24.04.1933
Neðri deild: 56. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

160. mál, veð

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Þegar n. tók afstöðu til þessa máls, þá athugaði hún, hvað um er að ræða í 83. gr. skiptalaganna, meðal annars, að þessi aukna trygging fiskveðs gengi einnig út yfir verkakaup, og þótt n. hafi ekki öll verið viðstödd afgreiðslu frv. og ég geti því ekki sagt, að allir nm. séu því samþykkir, þá held ég fast við mína skoðun í málinu. Ég sé ekki neina ástæðu til að taka undan verkakaup. Með því að skapa fiskveðum aukna tryggingu á þann hátt, sem farið er fram á, er mikið unnið, því útgerðarmaður getur fengið meira lán og á þá hægara með að greiða verkakaup en ella. Ég gat um það við aðra umr., að sjómenn hefðu almennt ekki skaða af þessu, því þeir hafa jafnaðarlega tryggingu í skipinu, og er þá hér aðallega um verkafólk í landi að ræða. En ég get ekki fallizt á, að það eigi mikið á hættu, jafnvel þótt um gjaldþrot væri að ræða. Því varla mundi útgerðarmaður, sem á annað borð fær lán til atvinnurekstrar, vera látinn gefa sig upp fyrr en í vertíðarlok, en þá er verkafólk jafnaðarlega búið að fá allt sitt, þar sem það fær greitt kaup sitt vikulega. F. h. þess hluta allshn., sem stendur að nál., legg ég á móti því, að brtt. hv. 2. þm. Reykv. verði samþ.