saka að ræða að mestu eða öllu. Um siðferðisvottorð hv. 2. þm. Rang. í máli Þórðar Flygenrings hefi ég ekkert að segja. Það kemur þessu máli ekkert við. Þótt hann hafi fengið eitthvert vilyrði hjá fyrrv. dómsmrh. um náðun fyrir Þórð Flygenring, sem sá dómsmrh. reyndar neitar, þá var núv. dómsmrh. vitanlega ekkert bundinn af því. — Það væri líka laglegt, ef ráðh. væri jafnan bundinn af orðum og gerðum fyrirrennara síns og skyldur til að halda öllu svínaríi áfram, sem hann hefði byrjað á. Ef reglulegur skúrkur kæmist í ráðherrastól, þá ættu eftirmenn hans að vera bundnir við það að halda áfram sömu stefnu. En sé nú lítið nánar á þetta, þá sést á þessu vottorði, að fyrrv. dómsmrh. hefir ekki gert annað en gefið það í skyn, að tala mætti um náðun, þegar Þ. Flygenring hefði hálfnað refsinguna. En mannkærleiki hæstv. núv. dómsmrh. er það meiri, að hann náðar löngu áður en Þ. Flygenring er búinn með helming fangavistar sinnar. Og hann gerir meira. Hann veitir honum fullt atvinnufrelsi og hefir dóm hæstaréttar um það atriði að engu. Mun það vera eins dæmi, að dómsmrh. leyfi sér að ónýta svo gersamlega dóm hæstaréttar.

Í máli Ísleifs Briems vildi hæstv. dómsmrh. nú bjarga sér með því að segja, að hann hefði ekki verið dæmdur fyrir eiginlegt fals. Ég hefi nú ekki fyrr heyrt talað um „óeiginlegt fals“ og er satt að segja ekki svo fróður að vita, hvað það er. — En ef það er ekki nema óeiginlegt fals að setja falsað nafn undir bréf, þá veit ég ekki, hvað eiginlegt fals er.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að ekki væri neitt um það ákveðið enn, hvort Hesteyrarmálinu yrði áfrýjað. Í sambandi við það fór hann að tala um, að rannsókn þess hefði orðið dýr. Ég hélt nú satt að segja, að það ætti ekki að vera mælikvarði á framgang mála, hvort mikið eða lítið kostar að rannsaka þau. Ef svo væri, þá væri um að gera að hafa málin svo stór og umfangsmikil, að ekki þætti fært að rannsaka þau kostnaðarins vegna. Annars vildi nú hæstv. ráðh. telja þetta smámál — „músarmál“ nefndi hann það. Ég get nú ekki tekið undir það. Ég tel það ekkert smámál, að stór „forretning“ notar eingöngu svikin mælitæki.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að ég hefði þó sýnt þá sanngirni að segja frá því, hvernig greiðslunni til Guðm. Sveinbjörnssonar var varið. Mér datt nú satt að segja ekki í hug, að skrifstofustjórinn lægi með 16 mánaða gamla ávísun, undirskrifaða af núv. flokksbróður hæstv. dómsmrh., hv. þm. Str. En manni verður á að spyrja: Var ávísunin þá ekki orðin fyrnd eftir 16 mánuði? Var rétt að borga hana út?

Þá var það átið á varðskipunum. Hæstv. dómsmrh. viðhafði þau orð á föstudagskvöldið, að landhelgisgæzlan hefði nú kostað 700 þús. kr. árið 1930, og af því hefði ég etið talsvert mikið. Þetta tók ég eins og það var talað og skýrði frá því, að ég hefði borgað fæði mitt þar. Það gerði ég, og meira þó. Annars er ekki við mig að tala um stjórn varðskipanna. Um það ber honum að tala við fyrirrennara sinn. Annars hygg ég nú, að hæstv. dómsmrh. hafi sjálfur ferðazt með varðskipum, og líklega ekki einu sinni borgað fæði. Víst er um það, að hv. 4. landsk. ferðaðist með varðskipunum samtímis mér. Ekki hefir hæstv. dómsmrh. átalið það. En máske er það svo fyrir hans sjónum, að það sé óhæft, að varðskipin flytji jafnaðarmenn hafna á milli, en íhaldsmenn mega þau óátalið flytja, bæði lifandi og dauða. — Annars hafa varðskipin enga ferð farið mín vegna. Ég hefi aldrei pantað það. Ég hefi aðeins verið með þegar mér hefir verið boðið það og skipin átt að fara hvort sem var.

