24.04.1933
Neðri deild: 56. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

160. mál, veð

Héðinn Valdimarsson:

Ekki hefi ég mikla trú á því, að bankarnir veiti meiri lán út á fiskinn eftir samþykkt þessa frv. en áður, enda held ég, að þeir æski heldur meiri trygginga fyrir þegar veittum lánum. Það hefir verið fyrirskipað með lögum, að verkakaup skuli útborgað vikulega. En víða hafa verklýðsfélög gert verkföll til mótmæla gegn slælegu eftirliti ríkisstj. í þessum sökum. Og nú vil ég skora á hana að sjá um, að lögreglustjórar framfylgi lögum þessum betur en gert hefir verið.

Það er algerlega rangt, að útgerðarmenn liggi sjaldan með mjög miklar fiskbirgðir lengi. Ef til vill er þetta svo fyrir norðan, en hér sunnanlands, t. d. í Keflavík, Grindavík, Akranesi, Vestmannaeyjum og víðar, hefir orðið önnur reyndin á. Vertíðin byrjar í janúar, en aðalútflutningur hefst oft ekki fyrr en með haustinu. Og oft er ekki verkafólkinu borgað út fyrr, þótt sumir dragi það ekki lengur en fram í vertíðarlok. Hætta verkalýðsins liggur í augum uppi, og áður voru reistar skorður við því af löggjöfum, sem höfðu skilning á þessu, þótt eftirlit með þeim skorðum hafi ekki verið gott. Það er náttúrlega gott fyrir útgerðarmenn að komast að betri lánskjörum hjá bönkunum, en þótt vont sé fyrir bankana að tapa fé, er það helmingi verra fyrir verkafólk, sem ekki aflar sér þess, nema með sínum tveim höndum.