04.05.1933
Efri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

160. mál, veð

Frsm. (Pétur Magnússon):

Ég þarf ekki margt um þetta frv. að segja. Eins og það upphaflega var borið fram á þingi, var svo til ætlazt í 1. gr. frv., að fiskveð samkv. ákvæðum laga nr. 34 31. maí 1927 skyldu ganga á undan hinum svokölluðu forgangskröfum samkv. 83 gr. skiptalaganna. En þessu var breytt þannig í meðferð málsins í Nd., að vinnukröfur og opinber gjöld eru látin ganga á undan fiskveðinu eins og öðrum lausafjárveðum, en vitanlega eru það stærstu liðir 83. gr. skiptal.

Mér finnst í raun og veru, að 1. gr. frv. hafi litla þýðingu, eins og hún nú er orðin, og það megi einu gilda, hvort hún er látin haldast í frv. eða ekki. En allshn. Ed., sem hafði málið til athugunar, sá samt ekki ástæðu til þess að gera till. um að fella gr. burt, því að þá varð að flækja málinu milli deilda, en til þess þótti ekki ástæða.

Um 2. gr. frv. er það að segja, að hún heimilar að veðsetja með skipinu auk venjulegs fylgifjár kol og olíubirgðir, veiðarfæri og skipsbúnað. Þetta síðasta ákvæði er eðlilegt og í fyllsta samræmi við það, sem heimilað er í 5. gr. veðlaganna að því er til fasteigna kemur.

5. gr. segir svo: „Þegar jörð er sett að veði, er rétt svo um að semja, að jörðinni skuli fylgja, auk kúgilda og jarðarhúsa, önnur tiltekin hús á jörðinni, áhöld, búsgögn og heyforði sá, sem er á henni í hvert skipti“.

Hér er því farið inn á sömu braut að því er til skipa kemur. N. er því þeirrar skoðunar, að rétt sé að samþ. frv. óbreytt eins og það liggur fyrir.