Um stjórnarskrármálið sagði hæstv. dómsmrh., að þar sem þing væri enn ekki hálfnað, væri of snemmt að spá nokkru um framgang þess. Ég hefi nú í því, sem ég hefi sagt um það mál, stuðzt við ummæli hæstv. forsrh. En af hans orðum hefir mátt draga það, að engar líkur væru fyrir framgangi þess á þessu þingi. En gott er að taka því, ef það kemst fram.

Þá taldi hæstv. dómsmrh. sig hafa unnið mikið miskunnarverk á hv. 2. landsk., Jóni Baldvinssyni. Ja, það er nú ljóti karlinn, þessi Jón Baldvinsson! Og hann er svei mér heppinn að eiga að jafnmiskunnsaman mann og hæstv. dómsmrh.! Dómsmrh. sagði, að á 2. landsk. hefðu komið hvorki meira né minna en 5 kærur. Þetta er líklega rétt. Ég fékk upplýsingar um þetta nú samstundis. Og ég held, að rétt sé að segja frá hverjum þessar 5 kærur eru. Sú 1. er frá Einari M. Jónassyni fyrrv. yfirvaldi Barðstrendinga, 2. er frá sama Einari M. Jónassyni, 3. er frá sama Einari M. Jónassyni, 4. er frá Þórði Flygenring og 5. er frá Pétri Magnússyni fyrrv. starfsmanni í Útvegsbankanum, sem var látinn fara þaðan nýlega af einhverjum ástæðum.

Það vantar svo sem ekki, að sumir af kærendunum séu landskunnir menn. En um kærurnar er mér eigi að öðru leyti kunnugt né efni þeirra. En ekki dettur mér í hug að biðja kærðan undan rannsókn, ef kærurnar eru réttmætar. Ég hygg þó reyndar, að þetta sé lítt sambærilegt við mál Ísleifs Briems.

Þá gat hæstv. dómsmrh. engu svarað því, sem ég sagði um sakarefnin á Sigurjón Á. Ólafsson og Sigurð Ólafsson, sem ég hafði áður lýst, hversu lítil væru. Hann þvertók nú fyrst fyrir, að ég hafi skýrt rétt frá þessu. Annaðhvort hefir hann gert það vísvitandi, eða þá að minnið hefir bilað. Ég tel þó víst, að hæstv. dómsmrh. hafi athugað sakarefnin, áður en hann fyrirskipaði sakamálsákæru gegn þessum mönnum. Ég vil ekki gera ráð fyrir, að hann fyrirskipi svona kærur „bara í slump“ án þess að hafa kynnt sér kæruatriðin á hvern og einn. En í stað þess að svara þessum atriðum las hann upp læknisvottorð um meiðsli, er lögregluþjónar höfðu fengið í bardaganum. Þær sakir eru bæði stórar og ljótar. Og ég hefi ekki með einu orði mælt bót þeirri stórorustu, er varð orsök til þeirra meiðsla. En þau meiðsli koma ekkert þeim tveim mönnum við, er ég nefndi. Hvorugur þeirra er sakaður um neitt slíkt. Sá, sem á að hafa tekið „aktivari“ þátt í orustunni, er sakaður um að hafa tekið í fingur á lögregluþjóni. En enginn lögregluþjónn kannast þó við það. En annars má nú um þennan atburð segja það, að sá veldur miklu, er upphafinu veldur. Og upphafið að þessum atburðum er vitanlega sá þröngi kostur, sem örsnauðum verkamönnum var settur, með því að bæjarstjórnarmeirihlutinn ákveður að setja atvinnubótakaupið niður um þrjðjung. Þetta er það, sem olli almennri gremju og síðan slysum. Boginn var spenntur of hátt í þetta sinn, og afleiðingin varð sú, að enginn réð við neitt.

