18.04.1933
Neðri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

160. mál, veð

Héðinn Valdimarsson:

Ég get alls ekki verið samþykkur þessu frv. Það ætlast til þess, að bönkum sé veittur miklu meiri réttur en þeir hafa nú, og þann aukna rétt eiga þeir að fá á kostnað verkafólksins, því að frv. fellir jafnframt niður þann rétt, sem það hefir í fiskinum. Þetta finnst mér algerlega ástæðulaust, og á garðinn ráðizt þar, sem hann er lægstur, því að fjarri fer, að hagsmunir verkafólksins séu oftryggðir í þessum efnum.

Að því er snertir seinni breyt., þá eru það alls ekki bankarnir, sem lána fé til olíukaupa eða veiðarfæra, heldur verzlanir, sem láta útgerðarmenn venjul. fá 3—6 mánaða gjaldfrest við þau kaup. Yrði frv. þetta að lögum, gæti hæglega svo farið, að bankinn fengi að veði kol eða olíu, sem verzlanirnar ættu, en ekki útgerðarmaðurinn, sem veðsetur það; og það kæmi ekki kynlega fyrir sjónir þá, þótt verzlanirnar yrðu tregar til að veita gjaldfrest. Mér virðist ekki ástæða til annars en að halda sig framvegis við skipin sjálf, en láta lausaféð í friði. Líklegustu afleiðingarnar af þessu frv. yrðu sem sagt erfiðleikar á gjaldfresti. Bankarnir yrðu þá píndir til að borga út fyrir þetta, og það er ekki æskilegt fyrir útgerðarmenn og óþarfur grikkur gerður bönkunum. En hinsvegar er gersamlega óverjandi að svipta verkafólkið þessari einu kauptryggingu og gefa hana bönkunum, sem nóg hafa fyrir.