Þá lét hæstv. dómsmrh. sér sæma að ráðast persónulega á mig. Það hafði ég þó ekki gert við hann. Aðeins talað um starfsemi hans sem ráðh. — Hann sagði, að á þeim skamma tíma, sem ég hefði stjórnað bankaútibúi á Ísafirði, hefði bankinn tapað stórfé, og talaði um hæstaréttardóm í sambandi við það. Það er nú fyrst og fremst svo, að ég hefi aldrei verið útibússtjóri á Ísafirði, svo eitthvað hlýtur hér að vera málum blandað. Ég vil mælast til þess, að ráðh. tilgreini nánari heimildir. Og hann má mín vegna lesa upp alla þá hæstaréttardóma, er honum þóknast, og einkum þann kafla úr þeim hæstaréttardómi, sem ég býst við, að hann eigi við og mér kemur við. Um annað úr þeim dómi varðar mig ekki.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri grundvallaratriði réttvísinnar að yfirheyra báða málsaðilja. Og til frekari áherzlu hafði hann yfir latneska setningu um þetta. Það þarf nú ekkert að pexa um þetta, því ég er sammála honum, að það sé sjálfsagt, að sakborningar séu yfirheyrðir og þeim gefinn fullur kostur á að verja mál sitt. En hér var ekki um neitt slíkt að ræða í máli bankastjóra Íslandsbanka. Þeir áttu að fá þess kost að bera varnir sínar fram fyrir dómara og afsanna þar, ef þeir gætu, þær sakir, sem á þá hafa verið bornar og skýrsla er að nokkru leyti til um. En ekkert þvílíkt átti sér stað. Þeir voru aldrei yfirheyrðir. Það var engin yfirheyrsla, þótt hæstv. dómsmrh., sem vitanlega er enginn dómari, spyrði þá um álit þeirra á skýrslunni. Það er engu líkara en að ráðh. og hæstiréttur ruglist saman í heila hæstv. ráðh. En þó hann sjálfsagt langi til að verða dómari í hæstarétti, þá er hann samt ekki orðinn það enn. Það eru dómstólarnir, sem eiga að annast próf í málunum, en ekki ráðh. Það, sem dómsmrh. hefir gert í þessu máli, er ekkert annað en skrípaleikur. Það sannar ekkert um sekt eða sýknu bankastjóranna. Það er einmitt hæstv. dómsmrh. sjálfur, sem kennir í veg fyrir, að þessari gullvægu latnesku reglu, er hann hafði yfir, væri fylgt í þessu máli. — Hæstv. ráðh. spurði mig að því, hvort ég vildi, að mál væri höfðað gegn mér fyrir manndráp. — Ja, spurningin er nú ekki gáfuleg, en ég hefi skrifað þetta svona eftir honum. Ég get svarað þessu með því, að ég vil helzt vera laus við öll manndráp, og því vitanlega líka slíkar kærur. En félli grunur á mig um slíkt og ég væri kærður fyrir, þá vildi ég hiklaust, að fram færi réttarrannsókn, svo mér gæfist kostur á að hreinsa mig af slíkri kæru, ef ég væri saklaus.

Þá vék hann að því, sem ég sagði um Nasreddin þarna í Tyrkíá, og í því sambandi fór hann að endurtaka það, að reikningarnir hefðu ekki verið rangir. En í dómsforsendum hæstaréttar í launagreiðslumáli Kristjáns Karlssonar er beinlínis sagt, að reikningar Íslandsbanka hafi verið rangir. Þar er tilfært tvennt: Að skuldir séu vantaldar um upphæð, er nemur á aðra millj. kr., og að eignir séu oftaldar um stórar upphæðir vegna tapaðra skulda, sem taldar eru í fullri upphæð á reikningum bankans. — Ráðh. segir, að Brynjólfur Stefánsson hafi reiknað það út, að reikningar bankans hafi verið réttir. Ég sé nú ekki að það raski neitt dómi hæstaréttar, þó einhver maður setjist niður og reikni út einhverja prósentu. Ég skil ekki þessa fullyrðingu hæstv. ráðh. Vill hann þá halda því fram, að dómur hæstaréttar um þetta hafi verið rangur? — Það þýðir ekkert að koma með ákúrur á mig út af þessu, því ég gerði ekki annað en að vitna til þessa hæstaréttardóms. Ég hefði gjarnan viljað lesa upp nokkra kafla, er sanna mál mitt, en tímans vegna verð ég að sleppa því. Hæstv. ráðh. sagðist ekki vera viss um, að bankastjórarnir hefðu talið útistandandi skuldir hærri en forsvaranlegt var. Ég fullyrði, að þetta er ekki rétt. Bankastjórarnir vissu beinlínis um, að sumar skuldirnar voru lítils virði. Skýrslan tekur af öll tvímæli um það. Ég skal taka sem dæmi, að útibússtjóri bankans í Vestmannaeyjum skrifar bankastjórunum bréf 1927 og kvartar þá undan viðskiptunum við Gísla Johnsen. Afleiðing þess er sú ein, að skuldin er færð til aðalbankans. Síðan er Gísla Johnsen lánað áfram, eins og ekkert hefði í skorizt, um milljón krónur. Og endirinn verður sá, að bankinn tapar á honum 1100 þús. kr. — Þetta bréf sýnir skýrt, að bankastjórarnir vissu, hvað var að gerast. Sama má segja um Sæmund Halldórsson í Stykkishólmi og Stefán Th. Jónsson á Seyðisfirði o. fl.

Læt ég svo útrætt við hæstv. dómsmrh. Við hæstv. forsrh. hefði ég gjarnan viljað tala nokkuð. En þar sem tími minn mun nú brátt á enda, verð ég að spara mér að mestu þá ánægju.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri unnt að leggja á meiri beina skatta. Nefndi hann í því sambandi útsvörin. Ég skal ekki fara mikið út í það, en ég fullyrði þó, að með beinum sköttum er hægt að fá nægilegt fjármagn til ríkisins þarfa. Hann sagði með nokkurri drýldni, að stj. hefði hækkað tekjuskattinn um 25%. Það var nú reyndar þingið, sem gerði það, eða gaf stj. a. m. k. heimild til þess. Það er nú gott til skýringar á þessu máli að setja upp dæmi í tölum. Tölur skýra marga hluti vel, þótt hæstv. ráðh. forðist slíkt. Sá heimilisfaðir, sem hefir 12000 kr. tekjur og fimm manns í heimili, borgar nú í tekjuskatt 462 kr. og í viðbót 25% af því nú, eða 116 kr. Hann greiðir því alls kr. 578. — Nú eru það margir menn hér á landi, einkum í Reykjavík, þar sem mestur auður er saman kominn, sem hafa svona háar tekjur og hærri. Hvar á nú að taka fé til landsins þarfa, ef ekki einmitt hjá svona tekjuháum mönnum? Þó þessi tekjuskattur væri tvöfaldaður og maður eins og sá, sem ég tók dæmi af, yrði að greiða 930 kr. í tekjuskatt, þá vil ég fullyrða, að 90—95% af þjóðinni yrði samt verr sett um efnalega afkomu. Þetta skýrist bezt með raunverulegum tölum. Almennt gaspur um, að ekki sé hægt að hækka beinu skattana, skýrir ekki neitt.

Hæstv. forseti tilkynnir mér það með sinni venjulegu blíðu, að tími minn sé nú búinn. Ég skal þá líka vera auðsveipur og hætta. En þar sem ég fæ ekki oftar tekið til máls, þá vil ég biðja háttv. áheyrendur að rifja upp fyrir sér orð mín, þegar hæstv. ráðh. fara að rífa þau niður, „svo ekki standi steinn yfir steini“.

Hæstv. forsrh. viðurkennir, að ketilhreinsun mín á stj. sé ófullkomin. Þetta er rétt. Ég veit það bezt sjálfur, að þar er um svo miklu, miklu meiri sora og sóðaskap að ræða, sem mér vinnst enginn tími til að taka til aðgerðar nú. Jafnvel sjálfur Herkúles mundi ekki hafa orkað því, nema þá að grafa stóran skurð og veita heilli Þjórsá inn í ketil stjórnarinnar. En þá uggir mig, að stj. mundi fljóta með líka.